FRÉTT MANNFJÖLDI 27. APRÍL 2022

Meðalævilengd karla á Íslandi var 80,9 ár árið 2021 og meðalævilengd kvenna 84,1 ár en meðalævilengd sýnir hve mörg ár einstaklingur á að meðaltali ólifuð við fæðingu ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans. Aldursbundin dánartíðni hefur lækkað á undanförnum áratugum og má því vænta þess að fólk lifi að jafnaði lengur en reiknuð meðalævilengd segir til um. Frá árinu 1988 hafa karlar bætt við sig rúmlega sex árum og konur rúmlega fjórum í meðalævilengd.

Á tíu ára tímabili (2011–2020) var meðalævi lengst í Sviss eða 83,3 ár. Fast á hæla þeirra komu Spánn (83,1) og Ítalía (83,0). Liechtenstein og Ísland voru í fjórða til fimmta sæti í Evrópu með ævilengd upp á 82,7 ár. Styst var meðalævilengd karla í Úkraínu (72,2), Hvíta-Rússlandi (73,3) og Georgíu (73,8).

Þegar einungis er horft til síðustu tveggja ára, 2019 og 2020, og tilraun gerð til þess að meta þau áhrif sem kórónuveirufaraldurinn hefur haft á dánartíðni, og þar með ævilengd, kemur í ljós að Liechtenstein virðist hafa orðið verst úti vegna faraldursins af þeim Evrópuríkjum sem þegar hafa skilað inn gögnum fyrir árið 2020 en þar styttist ævilengdin um 2,4 ár. Þar á eftir kemur Spánn (1,6), Búlgaría (1,5) og Litháen, Pólland og Rúmenía þar sem ævilengdin styttist um 1,4 ár.

Það land sem samkvæmt þessum mælikvarða virðist hafa farið best út úr faraldrinum er Noregur en þar jókst ævilengdin á milli áranna 2019 og 2020 um 0,3 ár. Næst á eftir þeim kemur Finnland og Danmörk (0,1) og Lettland og Kýpur en þar stóð ævilengdin í stað á milli ára. Samkvæmt þessum lista er Ísland í 6. sæti yfir þau lönd sem virðast hafa komist einna best frá faraldrinum en þess ber að geta að gögn hafa enn ekki borist frá Þýskalandi, Bretlandi og Tyrklandi ásamt tólf öðrum Evrópuþjóðum.

Ungbarnadauði í Evrópu minnstur á Íslandi
Árið 2021 létust 2.333 einstaklingar sem búsettur voru á Íslandi, 1.177 karlar og 1.156 konur. Dánartíðni var 6,3 látnir á hverja 1.000 íbúa.

Árið 2021 mældist ungbarnadauði á Íslandi 3,3 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum og þarf að fara aftur til ársins 1997 til að finna hærra gildi ungbarnadauða fyrir einstakt ár. Þegar hins vegar er horft á tíu ára tímabili (2010–2019) var ungbarnadauði á Íslandi að meðaltali 1,7 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum. Hvergi í Evrópu var ungbarnadauði jafn fátíður og hér. Ungbarnadauði var að meðaltali 2,1 barn í Finnlandi og í Slóveníu, 2,4 í Svíþjóð og Noregi og 2,5 í Eistlandi. Tíðastur var ungbarnadauði í Aserbaídsjan, 11,0 af hverjum 1.000 lifandi fæddum yfir tímabilið 2010-2019 samkvæmt tölum hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat).

Ævilengd háskólamenntaðra aukist meira en grunn- og framhaldskólamenntaðra
Árið 2021 var ólifuð meðalævi 30 ára kvenna með grunnskólamenntun 52,7 ár á meðan þrítugir grunnskólamenntaðir karlar máttu búast við því að lifa 49,2 ár til viðbótar. Konur með framhaldsskólamenntun gátu vænst þess að lifa tæplega þremur árum lengur en stallsystur þeirra með grunnskólamenntun eða í 55,6 ár frá 30 ára aldri. Munurinn var aðeins meiri á meðal karla þar sem ólifuð ævi 30 ára karla með framhaldsskólamenntun var að meðaltali 52,2 ár eða þremur árum lengri en karla með grunnskólamenntun.

Þrítugir háskólamenntaðir einstaklingar eiga von á því að lifa mun lengur en þeir sem minni menntun hafa. Þannig var ætluð ólifuð meðalævi 30 ára kvenna með háskólamenntun 56,3 ár eða 3,6 árum lengri en þrítugra kvenna með grunnskólamenntun árið 2021. Ólifuð ævilengd 30 ára karla með háskólamenntun var 54,2 ár eða tæpum fimm árum lengri en þrítugra karla með grunnskólamenntun.

Skýringar
Ungbarnadauði er stöðluð alþjóðleg vísitala sem sýnir dánartíðni barna á fyrsta aldursári. Hún er reiknuð með því að deila fjölda látinna á fyrsta aldursári í fjölda lifandi fæddra í árgangi og margfalda niðurstöðuna með 1.000.

Varðandi samanburð á tölum um ævilengd og ungbarnadauða í Evrópu er rétt að geta þess að tölurnar fyrir 2011–2020 byggja á útreikningum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Undanskilin úr samanburðinum eru gögn frá Andorra, Kósóvó, Moldavíu, Rússlandi og San Maríno sökum þess að upplýsingar vantar fyrir meirihluta tímabilsins.

Ævilengd eftir menntunarstigi einstakra ára byggist á meðaltali á viðmiðunarári að viðbættum fjórum árum þar á undan. Þannig eru útreikningar fyrir 2021 byggðir á meðaltali áranna 2017-2021.

Ólifuð meðalævi sýnir hve mörg æviár einstaklingur, karl eða kona, á að meðaltali ólifuð miðað við að hann/hún sé á lífi við upphaf tiltekins aldursskeiðs. Algengt er að reikna ólifaða meðalævi við fæðingu, 1 árs aldur, 15 ára, 50 ára, 65 ára og 80 ára aldur. Ólifuð meðalævi við fæðingu er jafnframt kölluð meðalævilengd.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.