Vinsamlegast athugið að þessari fréttatilkynningu var breytt 22. 02. 2013 frá upprunalegri útgáfu.

Árið 2010 dóu 2.017 einstaklingar sem búsettir voru á Íslandi, 1.063 karlar og 954 konur. Dánartíðni var 6,3 látnir á hverja 1.000 íbúa og stóð í stað frá árinu 2009.

Ungbarnadauði á Íslandi var 2,2 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum árið 2010 en var 2,0 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum á árabilinu 2006-2010.

Árið 2010 gátu nýfæddir drengir vænst þess að ná að meðaltali 79,7 ára aldri, en stúlkur 83,7 ára aldri. Á fimm ára tímabili, 2006-2010 var meðalævi karla 79,6 ár en kvenna 83,3 ár.

Ungbarnadauði lægstur á Íslandi meðal Evrópuþjóða
Árið 2009 var ungbarnadauði á Íslandi 1,8 af 1.000 lifandi fæddum. Sama ár var ungbarnadauði í Evrópusambandinu 4,3. Hvergi í Evrópu var ungbarnadauði jafn lágur og hér árið 2009. Næstir Íslandi komu Slóvenar en þar var ungbarnadauði 2,4 af 1.000 lifandi fæddum. Annars staðar á Norðurlöndum var ungbarnadauði á bilinu 2,5-3,1. Í Evrópu var ungbarnadauði tíðastur í Tyrklandi eða 15,3 af hverjum 1,000 lifandi fæddum árið 2009.


Íslenskir karlar þeir langlífustu í Evrópu
Lífslíkur íslenskra karla hafa batnað mjög á undanförnum árum. Frá árinu 2000 hafa þeir bætt við sig rúmlega tveimur árum í meðalævilengd. Árið 2009 var meðalævilengd íslenskra karla 79,7 ár og skipuðu þeir fyrsta sætið meðal Evrópuþjóða það ár. Í öðru sæti voru karlar í Sviss en þar gátu nýfæddir drengir vænst þess að verða 79,3 ára. Styst er meðalævilengd evrópskra karla í Úkraínu (62,0 ár), Rússlandi (62,4 ár) og Hvíta-Rússlandi (64,7 ár).

Íslenskar konur í fimmta sæti
Lengi vel voru lífslíkur íslenskra kvenna hæstar í heiminum en þær hafa látið undan síga á þessari öld. Árið 2009 var meðalævilengd íslenskra kvenna 83,3 ár og skipuðu þær fimmta sætið meðal Evrópuþjóða. Elstar evrópskra kvenna verða konur í Frakklandi (84,3 ár), Spáni (84,2 ár) og Sviss (84,0 ár). Meðalævilengd evrópskra kvenna er styst í Moldóvu (73,3 ár) og Úkraínu (73,6 ár).

Skýringar
Um er að ræða bráðabirgðatölur yfir dána fyrir árið 2010. Þær verða endurskoðaðar í byrjun september 2011.

Ungbarnadauði er alþjóðleg stöðluð vísitala á dánartíðni barna á fyrsta aldursári. Hún er reiknuð með því að deila fjölda látinna á fyrsta aldursári með fjölda lifandi fæddra í árgangi og margfalda niðurstöðuna með 1.000.

Við samanburð á tölum um ævilengd í Evrópu er rétt að geta þess að íslensku tölurnar byggja á tveggja ára meðaltali, en aðrar tölur eru byggðar á gögnum hvers árs fyrir sig. Tölur fyrir Úkraínu, Ítalíu, Albaníu, Bretland og Georgíu byggja á gögnum frá árinu 2008.

Talnaefni