Yfir tíu ára tímabil frá 2008 til 2017 dóu flestir úr blóðrásarsjúkdómum eða 7.065 landsmenn sem svarar til rúmlega þriðjungs allra látinna (34%). Þar á eftir létust 6.031 úr æxlum eða 29% allra látinna. Alls létust 1.083 úr sjúkdómum í taugakerfi (9,5%) og 1.812 úr sjúkdómum í öndunarfærum (8,7%). Fæstir dóu vegna ytri orsaka eða 1.331 sem svarar til 6% af heildarfjölda látinna yfir tímabilið 2008–2017, sjá nánar í töflu 1.
Hagstofa Íslands birtir nú talnaefni um dánarmein fyrir árin 2016 og 2017. Tölur um dánarmein byggjast á dánarvottorðum allra sem létust á tímabilinu og áttu lögheimili á Íslandi við andlát.

Algengustu dánarmein eftir kyni tímabilið 2008–2017, %
AllsKarlarKonur
Blóðrásarkerfi33,83532,7
Æxli28,93027.8
Taugakerfi og skynfæri9,57,911,1
Öndunarfæri8,77,410
Ytri orsakir6,48,24,6
Önnur dánarmein12,711,613,8

Þegar rýnt er í dánarmein hjá yngri aldursflokkum kemur í ljós að dánarmein skiptast þar með öðrum hætti en þegar horft er til dánarmeina allra. Fram að 34 ára deyja til að mynda flestir úr ytri orsökum eða 54%. Töluverður munur er á kynjunum en 61% karla deyja af ytri orsökum á móti 38% kvenna. Í aldursflokknum 35–64 ára deyja flestir úr æxlum eða 46%. Þar er einnig mikill munur á kynjunum þar sem mun fleiri konur (59%) deyja úr æxlum á þessu aldursskeiði en karlar (37%). Þó ber að hafa í huga í þessu samhengi að hlutfallslega færri deyja yngri en 65 árs eða einungis tæp 17% allra látinna yfir tímabilið 2008–2017. Í aldursflokknum 65–79 ára eru æxli enn algengust með 43% hlutdeild á móti 28% vegna blóðrásarsjúkdóma en röðun annarra dánarorsaka sama og fyrir heildarfjölda látinna.

Dánarorsakir karla eftir aldri 2008-2017

Dánarorsakir kvenna eftir aldri 2008-2017

Sjúkdómar í taugakerfum jukust um 96% á tímabilinu 1998–2017
Heildarfjöldi dauðsfalla og hlutfall einstakra dánarorsaka er breytilegt eftir aldurssamsetningu mannfjöldans. Hagstofa Íslands, eins og hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, notar aldursstaðlaða dánartíðni (aldursstaðlað á hverja 100.000 íbúa af staðalþýði: Eurostat–2013) til að auðvelda samanburð á dánartíðni bæði yfir tíma og milli landa. Mynd 3 sýnir hvernig aldursstöðluð dánartíðni algengustu orsaka hefur þróast yfir tíma. Sjúkdómar í taugakerfi og skynfærum jukust mest á tímabilinu, fóru úr 51 af hverjum 100.000 íbúum árið 1998 í tæp 100 árið 2017. Hækkunin skýrist af 11% hlutfallslegri fjölgun látinna á aldrinum 85 ára og eldri en sjúkdómar í taugakerfum, svo sem Alzheimers og Parkinson, eru líklegri til að hrjá eldra fólk. Aldursstöðluð dánartíðni vegna sjúkdóma í blóðrásarkerfi minnkaði aftur á móti um 44% (fór úr 478 í 268 af hverjum 100.000 íbúum) á tímabilinu 1998–2017.

Aldursstöðluð dánartíðni

Dánartíðni vegna illkynja æxla hefur þróast á svipaðan hátt en hún hefur lækkað um 27% á undanförnum 20 árum. Um fjórðung allra dánarmeina vegna æxla má rekja til illkynja æxlis í barka, berkju og lunga. Aldursstöðluð dánartíðni vegna illkynja æxlis í barka, berkju og lunga hefur lækkað nokkuð hjá báðum kynjum, sérstaklega síðustu ár og er nú svo komið að dánartíðni kynjanna er nálægt því jöfn síðustu ár. Þetta er talsvert önnur þróun en í öðrum ríkjum Evrópu þar sem illkynja æxli í lunga er rúmlega tvisvar sinnum algengari dánarorsök hjá körlum en konum samanber nýleg gögn frá Eurostat í mynd 4.

Aldursstöðluð dánartíðni í Evróðu árið 2015

Talnaefni