FRÉTT LÍFSKJÖR 23. MARS 2015

Árið 2014 bjuggu 11,4% barna á heimilum sem áttu mjög erfitt með að láta enda ná saman, 10% á heimilum undir lágtekjumörkum og 7,7% á heimilum sem skorti efnisleg gæði. Hlutfall barna sem bjó á heimilum sem áttu mjög erfitt með að láta enda ná saman lækkaði um 2,9 prósentustig á milli ára, hlutfallið undir lágtekjumörkum um 2,2 prósentustig og hlutfallið sem skorti efnisleg gæði um 0,6%.


 
Árið 2013 var hlutfall barna á heimilum undir lágtekjumörkum á Íslandi það fimmta lægsta í Evrópu og hlutfall barna á heimilum sem skorti efnisleg gæði það sjötta lægsta. Hlutfall heimila barna sem áttu mjög erfitt með að láta enda ná saman er hinsvegar svipað og meðaltal evrusvæðisins.


 

Það er fremur fátítt að börn á Íslandi skorti tiltekin lífsgæði. Á þessu er ein undantekning sem er þátttaka í reglulegri tómstundaiðju. Árið 2014 var tæpur þriðjungur barna á Íslandi ekki í reglulegu tómstundastarfi en árið 2009 var hlutfallið 14,3%.


 
Árið 2014 voru 37% barna í lægsta fimmungi tekjudreifingarinnar ekki í reglulegri tómstundaiðju samanborið við 18,5% í hæsta fimmtungnum. Það á einnig við um 45,1% barna foreldra sem aðeins höfðu lokið grunnnámi samanborið við 27,5% barna foreldra sem höfðu lokið háskólanámi.

Félagsvísar: Lífskjör og lífsgæði barna - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.