FRÉTT LÍFSKJÖR 12. MARS 2021

Jafnvægi á milli vinnu og einkalífs hefur aukist á íslenskum vinnumarkaði síðustu ár. Hlutfall háskólamenntaðra hefur hækkað síðustu ár og þeir sem eru með framhalds- eða háskólamenntun geta búist við að lifa lengur en þeir sem hafa einungis lokið grunnskóla.

Þetta er á meðal þess sem lesa má um í nýjum velsældarvísum á vef Hagstofu Íslands þar sem finna má 39 mælikvarða sem er ætlað að gefa heildarmynd af hagsæld og lífsgæðum landsmanna yfir tíma. Mælikvarðarnir fela í sér hefðbundnar efnahagsmælingar, svo sem verga landsframleiðslu og hagvöxt, en auk þeirra eru mælingar á umhverfis- og félagslegum þáttum er varða lífsgæði almennings svo sem heilsu, húsnæði, atvinnu, menntun, tekjur, gæði lofts og vatns svo eitthvað sé nefnt. Að auki er velsældarmælingum Embættis landlæknis miðlað samhliða velsældarvísunum.

Velsældarvísarnir byggja á tillögum nefndar forsætisráðuneytisins um mælikvarða um hagsæld og lífsgæði og var Hagstofunni falið að annast miðlun vísanna. Á alþjóðavísu er víða unnið að þróun slíkra mælikvarða sem skref í átt að sameiginlegum skilningi á því hvaða þættir tengjast velsæld.

Skortur efnis- og félagslegra gæða dregst saman
Í velsældarvísunum kemur einnig fram að hlutfall þeirra sem skorti efnis- og félagsleg gæði hafi minnkað úr 5,8% árið 2014 niður í 2,9% 2018. Enn fremur hafi lágtekjuhlutfall haldist nokkuð stöðugt frá árinu 2004, þegar hlutfallið mældist 10%, til ársins 2018 þegar það var 9%.

Á fyrsta ársfjórðungi 2003 höfðu 27,9% fólks unnið meira en 49 stundir á viku að jafnaði en á fyrsta ársfjórðungi 2020 var hlutfallið 14,5%. Hlutfall þeirra sem vinna tvö eða fleiri störf hefur einnig minnkað. Hlutfall þeirra sem vinna óhefðbundinn vinnutíma hefur nokkurn veginn staðið í stað.

Þá má einnig sjá í velsældarvísunum að árlegur fjöldi hektara vegna landgræðslu jókst úr 14.843 hekturum árið 2010 í 16.549 hektara árið 2019. Hlutfall endurnýjanlegrar orku af heildarnotkun hefur hækkað jafnt og þétt frá árinu 1940 þegar það var 12,4%. Hlutfallið var komið í 72,4% árið 2000 og 83,8% árið 2019.

Velsældarvísar - Miðlun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði á Íslandi

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1281 , netfang Anton.Karlsson@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.