Félagsmálaráðuneytið1 og Hagstofa Íslands hafa frá árinu 2012, að frumkvæði Velferðarvaktarinnar, safnað og birt árlega ýmiss konar samfélagslegar mælingar undir yfirskriftinni félagsvísar. Frá þeim tíma hefur orðið mikil þróun í sams konar vísum hjá öðrum hagstofum og alþjóðastofnunum sem gaf tilefni til endurskoðunar á félagsvísum. Markmið endurskoðunarinnar er að skýra nánar hvað vísarnir eigi að mæla, meta gæði mælinga og útskýra hugtök félagsvísa með hliðsjón af þeirri þróun sem hefur átt sér stað erlendis. Jafnframt var farið kerfisbundið yfir þær mælingar sem gefnar hafa verið út undir yfirskrift félagsvísa hérlendis. Í meðfylgjandi greinargerð er þessari vinnu lýst.

Mótaður var rammi félagslegrar velferðar sem var ætlað að vera í senn réttmætur, hnitmiðaður og tæmandi. Skilgreind var 41 tölfræðileg mælistika sem kallast félagsvísar. Hver og einn félagsvísir er mæling á ákveðinni vídd félagslegrar velferðar en víddir eru ellefu talsins. Markmiðið er að fyrir hverja vídd séu að minnsta kosti þrír félagsvísar.

Víddir félagslegrar velferðar Víddir félagslegrar velferðar

Þegar félagsleg velferð er metin er mikilvægt að hafa í huga að veik félagsleg staða birtist ekki aðeins í fjárhagsörðugleikum. Sá sem skortir bæði öryggi, félagsleg tengsl og heilsu getur verið í verri stöðu en sá sem býr eingöngu við laka heilsu. Með því að horfa til margra vídda félagslegrar velferðar, er hægt að gera fjölþættum skorti og ójöfnuði betur skil. Nýjum ramma félagsvísa er ætlað að auðvelda samanburð á félagslegri stöðu milli samfélagshópa.

Framvegis verður fjallað um almenna stöðu félagslegrar velferðar í árlegri kjarnaútgáfu félagsvísa. Í sérútgáfum verður félagsleg velferð mismunandi samfélagshópa skoðuð eða kafað dýpra ofan í ákveðna vídd félagslegrar velferðar. Stefnt er að fyrstu útgáfu í samræmi við endurskoðun félagsvísa 31. janúar. Í henni verður staða innflytjenda borin saman við innlenda í samræmi við þá aðferðafræði sem lýst er í greinagerð um endurskoðun félagsvísa.

Almennir félagsvísar hafa áður eingöngu verið birtir af Velferðaráðuneytinu en munu nú einnig birtast hjá Hagstofu Íslands. Með því að birta félagsvísana á vef Hagstofu Íslands geta félagsvísar til framtíðar tekið mið af almennri þróun innviða og miðlunar hjá Hagstofu Íslands.

1Áður Velferðarráðuneytið

Endurskoðun félagsvísa - Greinargerð