Árið 2018 urðu 2,8% Íslendinga fyrir óþægindum vegna glæpa í nærumhverfi sínu. Frá árinu 2013 hefur hlutfallið verið um það bil 2% á hverju ári en fór hæst árin 2009 og 2010 þegar nærri 4% urðu vör við fyrrnefnd óþægindi. Þetta er meðal nýrra niðurstaðna úr Lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Niðurstöðurnar byggja á svörum fólks við því hvort það verði fyrir óþægindum vegna skemmdarverka, ofbeldis eða ólöglegrar starfsemi í nágrennininu.

Samanborið við hin Norðurlöndin er hlutfallið mun lægra á Íslandi. Árið 2018 var hlutfallið 14,4% í Svíþjóð, 7,4% í Danmörku, 7% í Finnlandi og 4,2% í Noregi.

Hlutfall íbúa sem verða varir við glæpi, ofbeldi eða skemmdarverk í nærumhverfi sínu

Ísland og Írland bráðabirgðatölur, Bretland bráðabirgðatölur, lítill áreiðanleiki
Sjá á vef Eurostat

65 ára og eldri verða síður varir við glæpi
Nokkur munur er milli aldurshópa þegar skoðað er hverjir verða varir við glæpi í nærumhverfi sínu. Árið 2018 hafði um 1,1% þeirra sem eru 65 ára og eldri orðið varir við glæpi en 4,5% á aldrinum 25 - 34 ára. Á tímabilinu 2004 - 2018 eru nokkur tengsl milli tekna og þess að upplifa glæpi í nærumhverfi. Árið 2018 höfðu innan við 2% í efsta tekjufimmtungnum orðið vör við glæpi í umhverfinu borið saman við 5% í lægsta tekjufimmtungnum. Hlutfallið er gjarnan hæst í neðri hluta tekjudreifingarinnar.

Tæplega átta af hundraði finna fyrir mengun
Um 7,6% landsmanna urðu varir við mengun eða óhreinindi í nærumhverfi sínu árið 2018. Hefur hlutfallið nokkurn vegin staðið í stað frá 2016 en það fór hæst árin 2007 til 2011 þegar það var um og yfir 10% árlega. Samanborið við önnur lönd Evrópu eru þrjú lönd með lægra hlutfall fyrir árið 2018; Króatía (6,3%), Svíþjóð (6,4%) og Írland (6,5%). Á sama ári var hlutfallið hæst á Möltu (29,7%) en næsthæst í Þýskalandi (24,8%). Sjá á vef Eurostat.

Um gögnin
Niðurstöðurnar eru unnar úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Lífskjararannsókn Hagstofunnar er langsniðsrannsókn þar sem haft er samband við hátt í 5 þúsund heimili árlega. Frekari upplýsingar um lífskjararannsóknina má lesa í lýsigögnum. Niðurstöður fyrir árið 2018 eru bráðabirgðatölur.

Talnaefni