FRÉTT LÍFSKJÖR 21. MAÍ 2010

Samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar 2009 höfðu 7,1% heimila lent í vanskilum með húsnæðislán/leigu á undanförnum 12 mánuðum og 10,3% heimila höfðu lent í vanskilum með önnur lán á sama tímabili. Árið 2009 áttu 39% heimila erfitt með að ná endum saman. 15% heimila töldu húsnæðiskostnað þunga byrði og svipað hlutfall heimila taldi greiðslubyrði annarra lána en húsnæðislána/leigu vera þunga. Tæp 30% heimila gátu í ársbyrjun 2009 ekki mætt óvæntum útgjöldum að upphæð 130 þúsund með þeim leiðum sem þau venjulega nýta til að standa undir útgjöldum. Þegar heildarmyndin er skoðuð var fjárhagsstaða heimilanna verri í ársbyrjun 2009 en næstu ár á undan.


Skýringar: Öryggisbil (95%) 2009: Getur ekki mætt óvæntum útgjöldum ±2,0, erfitt að ná endum saman ±2,0.

Þegar horft er til heimilisgerðar kemur í ljós að einstæðir foreldrar voru helst í fjárhagsvandræðum í ársbyrjun 2009. Barnlaus heimili þar sem búa fleiri en einn fullorðinn stóðu best fjárhagslega.

Þegar heimili voru greind eftir meðalaldri fullorðinna einstaklinga virðast heimili með meðalaldurinn 30–39 ára vera í mestum erfiðleikum. Almennt má segja að því hærri sem meðalaldur fullorðinna einstaklinga er á heimilinu því betur virðast heimilin vera stödd fjárhagslega.

Hagstofa Íslands hefur gefið út Hagtíðindi þar sem nánar er greint frá niðurstöðum um fjárhagsstöðu heimilanna 2004 til 2009.

Framkvæmd
Niðurstöðurnar eru fengnar úr lífskjararannsókn Hagstofunnar en hún er liður í samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins (EU-SILC). Úrtak lífskjararannsóknarinnar 2009 var 4.144 heimili. Eftir að þeir sem eru látnir og búsettir erlendis hafa verið dregnir frá var nettó úrtakið 3.972 heimili. Svör fengust frá 2.903 heimilum sem er 73% svarhlutfall. Lífskjararannsóknin var framkvæmd í febrúar til maí árið 2009.

Fjárhagsstaða heimilanna 2004-2009 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.