Niðurstöður rannsóknar á því hvort að hækkandi starfsaldur og aukin menntun hafi áhrif á þróun launavísitölu benda til þess að áhrifin séu lítil, eða 0,024% að meðaltali á mánuði. Áhrifin eru ekki marktæk og geta verið ýmist til hækkunar eða lækkunar á mánaðarlegri launavísitölu. Niðurstöður rannsókna gefa ekki tilefni til að breyta útreikningi launavísitölu.

Rannsóknin var gerð í kjölfar úttektar á launavísitölu sem framkvæmd var af óháðum erlendum sérfræðingi en launavísitala Hagstofu hefur sætt gagnrýni, einkum vegna þeirra aðferða sem er beitt. Úttektin staðfesti að launavísitalan er traust, byggir á viðurkenndum aðferðafræðilega sterkum grunni og áreiðanlegum gögnum fyrir útreikning vísitölunnar. Lagt var til að Hagstofan myndi hvorki breyta gagnasöfnun né aðferðum sem liggja til grundvallar launavísitölu en skoðað yrði hvort áhrifa af hækkandi starfsaldri og aukinni menntun gæti í vísitölunni með þeim hætti sem nú hefur verið gert. Í úttektinni voru einnig færð rök fyrir því að forðast beri að byggja vísitölur launa í grunni vísitölunnar á breytingum meðallauna og nota þess í stað afburðavísitölu eins og mælt er með alþjóðlega og Hagstofan notar við útreikning launavísitölunnar.

Gagnrýni á launavísitölu
Hagstofa Íslands hefur sætt gagnrýni vegna þeirra aðferða sem er beitt við útreikning launavísitölu. Í því sambandi hefur verið bent á að launavísitalan ofmeti launabreytingar, einkum vegna þess að útreikningur hennar byggir á pöruðum samanburði. Hann felur í sér að mæld er breyting launa á milli samliggjandi tímapunkta hjá fastri einingu sem er algeng aðferð við gæðaleiðréttingar verðvísitalna. Gagnrýnin byggði að hluta til á samanburði launavísitölu og meðallauna en um er að ræða mismunandi mælikvarða með ólíkan tilgang og útreikningsaðferðir. Þá var bent á að bæta mætti lýsingar og rannsóknir á launavísitölu.

Um launavísitölu gilda sérlög nr. 89/1989 og má rekja sögulegar rætur hennar til verðtryggingu fjárskuldbindinga. Í lögunum kemur fram að launavísitalan á að sýna launabreytingar fyrir fastan vinnutíma. Í athugasemdum með frumvarpi að lögum um launavísitölu er tekið fram að ekki er ætlast til að breytingar á vinnutíma og samsetningu hans hafi áhrif á launavísitölu nema um sé að ræða samningsbundnar breytingar sem jafna má við launabreytingar. Hagstofan hefur túlkað þessi sjónarmið löggjafans sem svo að um sé að ræða verðvísitölu. Á alþjóðavettvangi er ekki til samræmd aðferðafræði um útreikning á verðvísitölum launa og fá dæmi um að önnur ríki reikni slíkar vísitölur. Ástæður þess eru oft að ítarleg launagögn skortir auk þess sem lagaskylda er ekki til staðar. Við útreikning launavísitölu styðst Hagstofan því við almennar aðferðir við útreikning verðvísitalna. Því er ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir að launavísitalan búi yfir svipuðum annmörkum og almennt þekkist um verðvísitölur.

Launavísitalan er einn mælikvarði á launabreytingar en til eru aðrir mælikvarðar sem Hagstofa Íslands birtir. Þar er um að ræða vísitölu heildarlauna og breytingar á meðallaunum auk þess sem breytingar á atvinnutekjum gefa vísbendingar um launabreytingar. Þá er launakostnaðarvísitala (e. Labour Cost Index) reiknuð en hún sýnir breytingar á bæði launum og launakostnaði. Niðurstöðurnar eru birtar fyrir Ísland og önnur EES ríki á vef Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Helsti munur þessara mælikvarða felst í aðferðum, þekju gagna og mismiklum áhrifum af breyttri samsetningu vinnuafls og vinnustunda á niðurstöðurnar.

Úttekt staðfestir að launavísitalan er traust
Í upphafi árs 2018 hófst vinna hjá Hagstofu Íslands við að bæta aðferðalýsingar og rannsóknir á launavísitölu auk þess sem aukin áhersla var lögð á fjölbreytt talnaefni. Í ágúst 2018 birti Hagstofa Íslands greinargerð þar sem gerð var grein fyrir þeim aðferðum sem launavísitala Hagstofu byggir á, gögnum sem lögð eru til grundvallar auk þess sem þekktar skekkjur í fræðum verðvísitalna, svo sem rek (e. chaining drift) og líftími mælieininga (e. life-cycle errors), voru rannsakaðar. Þar kom meðal annars fram að þær aðferðir sem Hagstofan notar við útreikning á launavísitölunni eru í samræmi við viðurkenndar aðferðir verðvísitalna. Niðurstöður greininga benda til þess að skekkjur vegna reks séu ekki vandamál í tilviki launavísitölunnar. Mat á skekkjum vegna líftíma mælieininga bendir til lágmarks áhrifa á undirvísitölur en ekki merkjanleg áhrif á heildarvísitölu.

Haustið 2018 var gerð úttekt á launavístölu af óháðum sérfræðingi, dr. Kim Zieschang, og var tilgangurinn að meta aðferðir og gögn sem liggja til grundvallar útreikningi á launavísitölu ásamt því að leggja til úrbætur eftir þörfum. Úttektin var á vegum nefndar um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga sem skipuð var af forsætisráðherra. Niðurstöður voru þær að launavísitalan er traust, byggir á aðferðafræðilega sterkum grunni og áreiðanlegum gögnum af nægilegri þekju. Lagt var til að Hagstofan myndi hvorki breyta gagnasöfnun né aðferðum sem liggja til grundvallar launavísitölu, en skoðað yrði hvort launavísitalan feli í sér áhrif af auknum gæðum vinnuafls yfir tíma með hækkandi starfsaldri og aukinni menntun. Í úttektinni voru einnig færð rök fyrir því að forðast beri að byggja vísitölur launa í grunni á breytingum meðaltals og nota þess í stað afburðavísitölu við útreikning launavísitölunnar líkt og Hagstofan gerir.

Á grundvelli úttektar beindi nefndin þeim tilmælum til Hagstofunnar að rannsakað yrði hvort hækkandi starfsaldur og aukin menntun hafi áhrif á launavísitölu og verði þar tekið mið af tillögum úttektaraðila. Mælst var til að niðurstöður yrðu birtar opinberlega og brugðist við ef þær myndu leiða í ljós að bjagi væri í launavísitölunni.

Helstu niðurstöður rannsóknar á launavísitölu
Rannsókn Hagstofu Íslands á áhrifum breytinga menntunar og starfsaldurs á launavísitöluna yfir tíma tekur mið af tilmælum nefndar um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga. Samráð var haft við úttektaraðila, dr. Kim Zieschang, við rannsóknina. Menntun og starfsaldur eru dæmi um eiginleika vinnuaflsins sem breytast yfir tíma. Í tilfelli launavísitölu er mikilvægt að hafa í huga að breytingar á þessum eiginleikum vinnuafls tekur ekki til einstaklinga heldur ráðningasambands. Ráðningasamband er sú mælieining sem liggur til grundvallar launavísitölu, það er launagreiðandi, launamaður, starf og atvinnugrein1. Ef einstaklingur fær hærri laun í kjölfar þess að hann skiptir um starf eða fer að vinna hjá öðrum launagreiðanda, þá mælast þær breytingar ekki í launavísitölu þar sem ráðningarsamband hans hefur rofnað. Greining á gagnasafni launavísitölu leiðir í ljós að um helmingur ráðningasambanda hefur rofnað eftir þrjú ár. Hækkandi starfsaldur og aukin menntun geta skilað auknum gæðum vinnuafls og leitt til launahækkunar en þó er ekki hægt að ganga að því vísu, til dæmis þegar menntun er ótengd viðkomandi starfi.

Helstu aðferðir sem beitt er við gæðaleiðréttingar á verðvísitölum er pörun (e. matched sample models) og spár eða tilreikningar á grundvelli aðhvarfslíkana (e. hedonic models). Í launavísitölu er byggt á pöruðum breytingum reglulegs tímakaups milli tveggja samliggjandi mánaða að því tilskyldu að ráðningarsamband sé óbreytt. Áhrif breytinga menntunar og starfsaldurs á launavísitölu voru óþekkt en núverandi aðferðir mæla ekki þá þætti. Auk þess hafa áreiðanlegar upplýsingar um menntun og starfsaldur ekki verið aðgengilegar fyrr en síðustu ár. Í þessari rannsókn er byggt á aðhvarfslíkönum (e. hedonic models), sem þekkt eru úr fræðum verðvísitalna, til að meta áhrif starfsaldurs og menntunar á launavísitölu. Líkönin gera það kleift að bera saman mat á launabreytingum með og án áhrifaþátta og meta þannig áhrif menntunar og starfsaldurs.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að frávik á milli vísitalna sem reiknaðar eru á grundvelli líkana með eða án menntunar og starfsaldurs eru ekki tölfræðilega marktæk á milli mánaða. Áhrifin eru ekki línuleg og geta ýmist verið til hækkunar eða lækkunar á mánaðarlegri launavísitölu. Niðurstöður, sem byggja á mánaðarlegum mælingum launavísitölu árin 2008 til 2018, benda til þess áhrifin geti safnast upp til lengri tíma. Áhrifin eru að meðaltali 0,024% á mánuði (CI = [-0,2%, 0,3%]) og 2,9% að meðaltali eftir 10 ár. Hafa ber í huga að því lengra tímabil sem er skoðað því víðari verða öryggisbilin og þar sem þau innihalda alltaf núll er ekki hægt að útiloka að áhrifin séu engin. Nánari niðurstöður og umfjöllun má finna í greinargerð um Rannsókn á áhrifum starfsaldurs og menntunar á launavísitölu.

Rannsóknin einstök í sinni röð
Rannsókn á áhrifum starfsaldurs og menntunar á launavísitölu er einstök í sinni röð og eftir því sem Hagstofan veit best eru ekki til aðrar rannsóknir, hvorki innlendar né erlendar, um þetta efni. Ljóst er að fleiri rannsóknir þarf til að skýrari vísbendingar fáist. Þá þarf að hafa í huga að það á ekki alltaf við að aukinn starfsaldur og menntun séu gæðabreytingar. Einnig þarf að huga að því að tímabilið sem lagt er til grundvallar er sérstakt með tilliti til efnahagsþróunar og því er ekki hægt að útiloka að annað tímabil hefði skilað öðrum niðurstöðum.

Úttekt og rannsóknir á launavísitölunni gefa ekki tilefni til að breyta útreikningum. En mikil gróska er í rannsóknum á aðferðum á sviði verðvísitalna um þessar mundir og telur Hagstofan áhugavert að rannsaka frekar fleiri aðferðir við útreikninga á verðbreytingum.

1Störf eru fjögurra stafa störf samkvæmt ÍSTARF95 flokkunarkerfinu auk stöðutölu sem skilur á milli t.d. iðnlærðra og verkstjóra og annarra starfsmanna sem sinna sama starfi samkvæmt ÍSTARF95. Atvinnugreinar eru fimm stafa atvinnugreinar samkvæmt ÍSAT2008 flokkunarkerfinu.

Tenglar
Rannsókn á áhrifum starfsaldurs og menntunar á launavísitölu frá 10. desember 2019
Samantekt um gögn og helstu útgáfur í opinberri launatölfræði árið 2018 frá 5. apríl 2019
Skýrsla um umbætur á úrvinnslu og nýtingu tölfræðiupplýsinga frá 1. febrúar 2019
Úttektarskýrsla dr. Kim Zieschang um launavísitölu frá 5. nóvember 2018
Greinagerð um aðferðafræði launavísitölu frá 16. ágúst 2018
Lýsigögn um launavísitölu
Tengill í upplýsingar um laun og tekjur (yfirflokkur)
Tengill í upplýsingar um launakostnaðarvísitölu á vef Eurostat