Heildartekjur einstaklinga á Íslandi voru tæpar 10,0 milljónir króna að meðaltali árið 2024, eða um 831 þúsund krónur á mánuði. Það er 6,7% hækkun frá fyrra ári. Sé horft til verðlagsleiðréttingar er raunhækkunin um 0,8%. Miðgildi heildartekna var um 8,3 milljónir króna, sem samsvarar því að helmingur einstaklinga var með heildartekjur undir 691 þúsund krónum á mánuði. Hækkun miðgildis heildartekna var 7,3%, en sé horft til verðlagsleiðréttingar var hækkunin 1,4%.
Meðaltal atvinnutekna var um 6,8 milljónir, meðaltal fjármagnstekna um 1,2 milljónir króna og meðaltal annarra tekna um 2,0 milljónir. Heildartekjur eru samtala atvinnutekna, fjármagnstekna og annarra tekna.
Til atvinnutekna teljast allar launatekjur og aðrar starfstengdar greiðslur en til annarra tekna teljast meðal annars atvinnuleysisbætur, barnabætur, félagsleg aðstoð og lífeyris- og bótagreiðslur.
Samsetning tekna hjá körlum og konum
Árið 2024 var meðaltal heildartekna hjá konum um 750 þúsund krónur á mánuði, en hjá körlum um 912 þúsund krónur. Á aldursbilinu 25-54 ára var meðaltal heildartekna hjá konum 825 þúsund krónur og hjá körlum 983 þúsund krónur á mánuði.
Atvinnutekjur eru almennt stærsti hluti heildartekna, aðrar tekjur vega þó meira í eldri aldurshópunum. Sé horft til 5 ára aldursbila eru atvinnutekjur karla í öllum tilfellum hærri en atvinnutekjur kvenna. Munur á atvinnutekjum karla og kvenna skýrist meðal annars af því að karlmenn vinna að jafnaði meira en konur og vinna í öðrum störfum og atvinnugreinum en konur. Hagstofan gaf fyrr á árinu út greinargerð um launamun karla og kvenna. Í greinargerðinni er farið yfir þróun launamunar miðað við ólíka mælikvarða sem notaðir eru við útreikning á launamun karla og kvenna auk þess sem ljósi er varpað á það hvaða þættir liggja að baki launamunar.
Séu aðrar tekjur skoðaðar, sést að þær eru hærri hjá konum en körlum fram eftir aldri. Til að mynda er meðaltal annara tekna á aldursbilinu 25-54 ára 113 þúsund krónur á mánuði hjá konum á meðan þær telja 71 þúsund krónur hjá körlum.
Um tekjutölfræði úr skattframtölum
Hagstofan hefur uppfært ítarlegt talnaefni um tekjur einstaklinga fyrir tímabilið 1990 til 2024 sundurliðað eftir sveitarfélögum, aldri og kyni. Talnaefnið inniheldur upplýsingar um heildar-, atvinnu-,fjármagns- og ráðstöfunartekjur ásamt öðrum tekjum og sköttum þar sem sýnd eru meðaltöl, miðgildi, dreifingar og fjöldi. Talnaefni um tekjur eftir menntun árið 2024 verður uppfært síðar.
Talnaefnið byggir á skattframtölum einstaklinga, 16 ára og eldri, sem eru skattskyldir hér á landi og skilað hafa framtali til Ríkisskattstjóra. Undanskildir eru þeir sem eru með handreiknað framtal, með áætlaðar tekjur, létust á árinu eða eru búsettir erlendis samkvæmt þjóðskrá. Í þessari útgáfu er að auki undanskildir þeir einstaklingar sem ekki hafa búsetu á Íslandi samkvæmt mati Hagstofunnar á íbúafjölda á Íslandi, hluti þeirra var þegar frátalinn samkvæmt fyrra ferli. Tölur frá og með 2011 hafa verið uppfærðar í samræmi við aðferð Hagstofunnar við mat á íbúafjölda, sjá nánar í skýringum við hverja töflu.
Gögnin eru samanburðarhæf milli ára þar sem beitt er samræmdum aðferðum frá ári til árs en vakin er athygli á því að forskráning gagna í skattframtöl hefur aukið upplýsingagæði hin síðari ár og getur það haft áhrif á samanburð.