FRÉTT LAUN OG TEKJUR 19. DESEMBER 2018

Árið 2017 var miðgildi1 heildartekna einstaklinga með grunnskólamenntun um 4,1 milljón króna á ári, einstaklingar á framhaldsskólastigi voru með 5,1 milljón króna og háskólamenntaðir með 7,5 milljónir króna. Um er að ræða heildartekjur einstaklinga frá 16 ára aldri samkvæmt skattframtölum.

Samanburður á heildartekjum 25-74 ára eftir menntun
Ef miðgildi heildartekna fyrir aldurshópinn 25 til 74 ára eru borin saman kemur í ljós að einstaklingar með grunnskólamenntun voru með 4,9 milljónir króna á ári eða 409 þúsund krónur á mánuði. Til samanburðar voru einstaklingar á framhaldsskólastigi með 486 þúsund krónur á mánuði, eða um 19% hærri heildartekjur og háskólamenntaðir með 633 þúsund krónur á mánuði, eða 55% hærri heildartekjur en þeir sem voru eingöngu með grunnskólamenntun.

Nokkur munur getur verið á miðgildi heildartekna eftir menntunarstigi. Til dæmis voru heildartekjur einstaklinga með starfsnám á framhaldskólastigi nokkuð hærri en heildartekjur einstaklinga með bóknám á framhaldsskólastigi eða sem nemur um 18% árið 2017. Einstaklingar með meistaragráðu voru með um 23% hærri heildartekjur en einstaklingar með bakkalárgráðu og einstaklingar með doktorsgráðu voru með um 28% hærri heildartekjur en einstaklingar með meistaragráðu. Hafa ber í huga að hóparnir sem hér eru bornir saman eru misstórir, til dæmis voru einstaklingar með doktorsgráðu tæplega tvö þúsund árið 2017 en rúmlega 20 þúsund voru með meistaragráðu.

Um er að ræða samanburð á heildartekjum einstaklinga eftir menntun óháð því hvort einstaklingar eru starfandi, atvinnulausir eða utan vinnumarkaðar. Heildartekjur eru skilgreindar sem samtala atvinnutekna, fjármagnstekna og annarra tekna. Aðrar tekjur geta til dæmis verið lífeyrisgreiðslur, bótagreiðslur og atvinnuleysisbætur.

Skýring: Mánaðarlegt miðgildi heildartekna byggt á árstekjum fyrir aldurshópinn 25-74 ára eftir hæstu menntun. Grunnskólamenntun eða minna (1), menntun á framhaldsskóla- og viðbótarstigi (2), starfsnám á framhaldsskóla- og viðbótarstigi (21), bóknám á framhaldsskóla- og viðbótarstigi (22), háskólamenntun (3), grunnmenntun á háskólastigi (31), bakkalárgráða og viðbótardiplóma (32), meistaragráða og sambærileg menntun (33) og doktorsmenntun (34).

Þróun atvinnutekna eftir menntun 1990-2017
Ef atvinnutekjur einstaklinga eftir menntun eru skoðaðar yfir tímabilið 1990 til 2017 má sjá að munur á atvinnutekjum einstaklinga sem eru eingöngu með grunnskólamenntun og einstaklinga með meiri menntun minnkar með tímanum. Árið 1990 voru atvinnutekjur einstaklinga með menntun á framhaldsskólastigi fyrir aldurshópinn 25 til 74 ára um 53% hærri en atvinnutekjur einstaklinga með grunnskólamenntun eða minna, en munurinn var 13% árið 2017. Þá höfðu háskólamenntaðir um 94% hærri laun en einstaklingar með grunnskólamenntun árið 1990 en árið 2017 var munurinn kominn niður í um 45%. Atvinnutekjur einstaklinga með menntun á háskólastigi voru að meðaltali 31% hærri en atvinnutekjur þeirra sem voru með menntun á framhaldsskólastigi á tímabilinu 1990-2017.

Taka má fram að fjöldi einstaklinga með atvinnutekjur á þessu tímabili hefur jafnast á milli menntunarstiga. Til dæmis var hlutfall einstaklinga eingöngu með grunnskólamenntun um 45% árið 1990 en var komið í 24% árið 2017. Atvinnutekjur eru hér skilgreindar sem miðgildi atvinnutekna, en atvinnutekjur eru launatekjur, reiknað endurgjald og aðrar starfstengdar greiðslur.

Skýring: Mánaðarlegt miðgildi atvinnutekna einstaklinga á aldrinum 25-74 ára eftir hæstu menntun. Upphæðir eru á verðlagi ársins 2017 núvirtar með ársmeðaltali vísitölu neysluverðs. Grunnskólamenntun eða minna (1), menntun á framhaldsskóla- og viðbótarstigi (2) og háskólamenntun (3).

Hagstofan birtir nú í fyrsta sinn talnaefni um tekjur einstaklinga árin 1990 til 2017 eftir menntun, kyni og aldri. Um er að ræða heildar-, atvinnu-, fjármagns- og ráðstöfunartekjur ásamt öðrum tekjum og sköttum. Niðurstöður byggja á skattframtölum einstaklinga sem eru skattskyldir hér á landi og skilað hafa framtali til Ríkisskattstjóra. Upplýsingar um menntun byggja á gögnum sem Hagstofan hefur unnið að síðustu misseri og miðar að samræmdri skrásetningu á hæstu menntun einstaklinga. Gögn Hagstofunnar eru enn í þróun og því eru niðurstöður bráðabirgðatölur. Skilgreiningar á menntun eru samkvæmt alþjóðlegu menntunarflokkuninni ISCED 2011, sjá nánar hér https://hagstofa.is/media/50388/ismennt2011.pdf og í skýringum sem fylgja talnaefni.

Vert er að taka fram að við samanburð á tekjum eftir menntun er ekki tekið tillit til ýmissa annarra áhrifaþátta, svo sem vinnutíma. Þær tölur sem nú eru gefnar út varpa ljósi á tekjur einstaklinga og samsetningu þeirra eftir menntun og geta gefið vísbendingu um ábata af menntun á vinnumarkaði. Þær segja hins vegar ekki allt um dreifingu lífskjara í íslensku samfélagi. Hagstofan gefur einnig út ráðstöfunartekjur á neyslueiningu eftir menntun á grundvelli evrópsku lífskjararannsóknarinnar . Ráðstöfunartekjur á neyslueiningu eru ein aðferð þar sem tekjur eru notaðar sem mæling á lífskjörum. Þar eru heildartekjur heimilisins taldar saman að frádregnum sköttum og að meðtöldum greiðslum úr félagslega kerfinu. Tekjunum er svo deilt jafnt á heimilisfólk samkvæmt hinum breytta jafngildiskvarða OECD, þannig að tölur fyrir ólíkar heimilisgerðir verða samanburðarhæfar með því að taka tillit til ólíkra útgjaldaþarfa og stærðarhagkvæmni mismunandi heimila. Mæling lífskjararannsóknarinnar getur gefið vísbendingu um samband menntunar og lífskjara en gefur ekki eins glögga mynd af ábata menntunar á vinnumarkaði.

1 Miðgildi er, eins og meðaltal, aðferð til að meta miðsækni og lýsa þar með gagnasafninu. Miðgildi heildartekna sýnir gildi þar sem helmingur einstaklinga er með heildartekjur undir gildinu en helmingur yfir.

Talnaefni

Tafla: Tekjur eftir menntun, kyni og aldri 1990-2017

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.