FRÉTT LAUN OG TEKJUR 06. OKTÓBER 2017

Árið 2016 voru heildartekjur einstaklinga að meðaltali um 5,9 milljónir króna á ári, um 9,3% hærri en árið áður. Mánaðartekjur voru að jafnaði um 493 þúsund krónur. Þá var miðgildi heildartekna um 4,6 milljónir króna eða um 381 þúsund krónur á mánuði sem þýðir að annar hver einstaklingur hafði mánaðartekjur undir þessari upphæð. Miðgildi heildartekna hækkaði um 6,5% milli ára.

Heildartekjur eru samsettar af atvinnutekjum, fjármagnstekjum og öðrum tekjum. Í heildartekjum vega atvinnutekjur langtum mest, þá yfirleitt aðrar tekjur og síðan fjármagnstekjur.

Heildartekjur einstakra aldurshópa sem hlutfall af tekjum allra hafa verið breytilegar undanfarinn aldarfjórðung. Tekjur yngsta og elsta hópsins hafa ávallt verið fyrir neðan meðaltal en á meðan meðaltekjur þeirra sem eru 65 ára og eldri hafa færst nær meðaltalinu hafa meðaltekjur þeirra sem eru undir þrítugu færst fjær því. Kann sú þróun að skýrast að hluta af fjölgun fólks á þessum aldri í námi, einkum háskólanámi.

Meðal heildartekjur karla og kvenna í öllum aldurshópum hafa hækkað á föstu verðlagi. Sé horft til 5 ára aldursbils þá voru hæstu tekjurnar árið 1990 hjá hópnum 40 til 44 ára en árið 2016 hjá hópnum 45 til 49 ára. Almennt má segja að hæstu meðaltekjur hafi hliðrast í þá átt, það er að segja hæstu tekjurnar tilheyra nú eldri hópum en árið 1990. Á rúmum aldarfjórðungi hafa meðaltekjur kvenna aukist samanborið við karla en á sama tíma hefur atvinnuþátttaka kvenna aukist.

Atvinnutekjur hæstar í Fjarðabyggð
Af þeim 10 sveitarfélögum sem hafa hæst miðgildi atvinnutekna, sjá töflu 1, er einungis Fjarðabyggð sem ekki er á suðvesturhorninu. Árið 2016 var miðgildi atvinnutekna hæst þar rétt eins og í fyrra, eða um 5,5 milljónir króna. Nokkur munur er á miðgildi atvinnutekna karla og kvenna, til dæmis í Fjarðabyggð og Akranesi. Einungis er miðað við þá sem höfðu atvinnutekjur (skilyrt miðgildi).

Tafla 1. Skilyrt miðgildi atvinnutekna tekjuhæstu sveitarfélaganna 2016
  Allir Karlar Konur
Þúsundir króna      
Fjarðabyggð 5.536 7.267 3.881
Garðabær 5.449 6.383 4.741
Kópavogur 5.190 5.993 4.574
Seltjarnarnes 5.128 5.911 4.627
Mosfellsbær 4.987 5.881 4.284
Akranes 4.976 6.407 3.902
Hafnarfjörður 4.949 5.871 4.261
Reykjavík 4.855 5.520 4.318
Reykjanesbær 4.840 5.605 4.134
Garður 4.800 5.641 4.074

Af 10 fjölmennustu sveitarfélögunum var meðaltal heildartekna hæst í Garðabæ, 7,4 milljónir króna. Þar af vega fjármagnstekjur um 15% sem er töluvert hærra hlutfall en í öðrum sveitarfélögum. Þar á eftir kemur Fjarðabyggð með meðal heildartekjur upp á 6,2 milljónir króna. Hafa ber í huga að útgildi geta haft töluverð áhrif á meðaltekjur.

Um tekjutölfræði úr skattframtölum
Hagstofan birtir nú talnaefni á vef um tekjur einstaklinga árin 1990 til 2016 skipt eftir sveitarfélögum, aldri og kyni. Birtar eru töflur eftir sveitarfélagaskipan hvers árs annars vegar og hins vegar sveitarfélagaskipan eins og hún var 1. janúar 2016. Um er að ræða heildar-, atvinnu-, fjármagns- og ráðstöfunartekjur ásamt öðrum tekjum og sköttum. Niðurstöður byggja á skattframtölum einstaklinga sem eru skattskyldir hér á landi og skilað hafa framtali til ríkisskattstjóra.

Gögnin eru samanburðarhæf á milli ára þar sem beitt er samræmdum aðferðum frá ári til árs en vakin er athygli á því að forskráning gagna í skattframtöl hefur aukið upplýsingagæði þeirra hin síðari ár sem getur haft áhrif á samanburð. Við samanburð á sveitarfélögum er mikilvægt að hafa í huga að sveitarfélögin eru mjög misstór.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.