FRÉTT LAUN OG TEKJUR 10. APRÍL 2013


Regluleg laun fullvinnandi launamanna á íslenskum vinnumarkaði voru 402 þúsund krónur að meðaltali árið 2012. Algengast var að regluleg laun væru á bilinu 300-350 þúsund krónur og voru 18% launamanna með laun á því bili. Þá voru um 65% launamanna með regluleg laun undir 400 þúsund krónum á mánuði. Regluleg laun fullvinnandi karla voru 436 þúsund krónur að meðaltali á mánuði en kvenna 367 þúsund krónur.


 

Heildarlaun fullvinnandi voru að meðaltali 488 þúsund krónur á mánuði. Helmingur launamanna var með heildarlaun undir 432 þúsund krónum árið 2012 sem var miðgildi heildarlauna. Þá voru tæplega 30% launamanna með heildarlaun á bilinu 350-450 þúsund krónur. Greiddar stundir voru að meðaltali 43,1 á viku. Heildarlaun fullvinnandi karla voru 548 þúsund krónur að meðaltali á mánuði en kvenna 425 þúsund krónur.


 

Hæstu launin í fjármála- og vátryggingastarfsemi og hjá veitum
Regluleg laun voru hæst í atvinnugreininni fjármála- og vátryggingastarfsemi (K) árið 2012, eða 584 þúsund krónur hjá fullvinnandi launamönnum. Lægst voru launin í atvinnugreininni fræðslustarfsemi (P) eða 346 þúsund krónur að meðaltali.

 

Skýring: framleiðsla (C), rafmagns-, gas- og hitaveitur (D), vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun (E), byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F), heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum (G), flutningur og geymsla (H), upplýsingar og fjarskipti (J), fjármála- og vátryggingastarfsemi (K), opinber stjórnsýsla og varnarmál; almannatryggingar (O), fræðslustarfsemi (P), heilbrigðis- og félagsþjónusta (Q).


Heildarlaun voru aftur á móti hæst í atvinnugreininni rafmagns-, gas- og hitaveitur (D) en þau voru 651 þúsund að meðaltali árið 2012.

 

Skýring: framleiðsla (C), rafmagns-, gas- og hitaveitur(D), vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun (E), byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F), heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum (G), flutningur og geymsla (H), upplýsingar og fjarskipti (J), fjármála- og vátryggingastarfsemi (K), opinber stjórnsýsla og varnarmál; almannatryggingar (O), fræðslustarfsemi (P), heilbrigðis- og félagsþjónusta (Q).


Laun eftir launþegahópum
Regluleg laun á almennum vinnumarkaði voru 423 þúsund krónur að meðtali á mánuði hjá fullvinnandi launamönnum og var um helmingur launamanna á almennum vinnumarkaði með regluleg laun undir 354 þúsundum króna en það var miðgildi reglulegra launa. Regluleg laun opinberra starfsmanna voru 378 þúsund krónur að meðaltali og miðgildi þeirra var 352 þúsund krónur.


 

Heildarlaun á almennum vinnumarkaði voru 510 þúsnd krónur að meðaltali árið 2012 og heildarlaun opinberra starfsmanna voru 463 þúsund krónur. Algengast var að heildarlaun væru á bilinu 350-400 þúsund krónur bæði á almennum vinnumarkaði og hjá opinberum starfsmönnum. Um 14% voru með heildarlaun á þessu bili á almennum vinnumarkaði og 17% opinberra starfsmanna. Greiddar stundir voru 43,2 að meðaltali á almennum vinnumarkaði og 42,9 hjá opinberum starfsmönnum.


 


Um laun á íslenskum vinnumarkaði
Þær niðurstöður sem hér er greint frá byggja á launarannsókn Hagstofu Íslands og ná bæði til launamanna á almennum vinnumarkaði og opinberra starfsmanna. Alls eru tæplega 70 þúsund launamenn í úrtakinu. Nánari upplýsingar um laun og launadreifingar fyrir árin 2008-2012 eftir atvinnugreinum og launaþegahópum má finna á vef Hagstofunnar undir talnaefni.

Launarannsókn Hagstofu Íslands er byggð á úrtaki fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana með tíu eða fleiri starfsmenn. Launaupplýsingar eru fengnar um alla starfsmenn og er gagna aflað mánaðarlega rafrænt frá fyrirtækjum í úrtaki. Niðurstöður byggja á eftirfarandi atvinnugreinum og ná þær atvinnugreinar til um 80% launamanna á íslenskum vinnumarkaði: Framleiðsla (C), rafmagns-, gas- og hitaveitur (D), vatnsveita, fráveita, meðhöndlunúrgans og afmengun (E), byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F), heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum (G), flutningur og geymsla (H), upplýsingar og fjarskipti (J), fjármála- og vátryggingastarfsemi (K), opinber stjórnsýsla og varnarmál; almannatryggingar (O), fræðslustarfsemi (P), heilbrigðis- og félagsþjónusta (Q). Fyrirvari er gerður við niðurstöður í atvinnugreinum J, O, P og Q. Í atvinnugrein J vantar upplýsingar um smærri fyrirtæki og fyrirtæki á sviði upplýsingatækni. Í atvinnugreinum O, P og Q takmarkast upplýsingar við opinbera starfsmenn.

Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöður vegna skorts á upplýsingum um tiltekna hópa. Nánari upplýsingar um niðurstöður svo sem skilgreiningar og aðferðafræði má finna í lýsigögnum sem má einnig finna undir á vefsvæði Hagstofunnar undir talnaefni.

Talnaefni

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.