FRÉTT LAUN OG TEKJUR 23. APRÍL 2013

Óleiðréttur launamunur kynjanna á Íslandi reiknaður samkvæmt aðferðafræði evrópsku hagstofunnar Eurostat var 18,1% árið 2012. Munurinn var 18,5% á almennum vinnumarkaði en 16,2% hjá opinberum starfsmönnum. Frá árinu 2008 hefur óleiðréttur launamunur farið minnkandi og var lægri árið 2012 en 2008. Á almennum vinnumarkaði fór launamunurinn lækkandi til ársins 2010 en hækkaði aðeins árið 2011. Óleiðréttur launamunur hjá opinberum starfsmönnum lækkaði allt tímabilið.

 

Útreikningar á óleiðréttum launamun kynjanna byggja á aðferðafræði launarannsóknar evrópsku hagstofunnar Eurostat (Structure of Earnings Survey). Sú rannsókn er framkvæmd á fjögurra ára fresti, síðast árið 2010. Í evrópskum samanburði var óleiðréttur launamunur á Íslandi sá níundi hæsti árið 2010 í samanburðarhópum eða tæplega 18%. Það er svipaður launamunur og að meðaltali í Evrópusambandinu. Árið 2010 var mestur launamunur í Eistlandi eða rúmlega 27%. Í Króatíu var launamunurinn neikvæður um tæplega 2% en þar voru konur að jafnaði með hærra tímakaup en karlar. Hlutfall yfirvinnustunda af greiddum stundum var hæst á Íslandi árið 2010 en hlutfallið var 10% hjá íslenskum körlum og 5% hjá konum.

Við útreikning er stuðst við mánaðarlaun í októbermánuði á hverju ári. Mánaðarlaun byggja á föstum reglulegum greiðslum auk yfirvinnu. Óreglulegar greiðslur sem falla til í október eru undanskildar í útreikningum. Reiknað er tímakaup karla annars vegar og kvenna hins vegar og mismunur þess sem hlutfall af heildartímakaupi karla er túlkað sem óleiðréttur launamunur. Sérstaklega ber að athuga að greidd laun fyrir yfirvinnu og fjöldi yfirvinnustunda er inni í útreikningum en hver yfirvinnustund er að jafnaði dýrari en hver stund í dagvinnu. Því meiri yfirvinna sem er inni í laununum, því hærra verður tímakaupið. Sá launamunur sem er birtur hér er skilgreindur sem óleiðréttur þar sem ekki er tekið tillit til skýringarþátta sem geta haft áhrif á laun einstaklinga. Dæmi um slíka skýringarþætti eru starf, menntun, aldur, starfsaldur og fleira. Með því að reikna óleiðréttan launamun á þennan hátt fæst ákveðin mynd af launamyndun kynjanna á vinnumarkaði sem skýrist að hluta til af þeim þáttum sem á undan eru taldir.

Óleiðréttur launamunur kynjanna 2008-2012 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.