FRÉTT LAUN OG TEKJUR 24. OKTÓBER 2016

Árið 2015 voru konur með tæplega 30% lægri atvinnutekjur en karlar en þá er átt við allar tekjur af atvinnu án tillits til vinnutíma. Samanburður á meðallaunum karla og kvenna í fullu starfi árið 2015 sýnir hins vegar um 20% mun á heildarlaunum en um 14% mun á reglulegum launum án yfirvinnu. Óleiðréttur launamunur mældist 17% árið 2015 en hann byggir á reglulegu tímakaupi með yfirvinnu í samræmi við aðferð evrópsku hagstofunnar Eurostat.

Atvinnutekjur hæstar á aldursbilinu 45-49 ára hjá bæði körlum og konum
Árið 2015 var helmingur kvenna með lægri atvinnutekjur en 3,7 milljónir króna á ári en helmingur karla með minna en 5 milljónir króna. Meðaltekjur af atvinnu taka til allra atvinnutekna án tillits til vinnutíma en karlar vinna að jafnaði fleiri vinnustundir en konur. Meðalfjöldi vikulegra vinnustunda var að jafnaði 44,1 klukkustund hjá körlum en 35,5 hjá konum árið 2015 samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands.

Tekjur vegna atvinnu voru árið 2015 hæstar á aldursbilinu 45 til 49 ára hjá bæði körlum og konum. Á því aldursbili voru karlar hins vegar með mun hærri atvinnutekjur að meðaltali en konur eða 8,1 milljón krónur á ári samanborið við 5,5 milljónir króna hjá konum.

 

Hlutfallslegur munur á atvinnutekjum eftir kyni eykst með hverri tíund og var efsta tíundin hjá körlum með yfir 12 milljónir króna í atvinnutekjur á ári en efsta tíund kvenna með yfir 8,5 milljónir króna.

Vinnutími skýrir að hluta til hærri heildarlaun karla fyrir fullt starf
Helmingur kvenna í fullu starfi var með heildarlaun yfir 490 þúsund krónur á mánuði meðan helmingur karla var með heildarlaun yfir 586 þúsund krónur. Dreifing heildarlauna var ólík eftir kyni og voru karlar fleiri í hæstu launabilunum.

Vinnutími skýrir að hluta til hærri heildarlaun karla en kvenna fyrir fullt starf. Karlar í fullu starfi unnu að jafnaði meira en konur í fullu starfi og voru greiddar stundir karla að meðaltali 189 á mánuði árið 2015 en greiddar stundir kvenna 179,7 samkvæmt launarannsókn Hagstofunnar. Þannig var minni munur á launum eftir kyni ef horft er til reglulegra launa án yfirvinnu árið 2015. Konur í fullu starfi voru þá að meðaltali með 458 þúsund krónur á mánuði en karlar 534 þúsund krónur og var launamunurinn því um 14%. Ef skoðuð voru regluleg laun með yfirvinnu var munurinn um 18%.

Árið 2015 voru, samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands, 96.200 karlar starfandi á íslenskum vinnumarkaði en 87.500 konur og var vinnumarkaðurinn að hluta til kynskiptur. Í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð var meirihlutinn karlkyns eða um 95% en í fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónustu var meirihlutinn kvenkyns eða tæplega 80% þeirra sem starfa í þeim greinum.

Dreifing heildarlauna fyrir fullt starf var mismunandi eftir atvinnugrein. Sem dæmi má nefna að í heilbrigðis- og félagsþjónustu var dreifingin meiri meðal karla en kvenna og heildarlaun þeirra hærri. Störf kynjanna voru ólík í þeirri grein, meðal sérfræðinga störfuðu til dæmis tæplega 60% kvenna við hjúkrun en tæplega 70% karla við lækningar. Þá voru sjúkraliðar fjölmennir í þeirri atvinnugrein og fáir karlar í því starfi.

 

Skýring: Rétthyrningurinn afmarkar neðri og efri fjórðungsmörk og miðgildið skiptir honum í tvennt. Strikin marka 10/90 mörkin. Framleiðsla (C), rafmagns-, gas- og hitaveitur (D), heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum (G), flutningur og geymsla (H), upplýsingar og fjarskipti (J), fjármála- og vátryggingastarfsemi (K), opinber stjórnsýsla og varnarmál; almannatryggingar (O), fræðslustarfsemi (P), heilbrigðis- og félagsþjónusta (Q).

Fjármála- og vátryggingastarfsemi sker sig einnig úr hvað varðar dreifingu heildarlauna eftir kyni árið 2015 og voru konur að meðaltali með um 37% lægri heildarlaun en karlar í þeirri grein. Skrifstofufólk í fullu starfi var að jafnaði með lægstu launin en rúmlega 30% kvenna í atvinnugreininni tilheyrðu þeim hópi og einungis 6% karla. Meðal sérfræðinga í fjármálastarfsemi voru konur með um 16% lægri heildarlaun að meðaltali en karlar.

Óleiðréttur launamunur var minnstur hjá sveitarfélögum 7,2%
Óleiðréttur launamunur kynjanna, reiknaður samkvæmt aðferð evrópsku hagstofunnar Eurostat, var 17% árið 2015 og hafði hækkað lítillega frá fyrra ári þegar hann var 16,4%. Á almennum vinnumarkaði var launamunurinn 16,7% en 14,6% hjá opinberum starfsmönnum, þar af var munurinn 14,9% hjá ríki og 7,2% hjá sveitarfélögum.

Óleiðréttur launamunur 2008-2015                
  2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015
                 
Alls 20,5 18,0 17,5 17,5 17,2 18,5 16,4 17,0
Almennur vinnumarkaður  22,4 20,1 17,8 17,6 16,8 17,2 16,3 16,7
Opinberir starfsmenn   21,2 18,0 16,5 16,5 16,5 15,5 13,9 14,6
Opinberir starfsmenn - ríkisstarfsmenn 18,8 16,5 15,6 16,1 17,8 16,7 14,8 14,9
Opinberir starfsmenn - starfsmenn sveitarfélaga 14,7 10,4 7,5 7,4 8,1 6,9 7,2 7,2

Nánar um launamun kynjanna
Mismunandi mælingar á launamun kynjanna eru fengnar á grundvelli ólíkra gagna og aðferða. Í öllum ofangreindum mælingum hallar þó á laun kvenna samanborið við laun karla.

Meðaltekjur af atvinnu, atvinnutekjur, byggja á skattframtölum einstaklinga og eru launatekjur og aðrar starfstengdar tekjur eins og ökutækjastyrkur, dagpeningar og hlunnindi. Auk þess telst reiknað endurgjald og tekjur erlendis, aðrar en fjármagnstekjur, til atvinnutekna. Í umfjöllun að ofan um atvinnutekjur er launamunur reiknaður sem mismunur atvinnutekna karla og kvenna sem hlutfall af atvinnutekjum karla.

Laun byggja á launarannsókn Hagstofu Íslands sem nær til rúmlega 70 þúsund launamanna. Launarannsóknin er lagskipt úrtaksrannsókn og eru niðurstöður vegnar í samræmi við úrtakshönnun rannsóknar. Launarannsóknin nær til 80% af íslenskum vinnumarkaði þó að enn séu atvinnugreinar utan rannsóknar. Regluleg laun eru greidd mánaðarlaun fyrir umsaminn vinnutíma, hvort sem um er að ræða dagvinnu eða vaktavinnu, auk hvers konar álags-, bónus- og kostnaðargreiðslur sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Heildarlaun eru öll laun einstaklings að utanskildum hlunnindum og akstursgreiðslum. Launamunur er reiknaður sem mismunur launa karla og kvenna sem hlutfall af launum karla.

Óleiðréttur launamunur kynjanna byggir á aðferð evrópsku hagstofunnar Eurostat og launarannsókninni Structure of Earnings Survey. Við útreikninga er stuðst við fastar reglulegar greiðslur auk yfirvinnu í október. Óreglulegar greiðslur eru undanskildar. Reiknað er tímakaup karla annars vegar og kvenna hins vegar og mismunur þess sem hlutfall af heildartímakaupi karla túlkað sem óleiðréttur launamunur. Í útgáfu talna fyrir 2015 voru tölur fyrir árin 2011 til 2014 endurskoðaðar.

Talnaefni:
  Laun og óleiðréttur launamunur
  Tekjur úr skattframtölum

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.