FRÉTT LAUN OG TEKJUR 24. JANÚAR 2023

Laun hækkuðu að jafnaði um 4% á milli mánaða í desember 2022 samkvæmt launavísitölu. Hækkunina má rekja til launahækkana í nýgerðum kjarasamningum sem náðu til meirihluta launafólks á almennum vinnumarkaði. Bráðabirgðamat á launahækkunum eftir launþegahópum gefur til kynna að starfsfólk á almennum vinnumarkaði hafi hækkað að jafnaði um 5,6% á milli mánaða sem skýrir nær alla hækkun launavísitölu í desember, en almennur vinnumarkaður vegur um 71% í vísitölunni. Sambærilegt bráðabirgðamat sýnir að launahækkun hjá opinberu starfsfólki var 0,3% í desember.

Rétt er að benda á að launahækkanir hafa áhrif á launavísitölu í þeim mánuðum sem þær eru greiddar út hjá launagreiðanda, þannig að ef um er að ræða afturvirka hækkun í kjarasamningum eða aðrar launaleiðréttingar þá mælast þær hækkanir ekki í vísitölunni þar sem henni er ekki breytt aftur í tímann.

Hækkun grunnlauna á milli mánaða í desember 2022 var sú sama og hækkun launavísitölu eða um 4%. Hins vegar var 12 mánaða hækkun grunnlauna í desember minni en hækkun launavísitölu eða 11,7% samanborið við 12,4% hækkun launavísitölu sem innheldur fleiri launaliði en vísitala grunnlauna. Árshækkun launa í desember 2022 var töluvert meiri en ársbreytingar annarra mánaða ársins 2022, enda gætir þá meðal annars áhrifa tveggja kjarasamningshækkana fyrir meirihluta starfsfólks á almennum vinnumarkaði, þ.e.a.s í janúar og desember, auk hækkunar í apríl vegna hagvaxtarauka ársins 2021. Því til viðbótar var hagvaxtarauka vegna ársins 2022, sem átti að koma til greiðslu 1. maí 2023, flýtt og er innifalinn í launahækkunum sem komu til framkvæmda í desember síðastliðnum.

Sé horft á launaþróun yfir lengra tímabil kemur í ljós að hækkun launa árið 2022 frá fyrra ári samkvæmt ársmeðaltali var sambærileg og árið á undan, eða í kringum kringum 8%. Heldur minni hækkanir mældust á milli ára á tímabilinu 2017 til 2019 ólíkt árinu 2016 þegar launaþróun fór yfir 10%. En á milli áranna 2015 og 2016 mældist hækkun launavísitölu 11,4% og er það í eina skiptið sem breyting á ársmeðaltali launavísitölu hefur farið yfir 10% á milli ára frá því að mælingar hófust árið 1989.

Ábending vegna útreiknings á greiðslujöfnunarvísitölu
Samhliða útgáfu mánaðarlegrar launavísitölu er lögbundin skylda Hagstofu að uppfæra mánaðarlegt talnaefni um greiðslujöfnunarvísitölu sem hefur þann tilgang að jafna greiðslubyrgði af verðtryggðum fasteignaveðlánum einstaklinga. Útreikningur og hvaða gögn liggja að baki eru ákvarðaðar í lögum nr. 133/2008 „um breytingu á lögum nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, með síðari breytingum“ sem samþykkt voru á Alþingi 17. nóvember 2008. Samkvæmt 6. gr. laganna skal greiðslujöfnunarvísitalan vera „samsett af launavísitölu, sbr. lög um launavísitölu, sem vegin er með atvinnustigi“. Með atvinnustigi er átt við „hlutfall sem miðast við 100% að frádregnu atvinnuleysi í hlutfalli af vinnuafli í viðkomandi mánuði samkvæmt uppgjöri Vinnumálastofnunar“. Í breytingarlögum var einnig kveðið á um að launavísitala til greiðslujöfnunar skuli taka sömu breytingum og greiðslujöfnunarvísitalan. Nánar um útreikning má finna í lýsigögnum um greiðslujöfnunarvísitölu.

Vakin er athygli á því að leiðrétting á tölum Vinnumálastofnunar um fjölda atvinnulausra sem fjallað var um í skýrslu stofnunarinnar frá 13. desember 2022 hefur ekki áhrif á áður útgefin gildi greiðslujöfnunarvísitalna. Leiðrétting á uppgjöri Vinnumálastofnunar nær frá júní til og með október 2022 en útreikningur greiðslujöfnunarvísitalna sem gilda við útreikning greiðslumarks lána frá ágúst til og með desember 2022 tók mið af áður birtum tölum um atvinnustig fyrir það tímabil. Á því tímabili var útreikningur greiðslujöfnunarvísitölu byggður á launavísitölu þeirri sem Hagstofa birtir í mánuði hverjum vegin með atvinnustigi sama mánaðar samkvæmt uppgjöri Vinnumálastofnunar. Það er í fullu samræmi við þau gögn sem lágu fyrir við úrvinnslu og verður ekki leiðrétt afturvirkt.

Um launaþróun og kjarasamninga
Í launaþróun gætir áhrifa nýgerðra kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Skrifað var undir samning Samtaka atvinnulífsins við 18 stéttarfélög innan Starfsgreinasambands Íslands í byrjun desember 2022. Kjarasamningurinn er framlenging á lífskjarasamningnum og gildir til 31. janúar 2024 þar sem kveðið er á um 33 þúsund króna almenna hækkun launa og 35 til 52 þúsund króna hækkun á kauptöxtum. Hagvaxtarauka vegna 2022 sem átti að koma til framkvæmda 1. apríl 2023 var flýtt og er innifalinn í launahækkunum. Samningar Samtaka atvinnulífsins og VR, LÍV og félaga iðnaðarmanna fylgdu með um miðjan desember. Í þeim var hækkun í formi hlutfallshækkunar, það er almennrar launahækkunar um 6,75%, að hámarki 66 þúsund krónur. Þá hækkuðu kauptaxtar þessara samninga sérstaklega, eins og hjá SGS, og fylgdu nýjar taxtatöflur öllum kjarasamningunum.

Launaþróun samkvæmt vísitölu grunnlauna og launavísitölu er sambærileg fyrir utan að vísitölurnar mæla ólíka launaliði. Vísitala grunnlauna mælir einungis breytingar dagvinnulauna fyrir umsaminn vinnutíma á hverja greidda dagvinnustund á meðan launavísitala mælir regluleg laun, það er auk dagvinnu hvers konar álags-, bónus- og vaktagreiðslur sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili hjá launagreiðanda. Tilfallandi yfirvinnugreiðslur eru ekki hluti reglulegra launa né aðrir óreglulegir launaliðir, eins og eingreiðslur eða leiðréttingar, sem ekki eru gerðir upp á hverju útborgunartímabili. Niðurstöður byggja launarannsókn Hagstofunnar. Nánari upplýsingar um aðferðir má finna í lýsigögnum um launavísitölu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.