FRÉTT LAUN OG TEKJUR 18. FEBRÚAR 2010

Út er komið hagtíðindaheftið Launamunur kynjanna á almennum vinnumarkaði 20002007. Í því er greint frá helstu niðurstöðum úr rannsókn á launamun kynjanna á almennum vinnumarkaði. Rannsóknin er byggð á gagnasöfnum Hagstofunnar og var framkvæmd í kjölfar samkomulags á milli Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Hagstofu Íslands í tengslum við kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins í febrúar 2008. Niðurstöður byggjast á tæplega 185 þúsund athugunum á launum einstaklinga sem störfuðu á almennum vinnumarkaði á árunum 2000–2007. Skýrsluna í heild sinni má nálgast á vef Hagstofu Íslands.

Í heftinu kemur meðal annars fram að á árunum 2000–2007 eru konur með lægri laun en karlar en hlutfallslegur launamunur hefur lækkað á tímabilinu. Árið 2000 voru konur með 24,8% lægra reglulegt tímakaup en karlar en munurinn var kominn í 15,9% árið 2007. Ef horft er til heildartímakaups voru konur með 24,9% lægri laun en karlar árið 2000 en árið 2007 var munurinn kominn niður í 18,5%.

Þegar valdir skýringarþættir hafa verið leiðréttir með aðferðum tölfræðinnar mælist launamunur á bilinu 9,2–10,3% fyrir tímabilið 2000–2007. Þegar sundurliðun á launamun er beitt á þær niðurstöður stendur eftir 7,3% óútskýrður launamunur fyrir sömu ár, en þá hefur verið tekið tillit til þeirra þátta sem notaðir eru til skýringa á launamun kynjanna. Þótt niðurstöðum úr greiningum sem fjalla um leiðréttan launamun beri að taka með fyrirvara benda þær allar til þess að það halli á laun kvenna í samanburði við laun karla.

Einnig eru skoðuð áhrif ólíkra skýringarþátta fyrir konur og karla hvert í sínu lagi. Þá kemur í ljós að öflun háskólaprófs hefur meiri áhrif til hækkunar á laun karla en laun kvenna. Þá hefur fjöldi barna á heimili jákvæð áhrif á laun karla en neikvæð áhrif á laun kvenna, og því yngri sem börnin eru þeim mun neikvæðari áhrif hafa þau á reglulegt tímakaup kvenna.

Launamunur kynjanna á almennum vinnumarkaði 2000-2007 - Hagtíðindi

Launamunur kynjanna á almennum vinnumarkaði – Skýrslan í heild sinni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.