Tekjubil minnkar en lágtekjuhlutfall stendur í stað
Tekjubil á Íslandi minnkaði frá árinu 2009 til ársins 2010 þegar horft er til Gini-stuðuls og fimmtungastuðuls úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Tekjubilið hafði hins vegar breikkað árin þar á undan. Hlutfall Íslendinga undir lágtekjumörkum hefur haldist nær óbreytt frá fyrstu lífskjararannsókn Hagstofunnar árið 2004.

Gini-stuðull, fimmtungastuðull og lágtekjuhlutfall
                Áætlaður
              Vikmörk fjöldi
  2005 2006 2007 2008 2009 2010 2010 2010
                 
Gini-stuðull 25,1 26,3 28,0 27,3 29,6 25,7 ± 1,1 303.300
Fimmtungastuðull 3,5 3,7 3,9 3,8 4,2 3,6 ± 0,2 121.300
Hlutfall undir lágtekumörkum 9,7 9,6 10,1 10,0 10,2 9,8 ± 1,2 29.800

 
Gini-stuðullinn, sem sýnir dreifingu ráðstöfunartekna meðal landsmanna á einkaheimilum, var 25,7 árið 2010 en 29,6 árið áður. Stuðullinn væri 100 ef einn maður væri með allar tekjurnar en 0 ef allir hefðu jafnar tekjur.

Fimmtungastuðullinn gefur til kynna að þeir sem tilheyrðu tekjuhæsta fimmtungnum í lífskjararannsókninni 2010 höfðu 3,6 sinnum hærri ráðstöfunartekjur á neyslueiningu en þeir sem tilheyrðu tekjulægsta fimmtungnum. Fimmtungastuðullinn var 4,2 árið 2009.

Lágtekjuhlutfall var 9,8% á Íslandi árið 2010 og hefur lítið breyst frá því mælingar hófust. Lágtekjuhlutfall er skilgreint sem 60% af ráðstöfunartekjum á neyslueiningu en þær byggjast á ráðstöfunartekjum heimila og hversu margir þurfa að lifa af þeim.

Evrópskur samanburður
Af 29 Evrópuþjóðum var Ísland í 17. sæti þegar þjóðunum er raðað frá þeirri sem var með lægsta Gini-stuðulinn til þeirrar sem hafði hæsta stuðulinn. Tölurnar fyrir evrópska samanburðinn eru frá 2009. Ísland var í 12. til 14. sæti yfir Evrópuþjóðirnar 29 þegar fimmtungastuðlinum er raðað frá þeim lægsta til þess hæsta. Fram til 2009 hækkaði Gini-stuðullinn og fimmtungastuðullinn meira hjá Íslandi en flestum öðrum Evrópuþjóðum.

Af 29 Evrópuþjóðum var Ísland með næst lægsta lágtekjuhlutfallið á eftir Tékklandi. Þróun lágtekjuhlutfalls er ekki á sama veg og þróun fimmtunga- og Gini-stuðulsins þar sem Ísland hefur stöðugt verið ein þeirra þjóða sem eru með lægsta lágtekjuhlutfallið.

Greining lágtekjuhlutfalls á Íslandi
Ef litið er til aldurs og kyns kemur í ljós að hlutfall þeirra sem voru undir lágtekjumörkum í lífskjararannsókninni 2010 var hæst hjá konum á aldrinum 18 til 24 ára eða rúm 19% . Hlutfall undir lágtekjumörkum var lægst hjá fólki í elstu aldurshópunum, 50–64 ára og 65 ára og eldri.

Hlutfallslega fleiri sem bjuggu einir eða voru einir með börn voru undir lágtekjumörkum en þeir sem bjuggu á annars konar heimilum. Það sama gildir um þá sem bjuggu í leiguhúsnæði samanborið við þá sem bjuggu í eigin húsnæði.


Hagtíðindi
Hagstofa Íslands hefur gefið út Hagtíðindi þar sem greint er frá niðurstöðum um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2010. Niðurstöðurnar eru fengnar úr lífskjararannsókn Hagstofunnar en hún er liður í samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins (EU-SILC).

Framkvæmd
Úrtak lífskjararannsóknarinnar 2010 var 4.218 heimili. Eftir að þeir sem eru látnir og búsettir erlendis hafa verið dregnir frá var nettó úrtakið 3.968 heimili. Svör fengust frá 3.021 heimilum sem er 76% svarhlutfall. Á þessum heimilum fengust upplýsingar um 8.840 einstaklinga. Lífskjararannsóknin var framkvæmd í mars til maí árið 2010. Upplýsingar um tekjur eru fengnar úr skattskrám ársins á undan. Tekjuupplýsingarnar fyrir könnun 2010 koma því frá uppgjörsári 2009 en það eru nýjustu upplýsingar sem fáanlegar eru.

Lágtekjumörk og tekjudreifing 2010 - Hagtíðndi

Talnaefni