FRÉTT LAUN OG TEKJUR 02. FEBRÚAR 2007

Hagstofa Íslands hefur gefið út Hagtíðindi þar sem greint er frá niðurstöðum um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2003 og 2004. Þessar niðurstöður eru fengnar úr lífskjararannsókn Hagstofunnar en hún er liður í samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins (EU-SILC).

Árin 2003 og 2004 voru tæplega 10% landsmanna á einkaheimilum fyrir neðan lágtekjumörk (at risk of poverty) eins og þau eru skilgreind í lífskjararannsókn Evrópusambandsins. Lágtekjumörkin voru 102.664 kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði fyrir einstakling sem býr einn árið 2004 en 215.594 kr. fyrir tvo fullorðna með tvö börn.

Hlutfall þeirra sem voru undir lágtekjumörkum árið 2004, var hæst í aldurshópnum 16-24 ára, eða 15,4%, en lægst í aldurshópnum 50-64 ára, eða 5,9%.

Hlutfallslega fleiri sem bjuggu einir voru undir lágtekjumörkum en þeir sem bjuggu með öðrum. Sama gildir um þá sem bjuggu í leiguhúsnæði samanborið við þá sem bjuggu í eigin húsnæði.

Þegar þau 20% landsmanna sem hafa hæstar ráðstöfunartekjur, eru borin saman við þau 20% sem hafa lægstar ráðstöfunartekjur (fimmtungastuðull) árið 2004 kemur í ljós að tekjuhæsti hópurinn var með 3,5 sinnum hærri tekjur en sá tekjulægsti. Gini-stuðullinn, sem sýnir dreifingu ráðstöfunartekna meðal allra landsmanna sem búa á einkaheimilum, var 0,24 árið 2003 og 0,25 árið 2004. Stuðullinn væri 1 ef sami maðurinn væri með allar tekjurnar en 0 ef allir hefðu jafnar tekjur.

Af 31 Evrópuþjóð árið 2004 var ein þjóð með lægra lágtekjuhlutfall en Íslendingar, tvær með sama hlutfall en 27 þjóðir voru með hærra lágtekjuhlutfall. Tvær þjóðir voru með lægri fimmtungastuðul en Íslendingar en 28 með hærri stuðul. Loks voru þrjár Evrópuþjóðir með lægri Gini-stuðul en Íslendingar en 27 þjóðir með hærri stuðul.

Lágtekjumörk og tekjudreifing 2003-2004 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.