FRÉTT LANDBÚNAÐUR 23. MAÍ 2024

Heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins árið 2023 er áætlað 89 milljarðar króna sem er rúm 8% aukning frá árinu 2022 en hana má rekja til hærra afurðaverðs. Áætlað er að um 65% framleiðsluvirðisins teljist til búfjárræktar en um 27% til nytjaplönturæktar.

Gert er ráð fyrir að kostnaður við aðfanganotkun verði um 56 milljarðar króna árið 2023 sem er 4% aukning frá fyrra ári. Áætlunin gerir ráð fyrir svipuðu magni aðfanga en hækkun á verði þeirra. Miðað við þessar forsendur verður aðfanganotkun 63% af heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins sem er svipað og það var á fyrra ári. Rétt er að benda á að mat á aðfanganotkun er háð nokkurri óvissu og þar með verður mat á hlutdeild annarra útgjaldaliða einnig óvisst.

Áætlunin byggir á lokaúttekt fyrir árið 2022 og svo fyrirliggjandi upplýsingum um magn- og verðbreytingar á landbúnaðarvörum árið 2023.

Framleiðsluvirði 82 milljarðar árið 2022
Árið 2022 var heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins metið 82 milljarðar króna. Virði afurða búfjárræktar, þ.e. framleiðsla dýra og dýraafurða, vegur þar langþyngst eða um 64% en virði afurða nytjaplönturæktar vegur um 27%. Tekjur af landbúnaðarþjónustu eru innan við 1% af heildarframleiðsluvirðinu og tekjur af óaðskiljanlegri aukastarfsemi eru rúm 8%.

Heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins jókst um rúm 14% frá fyrra ári. Aukninguna má rekja bæði til hærra afurðaverðs og álagsgreiðslna sem voru veittar til landbúnaðarins til þess að bregðast við verðhækkunum á helstu aðföngum í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Heildaraðfanganotkun árið 2022 nam 54 milljörðum króna sem er tæp 16% aukning frá fyrra ári. Aðfanganotkun er stærsti útgjaldaliðurinn og vegur tæp 66% af framleiðsluvirðinu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.