Heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins var 71 milljarður króna árið 2021 samkvæmt fyrstu áætlun sem er 4,4% aukning frá árinu 2020. Áætlað er að um 62% framleiðsluvirðisins teljist til búfjárræktar en um 30% til nytjaplönturæktar.

Gert er ráð fyrir að kostnaður við aðfanganotkun hafi verið um 49 milljarðar króna árið 2021 sem er aukning um rúm 11% frá fyrra ári og langt umfram aukningu framleiðsluvirðisins. Áætlunin gerir ráð fyrir lítilsháttar aukningu í magni aðfanga en töluverðri hækkun á verði. Miðað við þessar forsendur verður aðfanganotkun um 69% af heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins sem er nokkru hærra en á fyrra ári þegar það var 64%. Rétt er að benda á að mat á aðfanganotkun er háð nokkurri óvissu og þar með verður mat á hlutdeild annarra útgjaldaliða einnig óvisst.

Áætlunin byggir á lokaúttekt fyrir árið 2020 og svo fyrirliggjandi upplýsingum um magn- og verðbreytingar á landbúnaðarvörum árið 2021.

Framleiðsluvirði 68 milljarðar árið 2020
Árið 2020 var heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins metið 68 milljarðar króna. Virði afurða búfjárræktar, þ.e. framleiðsla dýra og dýraafurða, vegur þar langþyngst eða um 64% en virði afurða nytjaplönturæktar vegur um 28%. Tekjur af landbúnaðarþjónustu eru innan við 1% af heildar-framleiðsluvirðinu og tekjur af óaðskiljanlegri aukastarfsemi eru tæp 7%.

Heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins jókst um 7,4% frá fyrra ári. Framleiðsluverðmæti búfjárræktar jókst um 1,6% en virði nytjaplanta um 21,3%. Aukningu framleiðsluvirðis nytjaplantna má rekja bæði til aukningar í magni og verðhækkana en einkum þó til aukinna styrkja.

Heildaraðfanganotkun árið 2020 nam 43,8 milljörðum króna sem er 3,2% aukning frá fyrra ári. Aðfanganotkun vegur um 64% af framleiðsluvirðinu, afskriftir fastafjármuna vega um 13% og launakostnaður um 10%. Tekjur af atvinnurekstri landbúnaðar eru metnar 4,4 milljarðar króna árið 2020.

Talnaefni