FRÉTT LANDBÚNAÐUR 01. MARS 2023

Framleidd voru 9.501 tonn af alifuglakjöti árið 2022 á sama tíma og framleidd voru 8.650 tonn af kindakjöti. Þetta er í fyrsta skiptið sem mest er framleitt af alifuglakjöti en hingað til hefur kindakjötið verið í forystu hvað það varðar.

Árið 2022 voru framleidd samtals 30.428 tonn af kjöti á Íslandi, 2% minna en árið 2021 og þarf að fara aftur til ársins 2015 til þess að finna minni heildarframleiðslu. Samdrátturinn er vegna minni slátrunar á sauðfé og svínum.

Framleiðsla á kindakjöti var 8.659 tonn, dróst saman um 8% frá árinu áður og hefur ekki verið minni síðan 2007. Birgðir af kindakjöti í árslok voru 3.957 tonn, 19% minni en ári áður og hafa ekki verið minni í áratugi en gögn ná aftur til ársins 1977.

Nautakjötsframleiðslan var 4.948 tonn, svo til sama magn og 2021, en 34% færri kúm var slátrað árið 2022 en 2021. Hins vegar var 20% fleiri kálfum og 25% fleiri ungnautum slátrað en árið 2021. Þetta skilaði sér í auknu kálfa- og ungnautakjöti sem nam 546 tonnum eða magnaukningu upp á 17%.

Svínakjötsframleiðslan var 6.369 tonn og minnkaði um 3% á milli ára. Framleiðsla á alifuglakjöti var 9.501 tonn, 2% meiri en 2021, og er það þriðja mesta ársframleiðsla frá upphafi en aðeins var framleitt meira árin 2017 og 2019. Framleiðsla á hrossakjöti var 951 tonn og jókst um 14% á milli ára.

Útflutningur á kindakjöti var 3.151 tonn og jókst um 13% og hefur ekki verið meiri í fjögur ár. Útflutningur hrossakjöts dróst hins vegar saman um 50%.

Innflutningur á kjöti á árinu 2022 var 4.252 tonn, jókst um 37% á milli ára og hefur aldrei verið meiri. Mest var flutt in af alifuglakjöti, 1.815 tonn, svínakjöt var næst í röðinni, 1.718 tonn, og af nautakjöti voru flutt inn 1.180 tonn. 15 tonn af lambakjöti voru flutt inn á árinu 2022.

Fjöldi svína stóð í stað á milli ára, nautgripum fækkaði lítið eitt og fjöldi holdakúa jókst um 4%. Sauðfé fækkaði um 5%, mest á Norðurlandi vestra, um 5.600 fjár, og á Austurlandi um 4.500 fjár. Varphænsnum fækkaði um 8% en geitum fjölgaði um 12%.

Innflutningur á áburði dróst saman á milli ára. Reiknað í hreinum áburðarefnum dróst innflutningur á köfnunarefni saman um 8% og um 14% á fosfór og kalí.

Heyfengur var rúmar tvær milljónir rúmmetra, nokkuð undir meðaltali síðustu 10 ára. Þurrhey hefur aldrei verið skráð jafn lítið, eða tæpir 21 þúsund rúmmetrar en vothey hefur aðeins einu sinni verið meira síðan 1996. Kornuppskera var 9.400 tonn og hefur ekki verið meiri í tíu ár. Bygg er sem fyrr meirihluti uppskerunnar en hafrar voru tæp 300 tonn og hveiti rúmlega 200 tonn.

Metuppskera var af gulrótum árið 2022 eða 981 tonn. Uppskera af tómötum var 1.461 tonn sem er mesta uppskera síðan 2014, uppskera af agúrkum var 2.087 tonn og hefur aldrei verið meiri. Uppskera papriku var einungis 166 tonn og hefur ekki verið minni síðan 2007.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fyrirtaekjatolfraedi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.