FRÉTT KOSNINGAR 13. SEPTEMBER 2011

Hagstofa Íslands hefur gefið út Hagtíðindi þar sem greint er frá niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór 9. apríl 2011. Við atkvæðagreiðsluna voru alls 232.460 á kjörskrá eða 72,9% landsmanna. Af þeim greiddu 175.114 atkvæði eða 75,3% kjósenda. Kosningaþátttaka karla og kvenna var mjög svipuð, eða 75,4% hjá körlum og 75,3% hjá konum.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni voru greidd atkvæði um það hvort lög nr. 13/2011 ættu að halda gildi sínu eða falla úr gildi. Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar voru þær að gild atkvæði voru 172.669, auðir seðlar 2.039 og aðrir ógildir seðlar 406. Úrslit kosninganna urðu þau að af gildum atkvæðum sögðu 69.462 kjósendur „já“ eða 40,2% en „nei“ sögðu 103.207 eða 59,8%. Lög nr. 13/2011 voru þar með felld úr gildi.

Alþingi samþykkti lög nr. 13/2011 en forseti synjaði þeim staðfestingar. Lögin eru um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að staðfesta samninga sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, svonefnda Icesave-samninga. Samningarnir fjalla um ábyrgð íslenska ríkisins á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins.


Þjóðaratkvæðagreiðsla 9. apríl 2011 - Hagtíðindi 

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.