FRÉTT KOSNINGAR 18. MAÍ 2010

Hagstofa Íslands hefur gefið út Hagtíðindi þar sem greint er frá niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór 6. mars 2010. Var þetta fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan frá stofnun lýðveldisins 1944. Við atkvæðagreiðsluna voru alls 229.926 á kjörskrá eða 72,3% landsmanna. Af þeim greiddu 144.231 atkvæði eða 62,7% kjósenda. Kosningaþátttaka karla og kvenna var mjög svipuð, eða 62,9% hjá körlum og 62,6% hjá konum.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni voru greidd atkvæði um það hvort lög nr. 1/2010 ættu að halda gildi sínu eða falla úr gildi. Úrslit kosninganna urðu þau að gild atkvæði voru 136.991, auðir seðlar 6.744 og aðrir ógildir seðlar 496. Gild atkvæði féllu þannig að „já“ sögðu 2.599 kjósendur eða 1,9% en „nei“ sögðu 134.392 eða 98,1%. Lög nr. 1/2010 voru þar með felld úr gildi.

Lög nr. 1/2010 kveða á um breytingu á lögum nr. 96/2009. Alþingi samþykkti lög nr. 1/2010 en forseti synjaði þeim staðfestingar. Lögin eru um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

Þjóðaratkvæðagreiðsla 6. mars 2010 - Hagtíðindi 

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.