FRÉTT KOSNINGAR 14. APRÍL 2005

Út er komið hefti í efnisflokknum Kosningar í nýrri ritröð Hagtíðinda sem hófst árið 2004. Að þessu sinni er fjallað um sveitarstjórnarkosningarnar 25. maí 2002.

Kosning til sveitarstjórna var haldin 25. maí 2002 og náði til allra 105 sveitarfélaganna á landinu þá. Í 66 sveitarfélögum með 98,0% kjósenda var bundin hlutfallskosning og þar af var sjálfkjörið í 7 sveitarfélögum þar sem aðeins var borinn fram einn listi. Kosning var óbundin í 39 sveitarfélögum þar sem 2,0% kjósenda voru á kjörskrá. Kjósendur á kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2002 voru 204.945, eða 71,3% landsmanna. Karlar á kjörskrá voru 49,7% og konur 50,3%. Í sveitarstjórnarkosningunum 2002 greiddu atkvæði 168.913 kjósendur í 98 sveitarfélögum, eða 83,2% af þeim 203.141 sem voru þar á kjörskrá. Í sjö sveitarfélögum, með samtals 1.804 kjósendur á kjörskrá, var einn listi í framboði og hann því sjálfkjörinn án atkvæðagreiðslu. Í 66 sveitarfélögum komu fram 182 framboðslistar; þar af var einn listi í boði í 7 þeirra og því sjálfkjörið. Tala frambjóðenda í sömu sveitarfélögum var 2.714 og skiptist í 1.603 karla (59,1%) og 1.111 konur (40,9%). Alls voru kjörnir 657 sveitarstjórnarmenn á landinu öllu, 450 karlar (68,5%) og 207 konur (31,5%) en hlutfall kvenna hækkar með hverjum nýjum kosningum, var 12,4% 1982 og einungis 3,6% árið 1974.

Löng hefð er fyrir því að Hagstofan semji skýrslur um almennar kosningar á Íslandi. Að auki er að finna í hagtöluhluta vef Hagstofunnar mikið magn annarra kosningatalna.

Seinkun á birtingu þessarar kosningaskýrslu þar til nú er áhyggjuefni. Eins og greint er frá í skýrslunni er mjög misjafnt hvernig sveitarfélög og kjörstjórnir skila gögnum til Hagstofunnar sem vinnur úr niðurstöðunum. Þær upplýsingar sem í úrvinnslu Hagstofunnar bætast við venjubundin kosningaúrslit eru einkum tölur um kosningaþátttöku karla og kvenna eftir landsvæðum og sveitarfélögum. Verða slíkar tölur að teljast afar verðmætar við greiningu á þátttöku almennings í lýðræðislegum kosningum. Í aðdraganda næstu kosninga mun Hagstofan leita úrræða til að bæta gæðin og hraða gerð kosningaskýrslna eftir mætti.

Sveitarstjórnarkosningar 25. maí 2002 - útgáfur

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.