FRÉTT ÍBÚAR 25. OKTÓBER 2021

Yfir tíu ára tímabil frá 2011 til 2020 dóu flestir á Íslandi úr blóðrásarsjúkdómum eða 6.946 landsmenn sem svarar til tæplega þriðjungs allra látinna (32%). Þar á eftir létust 6.170 úr æxlum eða 28,4% látinna. Alls létust 2.286 úr sjúkdómum í taugakerfi (10,5%) og 1.840 úr sjúkdómum í öndunarfærum (8,5%). Fæstir dóu vegna ytri orsaka eða 1.433 sem svarar til 6,6% af heildarfjölda látinna yfir tímabilið 2011–2020.

Hagstofa Íslands birtir nú talnaefni um dánarmein fyrir árið 2020. Tölur um dánarmein byggjast á dánarvottorðum allra sem létust á tímabilinu og áttu lögheimili á Íslandi við andlát.

Algengustu dánarmein eftir kyni tímabilið 2011–2020
AllsKarlarKonur
Blóðrásarkerfi32,0%32,9%31,1%
Æxli28,4%29,5%27,3%
Taugakerfi og skynfæri10,5%8,5%12,5%
Öndunarfæri8,5%7,4%9,6%
Ytri orsakir6,6%8,3%4,9%
Önnur dánarmein14,0%13,4%14,6%

Þegar rýnt er í dánarmein hjá yngri aldursflokkum kemur í ljós að dánarmein skiptast þar með öðrum hætti en þegar horft er til dánarmeina allra. Fram að 34 ára deyja til að mynda flestir úr ytri orsökum eða 55,2%. Töluverður munur er á kynjunum en 61% karla deyja af ytri orsökum á móti 42% kvenna. Í aldursflokknum 35–64 ára deyja flestir úr æxlum eða 44%. Þar er einnig mikill munur á kynjunum þar sem mun fleiri konur (57%) deyja úr æxlum á þessu aldursskeiði en karlar (35%). Þó ber að hafa í huga í þessu samhengi að hlutfallslega færri deyja yngri en 65 ára eða einungis tæp 17% allra látinna yfir tímabilið 2011–2020. Í aldursflokknum 65–79 ára eru æxli enn algengust með 43% hlutdeild á móti 26% vegna blóðrásarsjúkdóma en röðun annarra dánarorsaka er sama og fyrir heildarfjölda látinna. Hlutfallið breytist í elsta aldursflokknum, 80 ára og eldri, en þar eru blóðrásarsjúkdómar algengasta dánarmeinið með 39% hlutdeild miðað við tæp 19% fyrir æxli.

Sjúkdómar í taugakerfum jukust um 89% á tímabilinu 2001–2020
Heildarfjöldi dauðsfalla og hlutfall einstakra dánarorsaka er breytilegt eftir aldurssamsetningu mannfjöldans. Hagstofa Íslands, eins og Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, notar aldursstaðlaða dánartíðni1 (aldursstaðlað á hverja 100.000 íbúa af staðalþýði: Eurostat–2013) til þess að auðvelda samanburð á dánartíðni, bæði yfir tíma og á milli landa.

Mynd 3 sýnir hvernig aldursstöðluð dánartíðni algengustu orsaka hefur þróast yfir tíma. Sjúkdómar í taugakerfi og skynfærum jukust mest á tímabilinu, fóru úr 46 tilfellum af hverjum 100.000 íbúum árið 2001 í rúm 87 árið 2020 sem er aukning um 89%. Aldursstöðluð dánartíðni vegna sjúkdóma í blóðrásarkerfi dróst hins vegar saman um 41% (fór úr 422 í 248 af hverjum 100.000 íbúum) á tímabilinu 2001–2020. Sömu sögu er að segja af æxlum og öndunarfærasjúkdómum en þar var samdrátturinn 22% og 21% yfir sama tímabil.

Skýring: Lóðréttir ásar vísa til aldursstaðlaðrar dánartíðni á hverja 100.000 íbúa af staðalþýði. Hægri ás er fyrir blóðrásarkerfi og æxli en vinstri ás fyrir taugakerfi og skynfæri, öndunarfæri og ytri orsakir.

29 einstaklingar dóu úr COVID-19 og 1 úr eftirstöðvum COVID-19 á árinu 2020
Teknir voru í notkun tveir nýir dánarmeinakóðar á árinu 2020 en þeir tengjast báðir COVID -19 og heita “COVID-19 ( Kórónuveirusjúkdómur 2019)” og “eftirstöðvar COVID-19”. Árið 2020 dóu 29 einstaklingar úr Covid-19 og einn einstaklingur vegna eftirstöðva COVID-19.

1Aldursstöðluð dánartíðni

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.