FRÉTT HEILBRIGÐISMÁL 13. NÓVEMBER 2017

Útgáfa OECD-ritsins Health at a Glance 2017
Efnahags- og framfarastofnunin í París (OECD) hefur gefið út ritið „Health at Glance 2017, OECD Indicators“. Í ritinu má finna margvíslegar upplýsingar um heilbrigðismál í aðildarríkjum stofnunarinnar sem nú eru 35 talsins auk fleiri landa. Ritið skiptist í ellefu kafla sem fjalla um heilbrigðisástand, áhrifaþætti heilbrigðis aðra en læknisfræðilega, aðgengi, gæði, heilbrigðisútgjöld, mannafla, starfsemi heilbrigðisþjónustunnar, lyfjamál og öldrun og langtíma umönnun. Sérstakur kafli er um ástæður ávinnings síðustu áratuga í auknum lífslíkum. Í ritinu er einnig svonefnt mælaborð þar sem löndin eru borin saman við meðaltal OECD út frá nokkrum þáttum.
Fréttatilkynningu OECD á ensku er hægt að nálgast á heimasíðu OECD.

Ávinningur í lífslíkum

Að mati OECD hafa heilbrigðari lífshættir, hærri tekjur og betri menntun, ásamt betri heilbrigðisþjónustu, stuðlað að aukinni meðalævilengd á síðustu áratugum. Frá 1970 til 2015 jókst meðalævilengd um rúm tíu ár að meðaltali í aðildarlöndum OECD og er nú 80,6 ár. Hér á landi jókst hún heldur minna eða um 8,5 ár. Lífslíkur íslenskra karla við fæðingu voru 81,2 ár, hæstar OECD-ríkja en lífslíkur kvenna 83,8 ár eða í 15. sæti OECD ríkja árið 2015 og er bilið milli kynjanna einna minnst hér á landi. Í ritinu er fjallað um samband menntunar og ævilengdar. Fram kemur að meðalævilengd þeirra sem eru með háskólamenntun um þrítugt sé að jafnaði sex árum lengri en þeirra sem minnsta menntun hafa.

Heilbrigðisástand

Rúmur þriðjungur dauðsfalla (36%) í ríkjum OECD er af völdum hjarta- og æðasjúkdóma og um fjórðungur af völdum krabbameina (25%). Aldursstöðluð dánartíðni vegna blóðþurrðarsjúkdóma lækkaði um 52% að meðaltali í ríkjum OECD tímabilið 1990-2015 en um 60% á Íslandi. Dánartíðni vegna sjúkdóma í heilaæðum lækkaði um 65% í ríkjum OECD en 52% á Íslandi.

Dánartíðni vegna krabbameina lækkaði á þessu tímabili, um 22% hér á landi en 18% að meðaltali í ríkjum OECD.

Af OECD ríkjunum var ungbarnadauði einna fátíðastur á Íslandi eða sem svarar tveimur látnum á fyrsta ári af 1000 lifandi fæddum (meðaltal 2013-15). Meðaltalið fyrir OECD lönd var 3,9. Börn með lága fæðingarþyngd voru hlutfallslega fæst hér á landi.

Þrír af hverjum fjórum fullorðinna (76%) á Íslandi töldu sig við góða eða mjög góða heilsu árið 2015 samanborið við 68,2% fullorðinna í OECD löndum að meðaltali. Var þetta hlutfall almennt lægra meðal tekjulágra en tekjuhærri.

Áhrifaþættir heilsu
Meðal lífsstílsþátta sem áhrif hafa á heilsufar eru reykingar, áfengisneysla, offita og hreyfing. Dregið hefur úr reykingum í flestum löndum frá árinu 2000 og er Ísland í hópi landa þar sem samdrátturinn var hvað mestur. Árið 2015 reyktu um 18% fullorðinna (14% kvenna og 23% karla) daglega í ríkjum OECD að meðaltali en 10% Íslendinga (2016). Aðeins í Mexíkó var þetta hlutfall lægra. Almennt reykja hlutfallslega fleiri karlar en konur en því var öfugt farið hér og í Danmörku en munur milli kynja var lítill.

Á Íslandi reyktu 3% 15 ára ungmenna að minnsta kosti einu sinni í viku (2013-14) en 12% að meðaltali í ríkjum OECD (28) og var hlutfallið lægst hér á landi. Hefur almennt dregið úr reykingum og áfengisneyslu meðal 15 ára ungmenna.

Skráð áfengisneysla minnkaði úr 9,5 lítrum af hreinum vínanda á íbúa 15 ára og eldri árið 2000 í 9 lítra árið 2015 að meðaltali í OECD- ríkjum. Ísland er meðal þrettán ríkja þar sem áfengisneysla jókst á þessu tímabili, úr 6,2 lítrum í 7,5 lítra.

Hlutfall fullorðinna sem neyttu ávaxta daglega var 52% hér á landi árið 2015 eða undir meðaltali OECD-ríkja (57%), en grænmetisneysla landsmanna var jöfn OECD meðtaltalinu (60%). Fleiri konur en karlar neyttu ávaxta og grænmetis daglega. Dagleg neysla bæði ávaxta og grænmetis meðal 15 ára ungmenna var hér hlutfallslega meiri en að meðaltali í OECD-ríkjum 2013-14.

Rúmlega helmingur (54%) fullorðinna telst of þungur eða of feitur í ríkjum OECD að meðaltali þar á meðal á Íslandi. Árið 2015 var hlutur of feitra 19% hér á landi (18,8% kvenna og 19,2% karla) eða svipað og meðaltal OECD-ríkja (19,8% kvenna, 18,9% karla). Hæst var hlutfallið í Bandaríkjunum (38%) en lægst í Japan og Kóreu (4-5%).

Ofþyngd (offita meðtalin) hefur farið mjög vaxandi, ekki bara hjá fullorðnum heldur einnig meðal ungmenna. Árin 2013-14 voru 18% 15 ára ungmenna hér á landi of þung (20% drengja og 16% stúlkna) og aðeins í þremur af 28 OECD löndum var hlutfallið hærra, í Grikklandi, Kanada og Bandaríkjunum (2009-10). Lægst var hlutfallið í Danmörku 9,5%. Meðaltal OECD-ríkja var 15,6%.

Útgjöld til heilbrigðismála
Heilbrigðisútgjöld á mann jukust í flestum ríkjum OECD samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir árið 2016. Er það áframhaldandi vöxtur í kjölfar stöðnunar eða samdráttar í heilbrigðisútgjöldum á árunum 2009 til 2011. Árlegur meðalvöxtur heilbrigðisútgjalda á mann á árunum 2009 til 2016 var 1,4% að meðaltali í ríkjum OECD, en 1% á Íslandi. Á árunum 2003-2009 var árlegur meðalvöxtur heilbrigðisútgjalda á mann að meðaltali 3,6% í ríkjum OECD en 0,4% á Íslandi.

Heildarútgjöld til heilbrigðismála á Íslandi árið 2016 námu samkvæmt bráðabirgðatölum 8,6% af vergri landsframleiðslu (VFL) ársins, þar af var 7,1% af VLF fjármagnað af hinu opinbera og 1,5% af heimilum landsins. Voru heildarútgjöld til heilbrigðismála að meðaltali 9,0% af VLF í ríkjum OECD.


Skýringar: Bráðabirgðatölur. Fjárfestingar eru ekki taldar með í útgjöldum, nema annað sé tekið fram. Heimild: OECD Health Statistics 2017.

Mannafli í heilbrigðisþjónustu
Árið 2015 var fjöldi starfandi lækna á þúsund íbúa 3,8 hér á landi en 3,4 að meðaltali fyrir OECD-ríkin. Á hinum Norðurlöndunum var hlutfallið lægst í Finnlandi (3,2) og hæst í Noregi (4,4). Hlutfall kvenna af starfandi læknum hefur hækkað en er mjög breytilegt eftir löndum eða frá 20% í Japan til 74% í Lettlandi. Hér á landi er hlutfall kvenna af starfandi læknum rúm 37%.

Fjöldi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða var 15,5 á þúsund íbúa hér á landi árið 2015, en 9,0 að meðaltali fyrir OECD lönd. Á hinum Norðurlöndunum var fjöldi þeirra á bilinu 11-17 á þúsund íbúa.

Starfsemi heilbrigðisþjónustunnar
Fjöldi sjúkrahúsarýma á Íslandi var 3,1 á þúsund íbúa árið 2015 en 4,7 að meðaltali fyrir OECD lönd. Fjöldi útskrifta af sjúkrahúsi (legur) var 114 á þúsund íbúa hérlendis árið 2015 en 156 að meðaltali í ríkjum OECD. Meðallegutími á sjúkrahúsum var 6,3 dagar á Íslandi eða svipaður og í Noregi (6,7) og Svíþjóð (5,9) en 7,8 dagar að meðaltali í OECD.

Árið 2015 voru 16 keisaraskurðir framkvæmdir hér á landi á hundrað lifandi fædda og aðeins í Hollandi (15,9) og Finnlandi (15,5) var hlutfallið lægra. Hæst var hlutfallið í Tyrklandi (53) en meðaltal OECD-ríkja var 28.

Lyfjamál
Hér á landi fjármagnaði hið opinbera 38% af lyfjaútgjöldum í smásölu en heimilin 58% (aðrir 4%) árið 2015. Aðeins í Lettlandi og Póllandi var hlutur heimilanna hærri. Á hinum Norðurlöndunum var hlutfallið 42-51%. Í þeim 30 OECD-ríkjum sem upplýsingar náðu til var hlutur hins opinbera og skyldutryggingar 57% að meðaltali en hlutur heimilanna 39%.

Lyfjanotkun hefur farið ört vaxandi og er notkunin breytileg milli landa. Árið 2015 var notkun sykursýkislyfja á Íslandi þriðja minnst miðað við önnur OECD-ríki en notkun þunglyndislyfja langmest hér á landi, 130 dagskammtar á hverja þúsund íbúa á dag eða meira en tvöfalt meiri en að meðaltali í OECD -ríkjum sem var 60 dagskammtar. Notkun lyfja við háþrýstingi og blóðfitulækkandi lyfja var hér undir meðaltali OECD.

Öldrun og langtíma umönnun
Lífslíkur fólks við 65 ára aldur hafa aukist um 5,4 ár frá 1970 að meðaltali í löndum OECD en 4,6 ár hér á landi. Lífslíkur án verulegrar heilsufarsskerðingar við 65 ára aldur voru 9,4 ár að meðaltali í OECD-ríkjum Evrópu (25) árið 2015 en bestar voru þær í Svíþjóð, 16,3 ár og því næst á Íslandi og í Noregi, 15,3 ár. Er munurinn eftir kyni hér á landi 0,4 ár, körlum í vil.

Fjöldi hjúkrunarrýma á stofnunum og sjúkrahúsum árið 2015 var 60,6 á þúsund íbúa 65 ára og eldri á Íslandi. Var hlutfallið heldur hærra m.a. í Finnlandi (65,3) og Svíþjóð (66,4) en það var 49,7 að meðaltali í ríkjum OECD. Hæst var hlutfallið í Hollandi 87,4 en lægst í Tyrklandi 8,0.

Um gögnin

Rit OECD byggir á gagnagrunni stofnunarinnar um heilbrigðismál en einnig ýmsum öðrum gögnum. Mikilvægt er að hafa í huga að samanburður milli landa á þann hátt sem kemur fram í riti OECD er aðeins mögulegur í þeim tilvikum þar sem upplýsingar eru aðgengilegar. Að auki þarf alltaf að hafa í huga að óvissa kann að ríkja um samanburðarhæfi gagna frá mismunandi löndum, til dæmis vegna ólíkra skilgreininga eða aðferða við útreikning.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1054 , netfang Sigridur.Vilhjalmsdottir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.