FRÉTT HEILBRIGÐISMÁL 21. NÓVEMBER 2013

Efnahags- og framfarastofnunin í París (OECD) hefur gefið út ritið „Health at a Glance 2013, OECD indicators“. Í ritinu má finna margvíslegar upplýsingar um heilbrigðismál í aðildarríkjum stofnunarinnar sem nú eru 34 talsins. Ritið skiptist í átta kafla sem fjalla um heilbrigðisástand, áhrifaþætti heilbrigðis aðra en læknisfræðilega, mannafla, starfsemi heilbrigðisþjónustunnar, gæði, aðgengi, heilbrigðisútgjöld og fjármögnun og þjónustu við aldraða og langveika.

Fréttatilkynningu OECD á ensku er hægt að nálgast á heimasíðu OECD.

Ísland í samanburði við önnur ríki OECD

Útgjöld til heilbrigðismála

Heildarútgjöld til heilbrigðismála á mann drógust saman í einu af hverjum þremur ríkja OECD milli áranna 2009 og 2011, mest í þeim ríkjum sem urðu verst fyrir efnahagskreppunni. Ísland er þar á meðal með 3,8% samdrátt að meðaltali á ári. Er þetta viðsnúningur frá aukningu útgjalda sem einkenndi árin fram að kreppunni. Útgjöld til heilbrigðismála í heild í ríkjum OECD voru að meðaltali 9,3% af vergri landsframleiðslu (VLF) ríkjanna árið 2011. Í Bandaríkjunum var hlutfallið langhæst eða 17,7% en næsthæst í Hollandi, 11,9%. Ísland var í 19. sæti ríkja OECD á þennan mælikvarða ásamt Finnlandi með 9,0%.

Að meðaltali vörðu ríki OECD 3.322 Bandaríkjadölum (USD) á mann til heilbrigðismála árið 2011 miðað við jafnvirðisgildi dollars (PPP). Á Íslandi námu útgjöldin 3.305 USD á mann, í Noregi 5.669 USD, í Danmörku 4.448 USD, í Svíþjóð 3.925 USD og í Finnlandi 3.374 USD þetta sama ár. Í Bandaríkjunum voru útgjöldin hins vegar mest eða 8.508 USD á mann.

 

Fjórir af hverjum fimm telja sig við góða heilsu
Fjórir af hverjum fimm fullorðnum á Íslandi (78%) töldu sig vera við góða heilsu árið 2011 í samanburði við 69% fullorðinna í ríkjum OECD að meðaltali. Er þetta hlutfall almennt lægra meðal tekjulágra en tekjuhærri. Lífslíkur íslenskra karla við fæðingu voru 80,7 ár, hæstar OECD-ríkja og lífslíkur kvenna 84,1 ár eða í 8. sæti OECD-ríkja.

Þriðjungur dauðsfalla í ríkjum OECD er vegna hjarta- og æðasjúkdóma og fjórðungur af völdum  krabbameina. Aldursstöðluð dánartíðni vegna blóðþurrðarsjúkdóma lækkaði um 42% að meðaltali í ríkjum OECD tímabilið 1990-2011 en 47% á Íslandi (1990-2009). Dánartíðni af völdum sjúkdóma í heilaæðum lækkaði einnig, en þó minna hér (41%) en í löndum OECD að meðaltali (51%). Á sama tíma dróst dánartíðni vegna krabbameina í heild saman að meðaltali um 14% í ríkjum OECD en um 16% á Íslandi.

Árið 2011 var tíðni ungbarnadauða lægst á Íslandi eða sem svarar 1,6 látnum á fyrsta ári af 1000 lifandi fæddum. Meðaltal OECD-landa var 4,1. Börn með lága fæðingarþyngd (undir 2500 grömmum) voru einnig hlutfallslega fæst hér á landi.

Áætlað er að á árinu 2011 hafi 3,3% einstaklinga á aldrinum 20-79 ára á Íslandi verið með sykursýki. Er þetta lægsta hlutfall á meðal OECD-landa þar sem meðaltalið er áætlað 6,9%.

Reykingar minnka en ofþyngd eykst
Þó margt hafi áunnist í að bæta heilsufar þjóða þá eiga lífsstílsþættir eins og reykingar, áfengisneysla, offita, óhollt mataræði og hreyfingarleysi enn stóran þátt í sjúkdómabyrðinni í ríkjum OECD.

Reykingar drógust saman um 20% að meðaltali í löndum OECD síðastliðinn áratug, en nokkru meira hér á landi. Árið 2011 reyktu rúm 14% fullorðinna á Íslandi daglega samanborið við 21% í löndum OECD að meðaltali. Almennt reykir hærra hlutfall karla en kvenna en á Íslandi, í Danmörku, Noregi og á Bretlandi voru reykingar svipaðar hjá kynjunum.

Reykingar og áfengisdrykkja 15 ára ungmenna voru með því minnsta hér á landi miðað við 26 lönd OECD árin 2009-2010 en hlutfall of þungra ungmenna var heldur hærra hér (17%) en meðaltal OECD (15%).

Rúmlega helmingur fullorðinna er nú talinn of þungur eða of feitur í 20 af 34 löndum OECD, þ.á m. á Íslandi. Árið 2011 var hlutfall of feitra hæst í Bandaríkjunum eða rúm 36% en lægst í Kóreu og Japan, um 4%. Á sama tíma var þetta hlutfall 21% á Íslandi en 10-17% á hinum Norðurlöndunum. Samkvæmt skýrslu OECD voru sjö aðildarlönd með hærra hlutfall of feitra en Ísland.

Hlutfall hjúkrunarfólks hærra á Íslandi en meðaltal OECD
Á Íslandi voru 3,5 starfandi læknar á hverja 1000 íbúa árið 2011 eða svipað og á hinum Norðurlöndunum þar sem hlutfallið var 3,3-3,9. Meðaltalið fyrir OECD var 3,2. Þriðjungur lækna hér á landi var konur samanborið við 44% í ríkjum OECD að meðaltali.

Samanlagður fjöldi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða var 15 á hverja 1000 íbúa á Íslandi sem er svipað og í Belgíu og Danmörku en var 13 í Noregi, 11 í Svíþjóð og 10 í Finnlandi. Meðaltal fyrir OECD lönd var níu. Ljósmæður voru hlutfallslega flestar á Íslandi miðað við önnur OECD-lönd.

Tíðni keisaraskurða lægst á Íslandi
Komur til lækna voru 6,1 á íbúa á Íslandi en 6,7 að meðaltali í ríkjum OECD. Legur (útskriftir) á sjúkrahúsum voru hlutfallslega færri og meðallegutími styttri (2009) en að meðaltali í löndum OECD (2011). Voru fleiri kransæðavíkkanir framkvæmdar hér á 100.000 íbúa en að meðaltali í löndum OECD. Tíðni keisaraskurða hefur víða aukist á síðustu árum en það á ekki við um Ísland. Var tíðni þeirra lægst hér á landi árið 2011, tæplega 15% af lifandi fæddum en hæst 49% í Mexíkó. Var hlutfallið 27% að meðaltali í ríkjum OECD.

Lyfjanotkun er mjög breytileg milli landa. Árið 2011 var notkun sykursýkislyfja næstminnst á Íslandi af löndum OECD eða 39 dagskammtar á hverja 1000 íbúa á dag en meðaltalið fyrir OECD var 60. Helst það í hendur við lága tíðni sykursýki hér á landi samanborið við önnur lönd. Notkun þunglyndislyfja var aftur á móti mest á Íslandi, 106 dagskammtar á hverja 1000 íbúa á dag eða næstum helmingi meiri en að meðaltali í ríkjum OECD (56). Notkun blóðfitulækkandi lyfja og lyfja við háþrýstingi var hér undir meðaltali OECD.

Gæði heilbrigðisþjónustunnar
Frá árinu 2007 hafa sérstakir gæðavísar verið birtir í Health at a Glance en þeir gefa vísbendingar um gæði heilbrigðisþjónustunnar. Gæðavísunum hefur fjölgað og þeir ná nú yfir fleiri svið þjónustunnar en val gæðavísa takmarkast af ýmsum þáttum, s.s. samanburðarhæfi upplýsinga og aðgengi að þeim. Þetta ber að hafa í huga þegar upplýsingar eru skoðaðar frá einstökum ríkjum.

Á Íslandi er árangur af meðferð við kransæðastíflu, mældur sem hlutfall látinna innan 30 daga eftir innlögn, sá sjötti besti. Á árinu 2011 létust 5,7 af hverjum 100 sjúklingum, 45 ára og eldri, sem voru lagðir inn vegna bráðrar kransæðastíflu. Þetta hlutfall var lægra í Svíþjóð, Noregi og Danmörku en það var hærra að meðaltali í löndum OECD eða 7,9. Á árinu 2011 létust 7,4 af hverjum 100 sjúklingum, 45 ára og eldri, innan 30 daga eftir innlögn vegna heilaáfalls tengt blóðþurrð á Íslandi. Meðaltal OECD-ríkjanna var 8,5.

Ísland er í fjórða sæti þegar kemur að leiðréttum lífshorfum eftir greiningu brjóstakrabbameina á síðustu árum, en reikna má með að 87,5% þeirra kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein lifi í 5 ár eða lengur. Bestar lífshorfur eru í Bandaríkjunum, 89,3%. Meðaltal OECD-ríkjanna er 84,4%.

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu
Hlutur heimila í heilbrigðisútgjöldum var 18% á Íslandi árið 2011 en 20% að meðaltali í löndum OECD. Samanburður 24 Evrópulanda árið 2011 sýnir að algengara var að fólk sleppti því að fara til tannlæknis en læknis þó þess væri þörf. Var hlutfall þeirra sem ekki fóru til tannlæknis hæst á Íslandi (13,7%) og því næst á Ítalíu, í Portúgal, Póllandi og Svíþjóð og var mun hærra hjá tekjulágum en tekjuháum.

Hlutur heimila í tannlæknakostnaði í heild var hlutfallslega hár á Íslandi miðað við önnur OECD lönd eða 82% samanborið við 55% að meðaltali í löndum OECD árið 2011. Á hinum Norðurlöndunum var hlutfallið á bilinu 57-73%.

Hjúkrunarrými á Íslandi fleiri en almennt í löndum OECD
Árið 2011 bjuggu 4% 65 ára og eldri á stofnunum sem veita langtíma hjúkrun í ríkjum OECD að meðaltali. Sambærilegt hlutfall hér á landi var 6% (2010), um 5% í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð en rúm 4% í Danmörku.

Á sama tíma voru á Íslandi 70 hjúkrunarrými (á hjúkrunarheimilum og sjúkrahúsum) á hverja 1000 íbúa 65 ára og eldri en meðaltal 19 OECD-ríkja var 49. Hæst var hlutfallið í Lúxemborg (79) og Svíþjóð (73) en lægst á Ítalíu (19).

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.