Efnahags- og framfarastofnunin í París (OECD) hefur gefið út ritið „Health at a Glance 2011, OECD indicators“. Í ritinu má finna margvíslegar upplýsingar um heilbrigðismál í  aðildarríkjum stofnunarinnar sem nú eru 34 talsins. Ritið skiptist í átta kafla sem fjalla um heilbrigðisástand, áhrifaþætti heilbrigðis aðra en læknisfræðilega, mannafla, starfsemi heilbrigðisþjónustunnar, gæði, aðgengi, heilbrigðisútgjöld og fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar svo og þjónustu við aldraða og langveika.

Fréttatilkynningu OECD á ensku er hægt að nálgast á heimasíðu OECD.

Ísland í samanburði við önnur ríki OECD

Heilbrigðisástand
Fjórir af hverjum fimm fullorðnum á Íslandi (80%) töldu sig vera við góða heilsu árið 2009 í samanburði við 69% fullorðinna í ríkjum OECD að meðaltali. Árið 2009 var meðalævilengd á Íslandi 81,5 ár en í sex ríkjum OECD var hún lengri. Lífslíkur íslenskra karla við fæðingu voru 79,7 ár, aðeins lægri en í Sviss þar sem þær voru hæstar. Lífslíkur kvenna á Íslandi voru 83,3 ár eða í 11. sæti OECD landa.

Hér á landi dóu hlutfallslega færri af völdum blóðþurrðar hjartasjúkdóma og heilablæðingar árið 2009 en að meðaltali í löndum OECD. Átti það bæði við um konur og karla. Dánartíðni kvenna (aldursstöðluð) vegna krabbameina var heldur hærri hér en meðaltal OECD ríkja en dánartíðni karla lægri. Nánast enginn munur er á dánartíðni karla og kvenna vegna lungnakrabbameins á Íslandi ólíkt því sem er í öðrum OECD löndum þar sem dánartíðni karla með lungnakrabbamein er yfirleitt hærri en kvenna. Nýgengi brjóstakrabbameins kvenna var hærra á Íslandi en að meðaltali í OECD-ríkjum en dánartíðni vegna sjúkdómsins hins vegar lægri. Bæði nýgengi og dánartíðni karla vegna krabbameins í blöðruhálskirtli var hærri hér á landi en að meðaltali í löndum OECD.

Árið 2009 var tíðni ungbarnadauða lægst á Íslandi eða sem svarar 1,8 látnum á fyrsta ári af 1.000 lifandi fæddum. Meðaltal OECD landa var 4,4 börn en var 30 árið 1970.  Börn með lága fæðingarþyngd (undir 2.500 grömmum) voru einnig hlutfallslega fæst hér á landi árið 2009 en 4,1 % nýfæddra barna voru í þeim hópi samanborið við 6,7% að meðaltali í OECD-ríkjum.

Áætlað er að á árinu 2010 hafi 1,6% einstaklinga á aldrinum 20-79 ára hér á landi verið með sykursýki. Er þetta lægsta hlutfall á meðal OECD landa þar sem meðaltalið er áætlað 6,5%. Er talið að hlutfallið sé yfir 10% í Bandaríkjunum og Mexíkó.

Áhrifaþættir heilbrigðis aðrir en læknisfræðilegir
Þó margt hafi áunnist í að bæta heilsufar þjóða þá eiga lífsstílsþættir eins og reykingar, áfengisneysla, offita, óhollt matarræði og hreyfingarleysi enn stóran þátt í sjúkdómabyrðinni í ríkjum OECD í dag.

Árið 2009 reyktu 15,8% fullorðinna á Íslandi daglega samanborið við 22,1% í löndum OECD að meðaltali. Í öllum OECD-ríkjum nema Svíþjóð var hlutfall þeirra sem reykja hærra meðal karla en kvenna. Á Íslandi, Noregi og Bretlandi voru reykingar svipaðar hjá kynjunum.

Rúmlega helmingur fullorðinna er nú talinn of þungur eða of feitur í 19 af 34 löndum OECD þ.á.m. á Íslandi. Árið 2009 var hlutfall of feitra hæst í Bandaríkjunum eða 34%  en lægst í Kóreu og Japan, um 4%. Á sama tíma var þetta hlutfall 20% á Íslandi sem er svipað og í Finnlandi en var 10-13% á hinum Norðurlöndunum. Samkvæmt skýrslu OECD voru tíu aðildarlönd með hærra hlutfall of feitra en Ísland. Eitt af hverjum fjórum til fimm börnum á aldrinum 5-17 ára hér á landi teljast of þung eða of feit.


Mannafli í heilbrigðisþjónustu
Á Íslandi og í Svíþjóð voru 3,7 læknar á hverja 1.000 íbúa árið 2009 en 4,0 í Noregi, 3,4 í Danmörku og 2,7 í Finnlandi. Meðaltalið fyrir  OECD var 3,1. Konum í læknastétt í OECD-ríkjum fjölgaði úr 29% árið 1990 í 43% árið 2009. Voru konur 32% lækna hér á landi árið 2009.

Á Íslandi var hlutfall heimilislækna af læknum í heild 16% samanborið við 26% í löndum OECD að meðaltali árið 2009. Þróunin sýnir að sérfræðingum hefur fjölgað hlutfallslega meira en heimilislæknum í ríkjum OECD.

Samanlagður fjöldi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða var 15 á hverja 1.000 íbúa hér á landi sem er svipað og í Sviss, Belgíu og Danmörku en var 14 í Noregi, 11 í Svíþjóð og 10 í Finnlandi. Meðaltal fyrir OECD lönd var 8,4. Á Íslandi voru 4,2 hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar á hvern lækni á sama tíma og meðaltal OECD landa var 2,8.

Starfsemin í heilbrigðisþjónustunni
Legur og meðallegutími á sjúkrahúsum gefa vísbendingar um starfsemi sjúkrahúsa. Árið 2009 var 141 lega á 1.000 íbúa á Íslandi sem er heldur lægra hlutfall en að meðaltali í löndum OECD (158). Meðallegutíminn hér á landi var 5,8 dagar árið 2009 en í Danmörku, Noregi og Svíþjóð var hann heldur lægri (4,6-5,7). Meðaltal OECD landa var 7,2 dagar.

Hér á landi voru framkvæmdar fleiri kransæðavíkkanir á 100.000 íbúa en að meðaltali í löndum OECD. Það sama má segja um liðskiptaaðgerðir á mjöðm og hné sem hefur fjölgað til muna á undanförnum árum.

Lyfjanotkun er mjög breytileg milli landa. Árið 2009 var notkun sykursýkislyfja minnst á Íslandi af löndum OECD eða 29 dagskammtar á hverja 1.000 íbúa á dag en meðaltalið fyrir OECD var tæplega 59. Helst það í hendur við lága tíðni sykursýki hér á landi samanborið við önnur lönd. Notkun þunglyndislyfja var aftur á móti mest á Íslandi, 98 dagskammtar á hverja 1.000 íbúa á dag eða næstum helmingi meiri en að meðaltali í ríkjum OECD (53).  Notkun blóðfitulækkandi lyfja var heldur meiri hér en í  OECD löndum að meðaltali en notkun sýklalyfja jafnmikil.

Gæði heilbrigðisþjónustunnar
Til þess að meta gæði heilbrigðisþjónustu hafa verið þróaðir og valdir gæðavísar. Val gæðavísa takmarkast af ýmsum þáttum s.s samanburðarhæfi upplýsinga og aðgengi að þeim og ber að hafa það í huga þegar upplýsingar eru skoðaðar frá einstökum ríkjum. Ísland stendur sem fyrr almennt vel að vígi þegar kemur að gæðum heilbrigðisþjónustu. Dæmi  um  slíkt er árangur af meðferð við kransæðastíflu á Íslandi, mældur sem hlutfall látinna innan 30 daga eftir innlögn. Þar er Ísland með fjórða besta árangurinn en á árinu 2009 létust þrír af hverjum 100 sjúklingum sem voru lagðir inn vegna bráðrar kransæðastíflu. Var hlutfallið svipað eða heldur lægra í Svíþjóð, Noregi og Danmörku en það var rúmlega fimm að meðaltali í löndum OECD. Þá var Ísland vel fyrir neðan meðaltal OECD hvað varðar dauðsföll innan 30 daga eftir innlögn vegna heilaáfalla, bæði vegna blóðþurrðar og blæðinga.

Dánartíðni vegna leghálskrabbameins er sú þriðja lægsta á Íslandi samanborið við hin OECD-ríkin. Hér á landi er aldursstöðluð dánartíðni 1,3 á hverjar 100.000 konur, í Finnlandi 1,2 en 0,8 á Ítalíu þar sem tíðnin er lægst. Meðaltal OECD-ríkjanna er 3,2.

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu
Samanburður 24 Evrópulanda árið 2009 sýnir að algengara var að fólk sleppti því að fara til tannlæknis en læknis þó þess væri þörf. Var hlutfall þeirra sem ekki fóru til tannlæknis með því hæsta á Íslandi, Svíþjóð, Noregi, Ítalíu og Póllandi (um 10%), og var mun hærra hjá tekjulágum en tekjuháum.

Hlutur einstaklinga í tannlæknakostnaði í heild er hlutfallslega hár á Íslandi miðað við önnur OECD lönd eða 81% samanborið við 54% að meðaltali í löndum OECD. Á hinum Norðurlöndunum er hlutfallið á bilinu 54-75%.

Þjónusta við aldraða og langveika
Á Íslandi bjuggu 6%  65 ára og eldri á stofnunum sem veita  langtíma hjúkrun árið 2009 og var hlutfallið svipað í Noregi og Svíþjóð, en  lægra í Danmörku og Finnlandi.

Hér á landi voru 69 hjúkrunarrými (á hjúkrunarheimilum og sjúkrahúsum) á hverja 1.000 íbúa 65 ára og eldri árið 2009 en meðaltal 19 OECD ríkja var tæp 50. Hæst var hlutfallið í Svíþjóð (82) en lægst á Ítalíu (18).

Útgjöld til heilbrigðismála
Heildarútgjöld til heilbrigðismála í ríkjum OECD voru að meðaltali 9,6% af vergri landsframleiðslu (VLF) ríkjanna árið 2009. Í Bandaríkjunum var hlutfallið hæst eða 17,4% en hér á landi voru heildarútgjöld til heilbrigðismála 9,7% af VLF árið 2009, samanborið við 9,1% árið 2008. Var Ísland í 14. sæti OECD ríkja á þennan mælikvarða. Danir vörðu 11,5% af VLF til heilbrigðismála árið 2009, Svíar 10,0% og Norðmenn 9,6%, Hollendingar 12,0%, Frakkar 11,8% og Þjóðverjar 11,6%.
 
 


Hérlendis er meginhluti útgjalda til heilbrigðismála fjármagnaður af hinu opinbera eða um 82,0% árið 2009, en það svarar til 7,5% af VLF. Á hinum Norðurlöndunum var hlutur hins opinbera svipaður eða 81,5-84,5%, að Finnlandi undanskildu þar sem hlutfallið var 74,7%. Í Hollandi var þetta hlutfall hæst eða 84,7% en lægst í Chile, 47,4%.

Meðalheilbrigðisútgjöld OECD ríkja á mann voru 3.233 bandaríkjadalir (USD) árið 2009 miðað við jafnvirðisgildi dollars (PPP). Í Bandaríkjunum mældust útgjöldin hins vegar hæst eða 7.960 USD á mann. Á Íslandi námu útgjöldin 3.538 USD á mann, í Noregi 5.352 USD, í Danmörku 4.348 USD, í Svíþjóð 3.722 USD og í Finnlandi 3.226 USD þetta sama ár.

Opinber útgjöld til heilbrigðismála á mann á Íslandi voru á sama tíma 2.901 USD miðað við jafnvirðisgildi og var Ísland í 14. sæti af aðildarríkjum OECD hvað þessi útgjöld varðar. Opinber útgjöld á mann voru hæst í Noregi 4.501 USD, þar á eftir í Lúxemborg 4.040 USD, síðan kom Holland með 3.884 og þá Bandaríkin með 3.795 USD á mann.