FRÉTT HEILBRIGÐISMÁL 07. MARS 2017

Árið 2015 var hlutfall fólks á Íslandi sem aldrei reykir með því hæsta sem gerist í Evrópu. Fólk með háar tekjur er ólíklegra til að reykja en tekjulágir.

Svíar ólíklegastir til að reykja
Rúmlega 81% fólks á Íslandi reykir aldrei, en það er þriðja hæsta hlutfall í Evrópu. Hæst er hlutfall reyklausra í Svíþjóð, rúmlega 83%, og í Bretlandi, tæp 83%. Hlutfall þeirra sem aldrei reykja var lægst í Búlgaríu, um 65%, Grikklandi, rúm 67% og í Tyrklandi, 67,5%. Ísland er með fimmta hæsta hlutfall fólks sem reykir stöku sinnum (tæplega 7%) en næstlægsta hlutfall fólks sem reykir daglega (12%).

Fólk með lægri tekjur líklegra til að reykja
Rúm 24% fólks í lægsta tekjufimmtungi reykja og nær 16% reykja daglega. Hlutfall reykingafólks lækkar eftir þrepum tekjustigans og er lægst í efsta fimmtungi, en tæp 13% tekjuhæsta hópsins reykja og tæp 8% reykja daglega.

Um rannsóknina
Evrópska heilsufarsrannsóknin er samræmd rannsókn á heilsufari og heilsutengdri hegðun sem er framkvæmd af hagstofum á Evrópska efnahagssvæðinu. Rannsóknin fór fram á Íslandi haustið 2015. Í úrtaki voru 5.700 einstaklingar valdir af handahófi úr þjóðskrá. Af þeim svaraði 4.001 einstaklingur sem þýðir að svarhlutfallið var 70,2%.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1286 , netfang lifskjararannsokn@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.