FRÉTT HEILBRIGÐISMÁL 16. MARS 2017

Í evrópsku heilsufarsrannsókninni var Ísland í fjórða sæti yfir fjölda fólks sem notar lyfseðilsskyld lyf. Fleiri konur en karlar nota slík lyf. Munur á kynjunum er mestur í aldurshópnum 15–24 ára en enginn í aldurshópnum 65 ára og eldri.

Lyfjanotkun tíðust í Belgíu
Á Íslandi nota um 55% fólks lyfseðilsskyld lyf, sem er fjórða hæsta hlutfall þeirra Evrópulanda sem tóku þátt í evrópsku heilsufarsrannsókninni. Hlutfallið er hæst í Belgíu, um 60%, en lægst í Rúmeníu, tæp 23%. Af Norðurlöndunum kemst Finnland næst Íslandi með tæp 55%, þar á eftir er Noregur með 47,5% og Svíþjóð með um 47%. Danmörk er lægst Norðurlandanna með um 46%.


Fleiri konur en karlar nota lyfseðilsskyld lyf
Tæp 63% kvenna á Íslandi nota lyfseðilsskyld lyf en tæp 48% karla. Mestur munur var á kynjunum í aldurshópnum 15–24 ára, en um 56% kvenna á þeim aldri notaði slík lyf samanborið við rúm 26% karla. Hlutfallið lækkar í rúm 45% kvenna í aldurshópnum 25–34 ára en hækkar í rúm 33% á meðal karla á þeim aldri. Notkun lyfseðilsskyldra lyfja eykst hratt með hækkandi aldri. Hlutfall notenda hækkar meira meðal karla en kvenna frá 45–64 ára, en skiptingin er nokkuð jöfn milli kynja í elsta aldurshópnum, eða um 87%.


Um rannsóknina
Evrópska heilsufarsrannsóknin er samræmd rannsókn á heilsufari og heilsutengdri hegðun sem hagstofur á Evrópska efnahagssvæðinu framkvæma. Rannsóknin var gerð á Íslandi haustið 2015. Í úrtaki voru 5.700 einstaklingar sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Af þeim svaraði 4.001 einstaklingur sem þýðir að svarhlutfallið var 70,2%.

Mæling lyfjanotkunar
Þátttakendur í rannsókninni voru spurðir hvort þeir hefðu notað lyf sem læknir ávísaði þeim undanfarnar tvær vikur. Getnaðarvarnapillur voru ekki taldar með.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1286 , netfang lifskjararannsokn@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.