FRÉTT HEILBRIGÐISMÁL 03. APRÍL 2017

Samkvæmt evrópsku heilsufarsrannsókninni frá 2015 borðar einn af hverjum tíu íbúa á Íslandi fimm eða fleiri skammta af grænmeti og ávöxtum á dag, sem er tólfta lægsta hlutfallið í Evrópu. Konur eru líklegri til að vera í þessum hópi en karlar en neysla ávaxta og grænmetis er einnig tengd menntun, aldri og búsetu.

Svipuð neysla og að meðaltali í Evrópu
Á Íslandi borðar rúmur þriðjungur landsmanna (35%) undir einum skammti af grænmeti og ávöxtum á dag sem er svipað og að meðaltali í Evrópusambandinu (34%). Hæst er þetta hlutfall í Rúmeníu (65%) en lægst í Belgíu (16%).

Hlutfall þeirra sem borða 1-4 skammta af ávöxtum og grænmeti á dag er 55%, sem einnig er svipað og gerist að meðaltali í Evrópu (51%). Hæst er þetta hlutfall í Belgíu (71%) en lægst í Hollandi (29%).

Ef kastljósinu er beint að þeim sem mest borða af grænmeti og ávöxtum, sem samsvarar fimm skömmtum eða fleiri á dag, er það hlutfall 10% á Íslandi en 14% í Evrópu. Hæst er þetta hlutfall í Bretlandi (33%) og næsthæst á Írlandi (29%) en lægst í Tyrklandi (3%).


Konur borða meira af grænmeti og ávöxtum en karlar
Á Íslandi líkt og almennt í Evrópu borða konur meira af grænmeti og ávöxtum en karlar, en 14% kvenna á Íslandi borða fimm eða fleiri skammta á dag á móti 6% karla. Hlutfall þeirra sem borða undir einum skammti af grænmeti og ávöxtum á dag er 40% meðal fólks með grunnmenntun en 28% meðal fólks með háskólamenntun. Þá er neysla ávaxta og grænmetis algengari meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins en utan þess, til dæmis borða um 32% íbúa höfuðborgarsvæðisins minna en einn skammt af grænmeti og ávöxtum á dag en 40% íbúa í dreifbýli.

Tekjur hafa minni áhrif en víða annars staðar
Í mörgum Evrópulöndum er að finna nokkuð sterkt samband á milli tekna og ávaxta- og grænmetisneyslu. Í Bretlandi til að mynda reynist um 39% svarenda í hæsta tekjufimmtungi borða ávexti og grænmeti fimm sinnum eða oftar á dag en 25% í lægsta tekjufimmtungi. Á Íslandi er lítil tenging við tekjur ef horft er til fólks sem hvað mest borðar af grænmeti og ávöxtum. Í lægsta tekjufimmtungi borða 9% einstaklinga fimm skammta eða fleiri á dag en um 11% fólks í tveimur hæstu tekjufimmtungunum. Meiri munur er á hlutfalli fólks sem borðar undir einum skammti á dag eftir tekjum, en það á við um 40% fólks í lægsta tekjufimmtungi en um 33% fólks í tveimur hæstu tekjufimmtungunum.


Ítarlegar greiningar á ávaxta- og grænmetisneyslu eftir kyni, menntun, aldri, tekjum og búsetu er í töflum á vef Hagstofunnar. Allar niðurstöður eru sundurgreindar eftir kyni.

Ávaxta- og grænmetisneysla
Spurt var hversu oft séu borðaðir ávextir annars vegar og grænmeti hins vegar. Við daglega neyslu var spurt hversu margir skammtar væru borðaðir á hverjum degi. Einn skammtur samsvarar einum meðalstórum ávexti eða 150 millilítrum af ferskum safa og er þá hvorki átt við safa úr þykkni né kartöflur.

Um rannsóknina
Evrópska heilsufarsrannsóknin er samræmd rannsókn á heilsufari og heilsutengdri hegðun sem er framkvæmd af hagstofum á Evrópska efnahagssvæðinu. Íslenski hluti rannsóknarinnar var framkvæmdur haustið 2015. Í úrtaki voru 5.700 einstaklingar valdir af handahófi úr þjóðskrá. Af þeim svaraði 4.001 einstaklingur sem þýðir að svarhlutfallið var 70,2%.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1285 , netfang Thora.Thorsdottir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.