FRÉTT HEILBRIGÐISMÁL 11. NÓVEMBER 2016

Árið 2015 mátu tæplega 8 af hverjum 10 íbúum á Íslandi heilsufar sitt sem gott eða mjög gott, eða 76%. Um 73% kvenna mátu heilsufar sitt sem gott en um 80% karla. Þetta er lægra en árið 2004 þegar lífskjararannsóknin var gerð í fyrsta sinn, en þá var hlutfallið 79% í heild, 75% hjá konum og 82% hjá körlum. Hæst fór hlutfall fólks við góða heilsu í 81% árið 2008, 79% meðal kvenna og rúmlega 82% meðal karla.

Tæpur þriðjungur (30%) íbúa á Íslandi kvaðst eiga við langvarandi veikindi að stríða árið 2015, 35% kvenna og 25% karla. Er þetta nokkuð hærra hlutfall en árið 2004 þegar rúmlega fjórðungur (27%) íbúa sagðist stríða við langvarandi veikindi, tæp 31% kvenna og tæp 23% karla. Lægst fór hlutfall langveikra í 18% árið 2007, 21% meðal kvenna og 15% meðal karla.

 

Heilsan almennt góð en hátt hlutfall með alvarlegar takmarkanir
Nýjustu samanburðartölur um heilsufar í Evrópu leiða í ljós að árið 2014 var hlutfall fólks við góða heilsu hátt á Íslandi. Hlutfall karla á Íslandi sem mátu heilsu sína góða eða mjög góða reyndist það sjötta hæsta í Evrópu en hlutfall heilsuhraustra kvenna það níunda hæsta. Langvinn heilsufarsvandamál voru ekki algeng á Íslandi í samanburði við önnur Evrópulönd. Það sama á við um heilsufarsvandamál sem hamla fólki nokkuð eða alvarlega við daglegar athafnir. Sé hins vegar litið einvörðungu á þann hóp sem sem segist búa við alvarlegar heilsufarslegar takmarkanir reynist hlutfallið meðal íslenskra kvenna annað hæsta í Evrópu og meðal karla það sjöunda hæsta.

Þessar niðurstöður byggjast á lífskjararannsókn Hagstofunnar sem er hluti af samræmdri lífskjararannsókn Evrópska efnahagssvæðisins (EU-SILC).

Félagsvísar: Hagur og heilsa 2015 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1285 , netfang Thora.Thorsdottir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.