FRÉTT FYRIRTÆKI 03. MAÍ 2024

Velta jókst í flestum atvinnugreinum hagkerfisins í janúar til febrúar 2024 samanborið við sömu mánuði árið 2023. Aukningin var hins vegar almennt tiltölulega lítil og umfram verðbólgu (6,6%) í einungis helmingi atvinnugreina. Á meðal helstu greina jókst velta mest í fasteignaviðskiptum, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og matvælaframleiðslu. Samdráttur var aftur á móti í framleiðslu málma, sölu á vélknúnum ökutækjum og sjávarútvegi. Þá tók ferðaþjónustan aðeins við sér á ný eftir óvenju lítinn vöxt í nóvember og desember 2023.

Velta í fasteignastarfsemi hélt áfram að aukast, eða um alls 17%, og reyndist 23,5 milljarðar króna á tímabilinu. Meginþorra hækkunarinnar mátti líkt og áður rekja til leigu atvinnuhúsnæðis en þó var einnig veruleg aukning í fasteignamiðlun. Þá var svipaður vöxtur í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð þar sem velta jókst um 16% á milli ára en sú hækkun stafaði einkum af 15% vexti í byggingu húsnæðis og þróun byggingarverkefna auk 18% vaxtar í sérhæfðri byggingarstarfsemi (t.d. raf- og pípulögnum, málningarvinnu, o.fl.).

Velta í ferðaþjónustu jókst um 10% miðað við sama tíma árið 2023 og mældist um 110 milljarðar króna. Þar var hlutfallslega mest aukning í bílaleigu (19%) og hjá ferðaskrifstofum (14%) en um 8% vöxtur var í flugi og 6% vöxtur í rekstri gististaða og veitingaþjónustu. Ferðaþjónustan varð þar með aftur næst stærsta grein atvinnulífsins miðað við veltu eftir að hafa fallið í þriðja sætið sökum hægagangs í kjölfar eldsumbrota á Reykjanesi undir lok árs 2023.

Misjafn gangur var í framleiðslugreinum hagkerfisins. Velta í framleiðslu málma hélt áfram að dragast saman eða um 15% þar sem álverð var ögn lægra miðað við sama tímabil árið áður og krónan sterkari. Gagnstæða sögu var hins vegar að segja um matvælaframleiðslu en velta í þeirri grein jókst um 15% sem mátti að miklu leyti rekja til framleiðslu á mjólkurvörum, olíu (lýsis og jurtaolíu) og súkkulaði og sælgæti en heimsmarkaðsverð á kakói hefur hækkað mikið árið 2024 og var um tvöfalt hærra á tímabilinu samanborið við árið 2023.

Aðeins minni vöxtur var í kjötiðnaði eða um 8%. Í tæknigreinum var vöxturinn líka misjafn en velta jókst um 5% í tækni- og hugverkaiðnaði þar sem 8% vöxtur í hátækniþjónustu var dreginn niður af 1% samdrætti í meðal- og hátækniframleiðslu. Eins var 10% vöxtur í upplýsingatækni og fjarskiptum. Samdráttur var hins vegar í sjávarútvegi og fiskeldi þar sem veltan dróst saman um 5% á milli ára.

Velta í sölu, viðgerðum og viðhaldi á vélknúnum ökutækjum dróst mikið saman á tímabilinu eða um alls 9%. Ástæðuna mátti nær alfarið rekja til mikils samdráttar í bílasölu upp á 17% en við áramót var afnumin undanþága rafmagnsbifreiða frá virðisaukaskatti með tilsvarandi verðhækkunum á rafbílum og samdrætti í eftirspurn.

Í öðrum verslunargreinum voru tiltölulega litlar breytingar í veltu á milli ára. Heildverslun óx í samræmi við verðbólgu og smásöluverslun litlu betur, eða um 9%, þar sem velta jókst um 10% í stórmörkuðum og matvöruverslunum en aðeins 4% hjá byggingarvöruverslunum og 6% í skó- og fataverslunum. Lyfjaverslun hélt hins vegar áfram stöðugum vexti með 13% aukningu í veltu.

Um gögnin
Tölur um veltu skv. virðisaukaskattsskýrslum eru bráðabirgðatölur. Allar tölur eru á nafnvirði nema annað sé tekið fram. Verðbólga fyrir tímabilið janúar-febrúar 2023 til janúar-febrúar 2024 var 6,6% miðað við meðalgengi vísitölu neysluverðs.

Við birtingu síðustu fréttar í febrúar sl. var velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi (án landbúnaðar) talin hafa verið 1.177,2 milljarðar króna (-0,1% lækkun miðað við fyrra ár) á tímabilinu nóvember-desember 2023. Nú hafa nýrri tölur borist og er velta á þessu tímabili talin hafa verið 1.190,6 milljarðar króna (1,0% hækkun miðað við fyrra ár).

Talnaefni
Velta í öllum atvinnugreinum
Velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.