FRÉTT FYRIRTÆKI 20. DESEMBER 2021

Meiri velta var í flestum atvinnugreinum á tímabilinu september-október 2021 en á sama tímabili 2020 samkvæmt virðisaukaskattskýrslum. Árið 2020 var mikið um lokanir og takmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins og því er athyglisvert að bera saman veltu haustið 2021 og veltu haustið 2019, þ.e. fyrir faraldurinn.

Ef tímabilið september-október 2021 er borið saman við sama tímabil 2019 var hlutfallslega mest aukning í veltu erlendra fyrirtækja sem eru virðisaukaskattskyld á Íslandi. Einnig jókst velta verulega í álframleiðslu, annari framleiðslu, verslun og fleiri greinum. Velta dróst hins vegar saman í flestum greinum tengdum ferðaþjónustu að undanskyldum veitingarekstri.

Gengisvísitala hækkaði um 7% frá september-október 2019 til sama tímabils 2021 þannig að einungis hluti hækkana skýrist af veikingu krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum.

Endurskoðun hagtalna
Tölur um veltu skv. virðisaukaskattskýrslum eru bráðabirgðatölur. Við birtingu fréttar 26. október sl. var velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi, að frátalinni lyfjaframleiðslu, talin vera 899 milljarðar króna í júlí-ágúst 2021 sem var 24,68% hækkun frá sama tímabili árið 2020. Nú hafa nýrri tölur borist og velta á þessu tímabili er talin vera 899,7 milljarðar sem er 24,75% hækkun á milli ára. Fjallað er um endurskoðun birtra hagtalna í lýsigögnum. Einnig er birt töluleg samantekt á því hvernig nokkrir undirflokkar breytast við endurskoðun birtra hagtalna.

Aðrar hagtölur um svipað efni
Hagstofa Íslands gefur árlega út rekstrar- og efnahagsyfirlit fyrirtækja eftir atvinnugreinum sem byggjast á skattframtölum og gefa ítarlega mynd af stöðu einstakra atvinnugreina.

Talnaefni
Einkennandi greinar ferðaþjónustu
Allar atvinnugreinar

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fyrirtaekjatolfraedi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.