FRÉTT FYRIRTÆKI 29. ÁGÚST 2022

Velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu nam 139 milljörðum í maí-júní 2022 og er því á svipuðum slóðum og á árunum fyrir kórónuveirufaraldurinn. Samkvæmt virðisaukaskattskýrslum var velta í greininni 19% hærri í maí-júní 2022 en á sama tímabili 2019 en hafa ber í huga að þessar tölur eru á verðlagi hvers árs og hefur vísitala neysluverðs hækkað um 16% á milli þessara tímabila. Mikill munur er á einstökum greinum ferðaþjónustu. Velta í veitingasölu og -þjónustu jókst um 33% á meðan velta í farþegaflutningum með flugi jókst um 7%.

Velta í olíuverslun tvöfaldaðist á milli ára enda hefur eldsneytisverð hækkað tölvert og trúlegt að sala hafi aukist vegna fleiri ferðamanna og aukningar á millilandaflugi. Eldsneytisliður vísitölu neysluverðs hækkaði um 37% á milli maí-júní 2021 og sömu mánaða 2022.

Þá jókst velta einnig mikið í framleiðslu málma og í sölu og viðhaldi vélknúinna ökutækja.

Endurskoðun hagtalna
Tölur um veltu skv. virðisaukaskattskýrslum eru bráðabirgðatölur. Við birtingu fréttar 15. júní sl. var velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi, að frátalinni lyfjaframleiðslu, talin vera 987,2 milljarðar króna í mars-apríl 2022 sem var 27,17% hækkun frá sama tímabili árið 2021. Nú hafa nýrri tölur borist og velta á þessu tímabili er talin hafa verið 995,0 milljarðar sem er 28,10% hækkun á milli ára. Fjallað er um endurskoðun birtra hagtalna í lýsigögnum. Einnig er birt töluleg samantekt á því hvernig nokkrir undirflokkar breytast við endurskoðun birtra hagtalna.

Aðrar hagtölur um svipað efni
Hagstofa Íslands gefur árlega út rekstrar- og efnahagsyfirlit fyrirtækja eftir atvinnugreinum sem byggjast á skattframtölum og gefa ítarlega mynd af stöðu einstakra atvinnugreina.

Talnaefni
Einkennandi greinar ferðaþjónustu
Allar atvinnugreinar

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fyrirtaekjatolfraedi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.