Heildartekjur í viðskiptahagkerfinu1 voru tæplega 4.400 milljarðar króna árið 2018 en voru 4.140 milljarðar króna árið 2017 og hækkuðu því um 6,2% á árinu. Eigið fé jókst um 10,5% frá árinu 2017 og var í lok árs 2018 tæplega 3.300 milljarðar króna.

Helstu breytingar milli ára þegar horft er á hlutfallslega hækkun í heildartekjum eru í sjávarútvegi þar sem heildartekjur hækkuðu um 44 milljarða króna (15%), meðal- og hátækniframleiðslu sem hækkuðu um 13 milljarða króna (14%) og framleiðslu málma sem hækkuðu um 29 milljarða króna (13%). Þá hækkuðu heildartekjur einkennandi greina ferðaþjónustu um 31 milljarð króna (5%).

Eiginfjárstaða í viðskiptahagkerfinu batnaði milli ára eins og fyrr segir. Eigið fé í heildsöluverslunum jókst um 24 milljarða króna milli ára (20%), í meðal- og hátækniframleiðslu um 28 milljarða króna (20%) og í smásöluverslun um 28 milljarða króna (16%). Eigið fé í einkennandi greinum ferðaþjónustu lækkaði um 13 milljarða króna á árinu (-11%) sem má að mestu leyti rekja til lækkunar eigin fjár félaga í flugrekstri.

Launakostnaður jókst nokkuð á árinu og nam aukningin 61 milljarði króna (11%) í viðskiptahagkerfinu. Ef litið er á einstakar atvinnugreinar þá hækkar launakostnaður um 15% í meðal- og hátækniframleiðslu, 12% í einkennandi greinum ferðaþjónustu og 11% í sjávarútvegi.

Breytingar í stærri atvinnugreinahópum má sjá í töflunni hér að neðan.

Valdir liðir úr rekstrar- og efnahagsreikningum 2017 og 2018 , milljarðar króna
Heildartekjur Eigið fé Launakostnaður
20172018Breyting20172018Breyting20172018Breyting
Viðskiptahagkerfið, að undanskilinni lyfjaframleiðslu, sorphirðu, fjármála- og vátryggingastarfsemi4.141 4.398 6%2.957 3.290 11%902 963 7%
Einkennandi greinar ferðaþjónustu*606 636 5%126 112 -11%161 181 12%
Heildverslun, að undanskildum vélknúnum ökutækjum637 690 8%117 141 20%65 71 9%
Smásöluverslun, að undanskildum vélknúnum ökutækjum432 460 6%113 131 16%66 69 6%
Sjávarútvegur (fiskveiðar og -vinnsla)290 334 15%304 341 12%81 90 11%
Framleiðsla, án fiskvinnslu og lyfjaframleiðslu619 662 7%477 538 13%128 135 6%
- Framleiðsla málma220 249 13%227 259 14%20 21 6%
Rafmagns-, gas- og hitaveitur149 162 9%594 688 16%21 22 4%
Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð373 393 5%105 121 15%93 102 9%
Meðal- og hátækniframleiðsla90 103 14%140 169 20%25 29 15%
Upplýsingar og fjarskipti215 226 5%118 132 12%72 73 1%
Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi160 166 4%254 278 9%76 79 4%

Upphæðir eru á verðlagi hvers árs. *Inniheldur áætlaðar tölur fyrir félög í flugrekstri.

Rekstrar- og efnahagsreikningar eru unnir úr skattframtölum rekstraraðila og telja rúmlega 31 þúsund aðila árið 2018. Þar starfa um 122 þúsund launþegar. Tölur fyrir árið 2018 eru bráðabirgðatölur og verða uppfærðar við næstu útgáfu. Til að sem réttust mynd fengist í atvinnugreininni var nauðsynlegt að áætla tölur fyrir tvo aðila í flugrekstri. Að öðru leyti innihalda gögnin eingöngu þá aðila sem skilað hafa skattframtali.

Fyrir tímanlegri upplýsingar þá gefur Hagstofa Íslands einnig út tölur um virðisaukaskattskylda veltu eftir atvinnugreinum ásamt mánaðarlegum tölum um fjölda starfandi. Þá eru einnig gefnar út tölur um fjölda launþega og fjölda launagreiðenda.

1Viðskiptahagkerfi fyrir utan lyfjaframleiðslu, fjármála- og vátryggingarstarfsemi og opinbera starfsemi. Í viðskiptahagkerfinu er t.d. ekki fyrirtækjarekstur í heilbrigðisþjónustu eða fræðslustarfsemi.

Talnaefni