FRÉTT FYRIRTÆKI 05. FEBRÚAR 2021

Rekstrartekjur í viðskiptahagkerfinu voru um 4.500 milljarðar króna árið 2019 og jukust um 3,8% miðað við árið á undan. Eftir atvinnugreinahópum voru mestar rekstrartekjur í heildverslun eða um 750 milljarðar króna sem er 12% aukning frá fyrra ári.

Mest aukning rekstrartekna var hjá fyrirtækjum í upplýsingatækni og fjarskiptum þar sem rekstrartekjur voru 255 milljarðar árið 2019 og jukust um 13% á milli ára. Mikil aukning rekstrartekna var hjá fyrirtækjum í einkennandi greinum ferðaþjónustu árin fram að 2019 en tekjur þess árs voru hins vegar tæpum 50 milljörðum lægri en árið 2018 sem samsvarar um 7% lækkun á milli ára.

Vergur rekstrarafgangur (EBITDA) var samtals 532 milljarðar króna árið 2019 sem er aukning um 8,8% frá fyrra ári. Mestur rekstrarafgangur árið 2019 var hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi eða tæpir 70 milljarðar og jókst um 31% frá fyrra ári. Athygli vekur að þrátt fyrir samdrátt í rekstrartekjum hjá fyrirtækjum í einkennandi greinum ferðaþjónustu þá jókst vergur rekstrarafgangur um 48% á milli ára og var 64 milljarðar árið 2019.

Fjöldi fyrirtækja árið 2019 var 31.558 og hjá þeim störfuðu um 137.500 starfsmenn. Fyrirtæki með 100 starfsmenn eða fleiri stóðu undir ríflega 45% af heildarrekstrartekjum árið 2019 en í þeim flokki voru 172 fyrirtæki með um 51.500 starfsmenn.

Vergur rekstrarafgangur jókst alls um tæp 9%. Mest var aukningin á milli ára í hópi fyrirtækja með 2-4 starfsmenn, eða 24%, og 11% hjá bæði fyrirtækjum með 10-49 starfsmenn og hjá fyrirtækjum með 100 starfsmenn eða fleiri.

Starfsmönnum fjölgaði um rúm 9% hjá fyrirtækjum með 0-1 starfsmann og um tæp 4% hjá fyrirtækjum með 2-4 starfsmenn. Fækkun starfsmanna hjá stærri fyrirtækjum olli því þó að á milli ára fækkaði starfsmönnum í heildina um 1%.

Fjöldi fyrirtækja hélst nokkuð stöðugur á milli ára en ef litið er til einstakra stærðarflokka varð fækkun í öllum stærðarflokkum nema hjá fyrirtækjum með 2-4 starfsmennn þar sem fjölgaði um tæp 5%.

Valdar breytur í mismunandi stærðarflokkum í viðskiptahagkerfinu 2018-2019
  Fjöldi fyrirtækja Rekstrartekjur Vergur rekstrarafgangur Fjöldi starfsmanna
Stærð20182019201820192018201920182019
Alls31.43831.5584.3444.508489532138.848137.439
0-123.41923.35341542511311715.90417.366
2-44.2944.514291311334011.18611.602
5-91.7071.683285297293211.16611.028
10-491.6491.645941988768433.23632.908
50-99196191386444373513.45613.099
100+1731722.0262.04320122353.90051.436

Um gögnin
Tölur sem hér eru birtar byggja á samræmdri aðferðafræði og eru samanburðarhæfar við fyrirtækjatölfræði í öðrum löndum Evrópu. Tölfræðin byggir á rekstrarframtölum fyrirtækja og einstaklinga. Hún nær til einkageirans utan landbúnaðar, fjármála- og vátryggingastarfsemi. Opinber stjórnsýsla, heilbrigðis- og félagsþjónusta, fræðslustarfsemi, menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi ásamt starfsemi félagasamtaka er undanskilin.

Gögnin eru brotin niður eftir atvinnugrein fyrirtækja og fjölda starfsmanna. Birtar eru upplýsingar um fjölda fyrirtækja, fjölda starfsmanna, veltu, framleiðsluverðmæti, vinnsluvirði á þáttaverði, vergan rekstrarafgang, heildarkaup á vörum og þjónustu, kaup á vörum og þjónustu til endursölu í óbreyttu ástandi, birgðabreytingar, launakostnað, laun, launatengd gjöld og kostnað vegna almannatrygginga. Upplýsingar um nákvæmari skilgreiningar á breytum eru aðgengilegar í lýsigögnum.

Fyrir tímanlegri upplýsingar þá gefur Hagstofa Íslands einnig út tölur um virðisaukaskattskylda veltu eftir atvinnugreinum ásamt mánaðarlegum tölum um fjölda starfandi. Þá eru einnig gefnar út tölur um fjölda launagreiðenda.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fyrirtaekjatolfraedi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.