FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 03. NÓVEMBER 2010

Út eru komin Hagtíðindi í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um tekjur hins opinbera, þ.e. ríkis, sveitarfélaga og almannatrygginga. Meginmarkmið ritsins er að gefa yfirlit um umfang og þróun tekna hins opinbera á árunum 1998-2009. Lögð er áhersla á þróun helstu tekjustofna hins opinbera með tilliti til fjárhæða, hlutfalla og vaxtar að raungildi. Þá er stuttlega fjallað um tekjuþróunina frá árinu 1980. Að lokum er að finna stuttan samanburð á tekjum hins opinbera milli landa og umfjöllun um samstarfið við Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat.

Af helstu niðurstöðum má nefna að frá árinu 1980 hafa tekjur hins opinbera vaxið úr 35,4% af landsframleiðslu í 48,0% árið 2006 er þær reyndust hæstar á þennan mælikvarða, en árið 2009 námu þær 40,9% af landsframleiðslu eða svipað og árið 1998. Tekjur ríkissjóðs hafa þróast með svipuðum hætti eða úr 28,3% af landsframleiðslu árið 1980 í 35,3% árið 2006 en fóru niður í 29,5% árið 2009. Tekjur sveitarfélaga hafa hins vegar aukist hlutfallslega mest á þessu tímabili eða úr 7,2% af landsframleiðslu 1980 í 12,6% árið 2009. Munar þar miklu um yfirtöku verkefna frá ríkissjóði en einnig hefur þjónusta þeirra vaxið jafnt og þétt. Hæstar mældust þær 14,2% af landsframleiðslu árið 2007. Vöxtur tekna almannatrygginga er aftur á móti minni, en þær námu 7,2% af landsframleiðslu 1980, 7,6% árið 2008 og 8,9% árið 2009. Stökkið milli 2008 og 2009 skýrist af auknu atvinnuleysi og hlut almannatrygginga í fjármögnun S-lyfja sjúkrahúsanna. Á föstu verðlagi voru tekjur hins opinbera 1.924 þúsund krónur á mann árið 2009 en 1.075 þúsund krónur árið 1980 og er raunvöxturinn 79%. Hæstar mældust tekjurnar árið 2007 eða 2.441 þúsund krónur á mann.

Tekjuflokkun hins opinbera byggist í megindráttum á staðli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá árinu 2001 um fjármál hins opinbera, en samkvæmt þeim staðli skiptast tekjur hins opinbera í fjóra meginflokka, þ.e. skatttekjur, tryggingagjöld, fjárframlög og aðrar tekjur. Skatttekjur eru langumfangsmesti tekjuflokkur hins opinbera, en umfang hans hefur þó lækkað talsvert síðustu tvö árin eða úr 78,6% árið 2007 í 73,9% árið 2009. Hæstar voru skatttekjurnar sem hlutfall af landsframleiðslu árið 2006 eða 38,1%, en árið 2009 námu þær 30,7% sem er lítið eitt lægra hlutfall en árið 1998. Hlutdeild tryggingagjalda í tekjum hins opinbera hefur aftur á móti haldist nokkuð stöðugt síðasta áratuginn og verið á bilinu 6-7% eða um 3% af landsframleiðslu. Fjárframlög til hins opinbera frá alþjóðastofnunum hafa verið óveruleg eða um 0,1% af landsframleiðslu. Að síðustu skiluðu aðrar tekjur hinu opinbera um 19% tekna þess árið 2009, en þar af hefur hlutdeild eignatekna farið vaxandi síðustu ár, en hlutur sölutekna af vöru og þjónustu hefur hins vegar verið mun stöðugri á umræddu tímabili.

Tekjur hins opinbera 1998-2009 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.