Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 8,2 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2013 sem er lakari niðurstaða en á sama tíma 2012 er hún var neikvæð um 6,7 milljarða króna. Tekjuhallinn nam 1,9% af landsframleiðslu ársfjórðungsins eða 4,5% af tekjum hins opinbera.

Heildartekjur hins opinbera jukust um 3,1% milli 1. ársfjórðungs 2012 og 2013. Tekjuhækkunin skýrist fyrst og fremst af auknum tekjusköttum og vöru- og þjónustusköttum. Á sama tíma jukust heildarútgjöld hins opinbera um 3,8%. Útgjaldahækkunin skýrist aðallega af meiri launa- og vaxtakostnaði.

Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1.958 milljörðum króna í lok 1. ársfjórðungs 2013 sem samsvarar 107,2% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Hrein peningaleg eign ríkissjóðs, þ.e. peningalegar eignir umfram skuldir, var neikvæð um 848 milljarða króna í lok ársfjórðungsins en það samsvarar 46,4% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Til samanburðar var hrein peningaleg eign ríkissjóðs neikvæð um 43,7% af landsframleiðslu á sama ársfjórðungi 2012.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í  Hagtíðindum um fjármál hins opinbera sem gefin eru út í dag.

Fjármál hins opinbera á 1. ársfjórðungi 2013 - Hagtíðindi

Talnaefni