FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 09. DESEMBER 2013

Tekjuafkoma hins opinbera hefur batnað það sem af er þessu ári. Hún var  neikvæð um 2,4 milljarða króna á 3. ársfjórðungi 2013 sem er hagstæðari niðurstaða en á sama tíma 2012 er hún var neikvæð um 6,7 milljarða króna. Tekjuhallinn nam 0,5% af landsframleiðslu ársfjórðungs-ins og 1,2% af tekjum hins opinbera. Fyrstu níu mánuði ársins reyndist tekjuafkoma hins opinbera neikvæð um 18,1 milljarða króna eða 1,4% af landsframleiðslu þess tímabils, en til samanburðar var tekjuafkoman neikvæð um 29,2 milljarða króna á sama tíma 2012 eða 2,3% af landsframleiðslu.

Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1.933 milljörðum króna í lok 3. ársfjórðungs 2013 sem samsvarar 108,5% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Hrein peningaleg eign ríkissjóðs, þ.e. peningalegar eignir umfram skuldir, var neikvæð um 878 milljarða króna í lok ársfjórðungsins, en það samsvarar 49,3% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Hrein peningaleg eign ríkissjóðs dróst saman um 55 milljarða króna milli 3. ársfjórðungs 2012 og 2013.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í  Hagtíðindum um fjármál hins opinbera sem gefin hafa verið út.

Fjármál hins opinbera á 3. ársfjórðungi 2013 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.