FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 28. SEPTEMBER 2017

Hagstofa Íslands hefur áætlað meðalrekstrarkostnað á hvern nemanda í öllum grunnskólum sem reknir eru af sveitarfélögum, skv. 2. og 3. mgr. 3.gr. reglugerðar nr. 1270/2016 um ákvörðun framlaga úr sveitarsjóði til sjálfstætt rekinna grunnskóla.

Um útreikning þennan fer samkvæmt  2. og 3. mgr. 3.gr. ofangreindrar reglugerðar sem hér segir:

Útreikningur Hagstofu Íslands skv. 1. mgr. vegna komandi skólaárs skal liggja fyrir í september ár hvert. Útreikningur skal byggður á ársreikningum sveitarfélaga fyrir liðið ár, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga til þess dags sem útreikningur er gerður. Verðlagsbreytingar skulu taka mið af almennum launahækkunum starfsmanna grunn­skóla og breytingum á vísitölu neysluverðs að teknu tilliti til vægis hvors þáttar fyrir sig í rekstrarkostnaði grunnskólanna.

Hagstofa Íslands tekur saman 90 dögum eftir að viðmiðunarmánuði lýkur og birtir fimmta dags hvers mánaðar, á tímabilinu frá október og fram til ágúst, framreiknað framlag skv. 1. mgr. Við framreikning þess skal tekið tillit til verðlagsbreytinga sem orðið hafa frá ákvörðun framlags skv. 1. mgr., þ.e. almennra launahækkana starfsmanna grunnskóla og breytinga á vísitölu neysluverðs, miðað við vægi hvors þáttar í rekstrarkostnaði grunnskóla.“

Reglugerð þessi er sett til bráðabirgða og gildir fyrst um sinn til 30. september 2017, uns sett hefur verið heildarreglugerð á grundvelli 43. gr. f í lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum.

Meðalrekstrarkostnaður á hvern nemanda í grunnskólum árið 2016 var 1.680.683 krónur og vegin meðalverðbreyting rekstrarkostnaðar frá 2016 til september 2017 er áætluð 7,5%.

Niðurstöður útreikningsins eru því þær að áætlaður árlegur rekstrarkostnaður á hvern nemanda í grunnskólum, sem reknir eru af sveitarfélögum, sé 1.806.951 krónur í september 2017.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang opinberfjarmal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.