FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 28. JANÚAR 2021

Rekstrarútgjöld til heilbrigðismála á Íslandi, þ.e. heilbrigðisútgjöld að innviðafjárfestingu undanskilinni, námu 8,6% af landsframleiðslu árið 2019 og 8,4% árið 2018 sem er undir meðaltali aðildarríkja OECD. Rekstrarútgjöld til heilbrigðismála í ríkjum OECD nam að meðaltali 8,8% af vergri landsframleiðslu ríkjanna árið 2018 og samkvæmt bráðabirgðatölum ársins 2019 stendur hlutfallið í stað. Hlutur hins opinbera í fjármögnun heilbrigðisútgjalda er hinsvegar yfir meðaltali aðildarríkja OECD.

Heildarútgjöld til heilbrigðismála á Íslandi námu tæpum 269 milljörðum króna, eða 8,9% af landsframleiðslu, árið 2019. Útgjöldin hafa hækkað lítillega sem hlutfall af landsframleiðslu síðasta áratug en námu 8,8% árið 2018. Hlutur hins opinbera nam 224 milljörðum króna árið 2019 sem nemur 7,4% af landsframleiðslu ársins. Hlutur einkaaðila, þ.e. heimila og félagasamtaka, nam 44,6 milljörðum króna, eða 1,5% af landsframleiðslu, árið 2019.

Hlutur hins opinbera af heildarútgjöldum til heilbrigðismála hefur farið lítillega vaxandi á tímabilinu 1998-2019. Árið 1998 nam hlutur hins opinbera 80,6% og var stærstur 2019 eða 83,4%. Hlutur einkaaðila hefur því farið lækkandi á tímabilinu, úr rúmlega 19% heildarútgjalda til heilbrigðismála 1998 í 16,6% árið 2019.

Rúmlega helmingur heilbrigðisútgjalda rennur til þjónustu sjúkrastofnana en rekstrarfyrirkomulag almennrar sjúkrahúsþjónustu hefur á síðustu tveimur áratugum tekið þónokkrum breytingum. Margar stofnanir sem veita almenna sjúkrahúsþjónustu hafa verið sameinaðar og töluverð sameining hefur einnig átt sér stað á meðal heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni síðasta áratug. Árið 1998 féllu 23 stofnanir undir almenna sjúkrahúsþjónustu en stofnunum hafði fækkað í átta árið 2019.

Árið 2019 rann um 28% heilbrigðisútgjalda til þjónustu við ferlisjúklinga sem þjónusta heilsugæslanna tilheyrir að hluta. Um 13% útgjaldanna voru vegna lækningavara og hjálpartækja og það sem eftir stendur, eða um 2%, runnu til forvarna, stjórnunar og annarra heilbrigðisþátta.

Í útgáfu meðfylgjandi Hagtíðinda er að finna umfjöllun og heildstætt yfirlit yfir talnaefni um heilbrigðisútgjöld á árunum 1998-2019 og eru meginniðurstöður flokkaðar á grundvelli alþjóðlegra staðla og flokkunarkerfa.

Heilbrigðisútgjöld á Íslandi 1998–2019 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang opinberfjarmal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.