FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 10. JÚNÍ 2021

Áætlað er að tekjuafkoma hins opinbera hafi verið neikvæð um 58,1 milljarð króna á 1. ársfjórðungi 2021, eða sem nemur 8,2% af vergri landsframleiðslu ársfjórðungsins.

Í heild er áætlað að tekjur hins opinbera hafi aukist um 13,6% frá 1. fjórðungi 2020, þar af nemur aukning skatttekna 12,7%. Fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins hafa samþykkt að greiða arðgreiðslur að fjárhæð 7,9 milljörðum króna á árinu 2021 og eru þær tekjufærðar á 1. ársfjórðungi. Engar arðgreiðslur frá fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins voru greiddar á síðasta ári.

Áætlað er að heildarútgjöld hafi aukist um 14,5% á 1. ársfjórðungi 2021 frá sama tímabili fyrra árs. Launakostnaður vegur þar þyngst en hann er áætlaður 32,6% af heildarútgjöldum hins opinbera. Áætlað er að félagslegar tilfærslur til heimila hafi aukist um 26,7% frá 1. fjórðungi 2020 og tilfærsluútgjöld um 48,4%.

Áhrif af Covid-19 mikil á 1. ársfjórðungi
Áhrif Covid-19 á fjármál hins opinbera eru enn mikil og ber uppgjör hins opinbera á 1. ársfjórðungi 2021 þess merki. Áhrifin koma meðal annars fram í útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna aukins atvinnuleysis, vegna greiðslu launa í sóttkví, sérstaks íþrótta- og tómstundastyrks til barna og sérstakra aðgerða í vinnumarkaðsmálum. Þá hafa útgjöld hins opinbera vegna tilfærslna til fyrirtækja einnig aukist, meðal annars vegna veitingu tekjufalls- og viðspyrnustyrkja sem námu um 9 milljörðum á 1. ársfjórðungi.

Fjárhagur hins opinbera á 1. ársfjórðungi
20202021 Breyting
Verðlag hvers árs, milljarðar króna 1. ársfj. 1. ársfj. %
Heildartekjur 278,6 316,4 13,6
Heildarútgjöld 327,2 374,5 14,5
Fjárfesting 17,6 21,5 22,2
Tekjujöfnuður -48,6 -58,1
Tekjujöfnuður % af tekjum -17,5 -18,4
Tekjujöfnuður % af VLF ársfjórðungs -7,0 -8,2

Bráðabirgðatölur fyrir 2020 og 2021.

Talnaefni um rekstrarútgjöld til heilbrigðismála hefur einnig verið uppfært.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang opinberfjarmal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.