Tekjuafkoma hins opinbera var jákvæð um tæpa 23 milljarða króna árið 2018, eða sem nemur 0,8% af vergri landsframleiðslu (VLF). Til samanburðar var afkoman jákvæð um 14,1 milljarð króna árið 20171 . Bætt afkoma skýrist m.a. af lægri vaxta- og tilfærsluútgjöldum en taka verður tillit til þess að árið 2017 var í reikningum sveitarfélaga gjaldfærð fjármagnstilfærsla til Brúar lífeyrissjóðs upp á 32 milljarða króna.

Fjármál hins opinbera
Milljarðar króna á verðlagi hvers árs201220132014201520162017 2018
Heildartekjur hins opinbera 740,8 795,7 907,0 931,0 1.418,3 1.138,3 1.203,6
Heildarútgjöld hins opinbera 807,2 830,5 908,5 949,1 1.108,7 1.124,1 1.180,6
Tekjuafkoma hins opinbera -66,5 -34,8 -1,5 -18,2 309,6 14,1 23,0
Hlutfall af VLF %       
Heildartekjur hins opinbera 40,2 40,6 43,7 40,6 56,9 43,6 42,8
Heildarútgjöld hins opinbera 43,8 42,4 43,8 41,4 44,5 43,0 42,0
Tekjuafkoma hins opinbera -3,6 -1,8 -0,1 -0,8 12,4 0,5 0,8
Tekjuafkoma ríkissjóðs -3,2 -1,7 0,8 -0,3 12,1 1,7 0,9
Tekjuafkoma sveitarfélaga -0,5 -0,4 -0,8 -0,6 0,1 -1,2 -0,3
Tekjuafkoma almannatrygginga 0,0 0,3 -0,1 0,0 0,3 0,0 0,2

Tekjur hins opinbera 42,8% af VLF
Tekjur hins opinbera námu 1.203,6 milljörðum árið 2018, eða sem nemur 42,8% af landsframleiðslu ársins. Til samanburðar mældust tekjur hins opinbera 1.138,3 milljarðar árið 2017, eða sem nemur 43,6% af landsframleiðslu þess árs. Á verðlagi hvors árs jukust tekjur hins opinbera um 65,3 milljarða á árinu 2018, borið saman við fyrra ár eða um 5,7%. Tekjur og útgjöld hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu

Heildartekjur ríkissjóðs jukust um 4,8% árið 2018 samanborið við fyrra ár og námu alls 881,7 milljörðum króna. Tekjur sveitarfélaga jukust nokkuð meira eða um 8,9% og námu alls 362,8 milljörðum króna. Heildartekjur almannatrygginga jukust mest eða um 11,9% og námu alls 251,2 milljörðum króna á árinu 2018.

Heildartekjur hins opinbera og undirgeira þess
Verðlag hvers árs, milljarðar króna201220132014201520162017 2018
Hið opinbera 740,8 795,7 907,0 931,0 1.418,3 1.138,3 1.203,6
Ríkissjóður 545,5 584,5 686,1 692,4 1.149,0 840,9 881,7
Sveitarfélög 224,4 243,6 254,9 273,6 308,3 333,3 362,8
Almannatryggingar 157,8 166,8 168,6 178,8 200,3 224,4 251,2
Hlutfall af VLF %       
Hið opinbera 40,2 40,6 43,7 40,6 56,9 43,6 42,8
Ríkissjóður 29,6 29,8 33,1 30,2 46,1 32,2 31,4
Sveitarfélög 12,2 12,4 12,3 11,9 12,4 12,8 12,9
Almannatryggingar 8,6 8,5 8,1 7,8 8,0 8,6 8,9

Skattar á tekjur og hagnað jukust um 5,7% árið 2018
Skattar á tekjur og hagnað eru stærsti tekjuliður hins opinbera og skilaði 42,5% af heildartekjum þess á árinu 2018. Alls námu tekjur hins opinbera af tekjusköttum 511,7 milljörðum á árinu 2018 og jukust um 5,7% frá fyrra ári. Sem hlutfall af landsframleiðslu námu skattar af tekjum og hagnaði 18,2% árið 2018. Tekjur hins opinbera af sköttum á vöru og þjónustu jukust nokkru minna á árinu 2018, eða um 4,4%. Skattar á vöru og þjónustu námu 28,3% af heildartekjum árið 2018, eða 12,1% af landsframleiðslu ársins.

Skatttekjur og tryggingagjöld hins opinbera
Verðlag hvers árs, milljarðar króna201220132014201520162017 2018
Skatttekjur og tryggingagjöld 626,4 676,1 774,3 812,0 1.265,6 982,8 1.037,6
Skattar á tekjur og hagnað 283,2 315,6 360,5 381,0 429,5 484,0 511,7
Skattar á launagreiðslur 5,4 6,5 7,0 6,6 7,4 7,9 8,5
Eignaskattar 44,3 46,5 49,6 43,5 432,6 54,0 56,8
Skattar á vöru og þjónustu 210,9 220,8 233,9 257,8 290,8 326,9 341,2
Skattar á alþjóðaviðskipti 7,7 5,8 6,1 5,0 5,1 3,9 4,1
Aðrir skattar 10,0 11,0 43,8 38,4 14,9 16,4 17,0
Tryggingagjöld 64,9 69,9 73,4 79,7 85,4 89,6 98,2
Hlutfall af VLF        
Skatttekjur og tryggingagjöld 34,0 34,5 37,3 35,4 50,8 37,6 36,9
Skattar á tekjur og hagnað 15,4 16,1 17,4 16,6 17,2 18,5 18,2
Skattar á launagreiðslur 0,3 0,3 0,3 0,3 0,3 0,3 0,3
Eignaskattar 2,4 2,4 2,4 1,9 17,4 2,1 2,0
Skattar á vöru og þjónustu 11,5 11,3 11,3 11,2 11,7 12,5 12,1
Skattar á alþjóðaviðskipti 0,4 0,3 0,3 0,2 0,2 0,1 0,1
Aðrir skattar 0,5 0,6 2,1 1,7 0,6 0,6 0,6
Tryggingagjöld 3,5 3,6 3,5 3,5 3,4 3,4 3,5

Útgjöld hins opinbera jukust um 5% árið 2018
Útgjöld hins opinbera námu 1.180,6 milljörðum króna árið 2018 og jukust um 5% milli ára. Aukningin í útgjöldum ríkissjóðs nam 7,5%, útgjöld sveitarfélaga jukust um 2% og útgjöld almannatrygginga um 9,5% frá fyrra ári. Hafa ber í huga að á árinu 2017 var gjaldfærð fjármagnstilfærsla sveitarfélaga til Brúar lífeyrissjóðs upp á 32 milljarða króna. Að frádreginni þeirri fjármagnstilfærslu jukust heildarútgjöld sveitarfélaga um 11,8% á árinu 2018 samanborið við fyrra ár.

Útgjöld hins opinbera og undirgeira þess
Í milljörðum króna201220132014201520162017 2018
Hið opinbera 807,2 830,5 908,5 949,1 1.108,7 1.124,1 1.180,6
Ríkissjóður 603,9 618,0 669,8 698,3 847,3 795,3 855,1
Sveitarfélög 233,0 250,9 271,3 287,0 306,7 365,1 372,5
Almannatryggingar 157,3 160,8 170,0 177,7 194,0 223,9 245,1
Hlutfall af VLF       
Hið opinbera 43,8 42,4 43,8 41,4 44,5 43,0 42,0
Ríkissjóður 32,8 31,5 32,3 30,4 34,0 30,4 30,4
Sveitarfélög 12,7 12,8 13,1 12,5 12,3 14,0 13,2
Almannatryggingar 8,5 8,2 8,2 7,7 7,8 8,6 8,7

Samneysluútgjöld hins opinbera2, þ.e. launaútgjöld, kaup á vöru og þjónustu og afskriftir að frádreginni sölu á vöru og þjónustu, námu 669,5 milljörðum króna, eða 23,8% af landsframleiðslu ársins 2018. Er það aukning um 8,9% milli ára. Launakostnaðurinn vegur þyngst en hann jókst um 8% frá árinu 2017. Fjárfestingarútgjöld hins opinbera jukust um 41% árið 2018, en hlutfall þeirra af landsframleiðslu hefur farið hækkandi undanfarin ár og mældist 4,4% á síðasta ári. Mikill vöxtur í fjárfestingu hins opinbera skýrist meðal annars af afhendingu Hvalfjarðarganga. Á móti fjárfestingarútgjöldum tekjufærist fjármagnstilfærsla í rekstri ríkisins þannig að afhendingin hefur ekki áhrif á afkomuna.

Félagslegar tilfærslur til heimila jukust um 9,5% á árinu 2018 og námu um 6,5% af landsframleiðslu borið saman við 6,4% árið áður. Vaxtagjöld hins opinbera drógust saman um 21,4%, en sem hlutfall af landsframleiðslu námu þau 2,8% árið 2018 samanborið við 3,9% árið 2017.

Hagræn flokkun útgjalda hins opinbera
Hlutfall af VLF201220132014201520162017 2018
Heildarútgjöld 43,8 42,4 43,8 41,4 44,5 43,0 42,0
Laun 13,1 13,1 13,3 13,4 13,3 14,0 14,1
Kaup á vöru og þjónustu 11,6 11,3 11,1 10,5 10,2 10,3 10,3
Vaxtagjöld 4,6 4,4 4,6 4,4 3,9 3,9 2,8
Fjárframlög 1,7 1,6 1,4 1,3 1,4 1,3 1,3
Framleiðslustyrkir 0,2 0,2 0,2 0,2 0,2 0,2 0,2
Félagslegar tilf. til heimila 7,3 6,8 6,7 6,2 5,9 6,4 6,5
Önnur tilfærsluútgjöld 2,7 2,1 3,5 2,5 6,9 3,6 2,4
Fjárfesting 2,6 2,8 3,0 2,8 2,7 3,3 4,4

Samneysla og fjárfesting hins opinbera sem hlutfall af VLF

Útgjöld til heilbrigðis- og menntamála
Einn stærsti málaflokkurinn í opinberum rekstri eru heilbrigðismálin og á árinu 2018 runnu 17,9% af útgjöldum hins opinbera til þeirra. Heilbrigðisútgjöld hins opinbera námu 211,7 milljörðum króna, eða 7,5% af landsframleiðslu ársins 2018.

Útgjöld hins opinbera til fræðslumála voru 190,7 milljarðar króna á árinu 2018, eða 6,8% af landsframleiðslu. Tæplega helmingur útgjalda hins opinbera til fræðslumála rann til grunnskólastigsins, eða sem nemur 3,3% af landsframleiðslu. Til háskólastigsins runnu 18,7% af fræðsluútgjöldum hins opinbera, eða 1,3% af landsframleiðslu. Framhaldsskólastigið tók til sín 16,2% útgjaldanna og 10,4% fóru til leikskólastigsins. Í heildina námu útgjöld til fræðslumála 16,2% af heildarútgjöldum hins opinbera.

Útgjöld hins opinbera sem hlutfall af VLF

Heildarskuldir hins opinbera námu 68,7% af landsframleiðslu í lok árs 2018
Peningalegar eignir hins opinbera námu 1.526 milljörðum króna í árslok 2018, eða sem nemur 54,3% af landsframleiðslu. Heildarskuldir hins opinbera námu 1.932 milljörðum króna í árslok 2018, eða sem nemur 68,7% af landsframleiðslu ársins, samanborið við 75,5% í lok árs 2017. Er þetta sjöunda árið í röð þar sem skuldir hins opinbera, sem hlutfall af landsframleiðslu, fara lækkandi en þær hafa ekki mælst lægri á þann mælikvarða í rúman áratug, eða síðan 2007.

Í árslok 2018 námu erlendar lántökur 4,5% af landsframleiðslu ársins, en hlutfall erlendra skulda hefur farið lækkandi frá árinu 2011 þegar þær mældust mestar sem hlutfall af landsframleiðslu, eða 27,2%. Innlendar lántökur sem hlutfall af landsframleiðslu hafa einnig farið lækkandi og námu 7,3% af landsframleiðslu í árslok 2018.

Peningalegar eignir og skuldir hins opinbera
Hlutfall af VLF201220132014201520162017 2018
Peningalegar eignir 67,3 60,5 61,6 49,1 50,9 56,2 54,3
Skuldir 119,0 110,2 109,0 95,3 84,2 75,5 68,7
Verðbréf 45,6 43,0 42,3 38,9 34,0 28,8 24,2
Lántökur 43,8 38,8 36,4 26,1 17,2 14,5 11,7
Innlendir lántökur 19,0 18,2 16,2 12,7 9,0 10,0 7,3
Erlendir lántökur 24,8 20,5 20,2 13,4 8,2 4,5 4,5
Lífeyrisskuldbindingar 23,8 23,3 23,6 25,3 27,8 27,2 26,5
Viðskiptaskuldir 5,8 5,1 6,6 5,0 5,1 5,0 6,3
Hrein peningaleg eign -51,7 -49,7 -47,4 -46,2 -33,3 -19,3 -14,4

1Leiðrétting hefur verið gerð á uppgjöri ríkissjóðs 2017 í samræmi við leiðréttingu Fjársýslu ríkisins á ríkisreikningi sem birt var í tengslum við útgáfu ríkisreiknings 2018.

2Vegna tafa á gagnaskilum er vinnslutími á uppgjöri hins opinbera og landsframleiðslunnar ekki sá sami. Samneyslutölur í þessari útgáfu eru því aðrar en í birtum tölum landsframleiðslunnar. Samræming þessara uppgjöra mun fara fram í tengslum við næstu útgáfu árlegra þjóðhagsreikninga.

Talnaefni