FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 10. MARS 2009

Út eru komin Hagtíðindi í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um fjármál hins opinbera árið 2008. Gefið er talnalegt yfirlit um helstu þætti opinberra fjármála, þ.e. ríkis, sveitarfélaga og almannatrygginga, og er áherslan fyrst og fremst á hið opinbera en samsvarandi upplýsingar um undirgeira þess er að finna á vefsíðu Hagstofunnar.

Af helstu niðurstöðum má nefna að hrein peningaleg eign hins opinbera, þ.e. peningaleg eign umfram skuldir, var neikvæð um 301 milljarð króna í árslok 2008, eða sem svarar 20,5% af landsframleiðslu. Hún hafði versnað um rúmlega 312 milljarða króna milli ára eða um 21,4% af landsframleiðslu. Peningalegar eignir hins opinbera námu 1.065 milljörðum króna í árslok 2008 og heildarskuldir 1.366 milljörðum króna.

Heildarútgjöld til heilbrigðismála voru 137,5 milljarðar króna 2008, eða 9,4% af landsframleiðslu. Þar af var hlutur hins opinbera 114 milljarðar króna en hlutur heimila 23,5 milljarðar, eða 17,1% af útgjöldunum. Af heildarútgjöldum hins opinbera 2008 runnu 18,7% til heilbrigðismála. Til fræðslumála var ráðstafað 119,6 milljörðum króna á árinu 2008, eða 8,2% af landsframleiðslu. Þar af var fjármögnun hins opinbera 109,2 milljarðar króna og hlutur heimilanna 10,4 milljarðar króna, eða 8,7%. Um 18% útgjalda hins opinbera runnu til fræðslumála. Til almannatrygginga og velferðarmála ráðstafaði hið opinbera 136 milljörðum króna 2008, eða 9,3% af landsframleiðslu, og nam hækkunin milli ára 24,5 milljörðum króna. Samtals ráðstafaði hið opinbera 359 milljörðum króna til þessara þriggja málaflokka eða 24,5% af landsframleiðslu og 58,9% af hreinum útgjöldum hins opinbera.

Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um ríflega 17 milljarða króna árið 2008, eða 1,2% af landsframleiðslu og 2,7% af tekjum. Til samanburðar var tekjuafkoman jákvæð um 5,4% af landsframleiðslu 2007 og 6,3% árið 2006. Þessi skarpi viðsnúningur á fyrst og fremst rætur að rekja til minni tekna hins opinbera, en skatttekjur drógust lítillega saman milli ára í krónum talið á sama tíma og útgjöldin jukust um rúmlega 18%. Að teknu tilliti til 192,2 milljarða króna yfirtöku ríkissjóðs á töpuðum kröfum vegna veðlána Seðlabankans er tekjuafkoma hins opinbera neikvæð um 209,3 milljarða króna 2008 eða 14,3% af landsframleiðslu.

Tekjur hins opinbera reyndust 637 milljarðar króna 2008 og hækkuðu um tæpa 13 milljarða króna milli ára eða rúmlega 2%. Sem hlutfall af landsframleiðslu námu þær 43,5% samanborið við 47,9% árið 2007 og hafa því lækkað umtalsvert á þennan mælikvarða. Útgjöld hins opinbera námu hins vegar 654 milljörðum króna árið 2008 og hækkuðu um 101 milljarð króna milli ára, eða úr 42,5% af landsframleiðslu árið 2007 í 44,6% árið 2007. Að teknu tilliti til yfirtöku ríkissjóðs á töpuðum kröfum vegna veðlána Seðlabankans eru heildarútgjöld hins opinbera 846 milljarðar króna 2008 eða 57,7% af landsframleiðslu.

Fjármál hins opinbera 2008, bráðabirgðauppgjör - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.