FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 27. APRÍL 2018

Ferðamenn keyptu ríflega 1,9 milljónir gistinátta í gegnum vefsíður á borð við Airbnb árið 2017. Auk þess áttu erlendir ferðamenn um 850 þúsund gistinætur þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu. Þar af voru gistinætur í bílum utan tjaldsvæða áætlaðar um 520 þúsund á síðasta ári og ríflega 330 þúsund gistinætur hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða á öðrum stöðum þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu. Helmingur gistinátta erlendra ferðamanna árið 2017 var á hótelum og gistiheimilum og um 19% á gististöðum sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður. Aðrar gistinætur utan hefðbundinnar gistináttatalningar (s.s. í bílum utan tjaldsvæða eða í húsaskiptum) voru um 8,5% af gistinóttum erlendra ferðamanna árið 2017. Við áætlun á gistinóttum utan hefðbundinnar gistináttatalningar er stuðst við niðurstöður úr landamærarannsókn meðal erlendra ferðamanna sem framkvæmd er í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og gistináttatalningu Hagstofunnar.

Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 voru gistinætur ferðamanna seldar í gegnum Airbnb og sambærilegar síður 307 þúsund og ógreiddar gistinætur erlendra ferðamanna 63 þúsund. Hagstofan mun framvegis birta mánaðarlegar tölur yfir heildarfjölda greiddra gistinátta, auk fjölda ógreiddra gistinátta erlendra ferðamanna. Tölur fyrir apríl 2018 verða birtar í lok maí.

Unnið er að því að skipta gistináttatölum vefsíðna á borð við Airbnb niður á landsvæði.

Tekjur af Airbnb 14,7 milljarðar árið 2017
Tekjur gististaða sem seldu gistinætur í gegnum Airbnb voru 14,7 milljarðar árið 2017 og jukust um 25% miðað við árið 2016 þegar þær námu 11,8 milljörðum króna. Þessar tölur byggjast á virðisaukaskattskilum en samkvæmt 12. grein laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 ber aðilum er kaupa rafræna þjónustu sem nýtt er hérlendis að greiða virðisaukaskatt af þeirri þjónustu. Samkvæmt 35. grein sömu laga ber erlendum aðila (Airbnb) sem selur þjónustu að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti hérlendis.

Tafla 1. Virðisaukaskattskyld velta í gististarfsemi 2014-2017
milljónir kr. 2014 2015 2016 2017
Velta hótela og gistiheimila 51.890 62.516 85.242 94.345
Velta leigusala sem nota Airbnb¹ 2.503 5.524 11.803 14.697
¹Velta er að hluta meðtalin í veltu hótela og gistiheimila en óljóst er að hve miklu leyti.

Á mælaborði ferðaþjónustunnar eru birt gögn um veltu Airbnb sem byggjast á gögnum frá vefskröpunarfyrirtækinu Airdna. Þar segir að tekjur gististaða af sölu í gegnum Airbnb hafi verið 19,4 milljarðar árið 2017 og 9,3 milljarðar árið 2016. Þessi þróun er ekki í samræmi við gögn úr virðisaukaskattskilum sem eru að mati Hagstofunnar áreiðanlegustu upplýsingar um veltu þeirra íslensku gististaða sem selja gistingu í gegnum Airbnb.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang gistiskyrslur@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.