FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 31. OKTÓBER 2017

Gistinætur á hótelum í september síðastliðnum voru 378.300 sem er 3% aukning frá sama tíma í fyrra. Um 55% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu eða 209.900, sem er 3% aukning frá fyrra ári. Á Suðurnesjum fjölgaði gistinóttum um 10%, 7% á Vesturlandi og Vestfjörðum og 4% á Suðurlandi. Á Norðurlandi fækkaði hins vegar gistinóttum um 3% en á Austurlandi var fjöldi þeirra sambærilegur og í september 2016.

Um 91% gistinátta á hótelum í september var skráð á erlenda ferðamenn og fjölgaði þeim um 6% frá fyrra ári. Gistinóttum Íslendinga fækkaði hins vegar um 17%. Bandaríkjamenn gistu flestar nætur (117.500), síðan Þjóðverjar (38.600) og Bretar (32.900), en gistinætur Íslendinga voru 32.800.

Á tólf mánaða tímabili, frá október 2016 til september 2017, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.206.000 sem er 18% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

76% nýting herbergja á hótelum í september 2017
Herbergjanýting í september 2017 var 76,0%, sem er lækkun um 1,7 prósentustig frá september 2016 þegar hún var 77,7%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 5,3%, mælt í fjölda herbergja. Nýtingin var best á Suðurnesjum, eða um 89,5%.

Gistinætur á hótelum
  September   Október–september  
  2016 2017 % 2015–2016 2016–2017 %
             
Alls 367.061 378.299 3 3.566.757 4.205.773 18
Höfuðborgarsvæði 204.009 209.851 3 2.275.868 2.595.486 14
Suðurnes 25.863 28.415 10 176.392 292.843 66
Vesturland og Vestfirðir 20.287 21.724 7 165.383 178.888 8
Norðurland 35.661 34.643 -3 267.333 280.931 5
Austurland 14.328 14.377 0 102.852 107.138 4
Suðurland 66.913 69.289 4 578.929 750.487 30
             
Íslendingar 39.637 32.782 -17 378.676 423.464 12
Erlendir gestir 327.424 345.517 6 3.188.081 3.782.309 19

Athygli skal vakin á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.

Tölur fyrir 2017 eru bráðabirgðatölur. Um þessar mundir fer fram vinna við endurskoðun á skiptingu gistinátta eftir þjóðerni ferðamanna. Þessi vinna hefur ekki áhrif á heildarfjölda gistinátta en gæti haft áhrif á hlutfall milli erlendra og innlendra ferðamanna. Stefnt er að því að ljúka þessari vinnu fyrir útgáfu endanlegra talna fyrir gistinætur á öllum tegundum gististaða fyrir árið 2017.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang gistiskyrslur@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.