FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 05. JÚLÍ 2006


Gistinóttum á hótelum í maí fjölgaði um 17% milli ára

Gistinætur á hótelum í maí síðastliðnum voru 102.100 en voru 87.200 í sama mánuði árið 2005, sem er 17% aukning. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum. Gistinóttum fjölgaði hlutfallslega mest á Austurlandi þar sem gistinætur fóru úr 3.400 í 4.200 milli ára, 24% aukning.  Á höfuðborgarsvæðinu nam fjölgunin rúmum 21%, er gistinóttum fjölgaði um tæp 13 þúsund, 59.700 í 72.400. Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum fjölgaði gistinóttum úr 8.000 í 8.700, 9% aukning. Á Suðurlandi nam aukningin 4% en gistináttafjöldinn þar fór úr 8.700 í 9.100. Á Norðurlandi fjölgaði gistinóttum úr 7.400 í 7.700, eða um 3%.   

Fjölgun gistinátta á hótelum í maí árið 2006 má að öllu leyti rekja til útlendinga. Þeim fjölgaði um 23% en gistinóttum Íslendingum fækkaði um 2,5%.

Gistirými á hótelum í maímánuði jókst milli ára, en hótel sem opin voru í maí síðastliðnum eru tveimur fleiri en árið á undan, úr 72 í 74.  Fjöldi herbergja fór úr 3.596 í 3.725, 4% aukning og fjöldi rúma úr 7.241 í 7.528, 4% aukning.

 

Gistinóttum á hótelum janúar - maí fjölgaði um 10%
Á fyrstu fimm mánuðum ársins fjölgaði gistinóttum um 10% frá fyrra ári, en gistináttafjöldinn fór úr 318.700 í 351.400 milli ára. Fjölgun varð á öllum landsvæðum nema Suðurlandi þar sem fjöldinn stóð í stað.  Hlutfallslega varð aukningin mest á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem gistinæturnar fóru úr 24.600 í 32.000 milli ára, 30% aukning. Á Austurlandi nam aukningin 18%, höfuðborgarsvæðinu 10% og Norðurlandi 3%. Fjölgun gistinátta á 1. ársþriðjungi má bæði rekja til Íslendinga og útlendinga. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 9% og gistinóttum útlendinga um 11%.  

 

Athygli skal vakin á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Í þessum flokki gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. 

Tölur fyrir 2006 eru bráðabirgðatölur.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.