FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 30. APRÍL 2025

Gistinætur á hótelum í mars voru tæplega 420.000 á landsvísu eða rúmlega 3,4% færri en á sama tíma árið 2024 þegar þær voru tæplega 435.000. Gistinóttum fækkaði mest á höfuðborgarsvæðinu (-6,3%) og Suðurlandi (-6,6%). Þá var einnig 3,2% fækkun á Vesturlandi og Vestfjörðum.

Gistinóttum á hótelum fjölgaði hins vegar töluvert á Norðurlandi (16,0%) og Suðurnesjum þar sem aukningin var tæplega 13,5%. Loks jókst fjöldi gistinátta á Austurlandi um 7,5% í mars. Alls fækkaði gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu um ríflega 15.000 frá fyrra ári en samanlagður fjöldi gistinátta í öðrum landshlutum var óbreyttur á milli ára.

Framboð hótelherbergja í mars jókst um rúmlega 1,3% miðað við sama tíma árið 2024. Mest var aukningin á Norðurlandi þar sem herbergjafjöldi jókst um rúmlega 8%. Þá var 2,9% aukning á Suðurlandi og tæplega 1,1% aukning á Suðurnesjum. Á Austurlandi dróst framboð hótelherbergja saman um tæplega 3% en minni breytingar voru á höfuðborgarsvæðinu (-0,3%) og Vesturlandi og Vestfjörðum (-0,4%).

Herbergjanýting dróst aftur á móti saman um 1,3 prósentustig á landinu í heild sinni. Ástæðan var einkum 2,9 prósentustiga minni nýting herbergja á höfuðborgarsvæðinu og 5,0 prósentustiga minni nýting á Suðurlandi. Í öðrum landshlutum jókst hins vegar nýting hótelherbergja og var mest aukning á Suðurnesjum (9,5 prósentustig). Á Austurlandi jókst nýtingin um 4,8 prósentustig og 3,2 prósentustig á Norðurlandi. Lítil breyting var hins vegar á Vesturlandi og Vestfjörðum (0,4 prósentustig).

Allir gististaðir
Þegar allir skráðir gististaðir (hótel, gistiheimili, tjaldsvæði, orlofshús, o.fl.) eru skoðaðir var áætlaður heildarfjöldi gistinátta í mars rúmlega 630.000. Þetta var 2,9% samdráttur miðað við sama tíma árið 2024 en þá var heildarfjöldi gistinátta á öllum gististöðum rúmlega 649.000. Meginþorri gistinátta var á hótelum og gistiheimilum eða tæplega 485.000 (420.000 á hótelum og 65.000 á gistiheimilum) en um 145.000 á öðrum tegundum skráðra gististaða (tjaldsvæðum, orlofshúsum, o.s.frv.).

Endurskoðun gagna eftir þjóðerni og óskráðar gistinætur
Unnið er að endurskoðun á flokkun gagna um gistinætur og er því ekki unnt að birta sundurliðun á fjölda gistinátta eftir þjóðerni að svo stöddu. Á meðan unnið er að frekari skoðun á gögnunum verður því tölfræði um gistinætur ekki birt eftir þjóðerni gesta. Rétt er þó að geta þess að ekki er ástæða til að véfengja heildarfjölda gistinátta.

Þar sem útreikningar á áætluðum óskráðum gistinóttum erlendra ferðamanna byggja á upplýsingum um fjölda gistinátta eftir þjóðerni er sömuleiðis ekki unnt að birta staðfestar tölur um áætlaðar óskráðar gistinætur erlendra ferðamanna hér á landi í mars.

Lýsigögn
Tölur um gistinætur fyrir skráða gististaði eru fengnar úr gistináttagrunni Hagstofu Íslands. Lýsigögn um fjölda gististaða, gesta og gistinátta má nálgast á vef Hagstofunnar.

Um gögnin
Allar tölur fyrir 2025 eru bráðabirgðatölur nema tölur um gistinætur hótela þar sem bráðabirgðatölur eru fyrir mars 2025.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.